Sjálfstýringin er á og flugmennirnir sofnaðir

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, á afmælisfundi EES-samningsins í Brussel á dögunum.

Eftir Ragnar Önundarson:

Eiríkur Bermann Einarsson, mætur maður og mikill Evrópusinni, lét í sér heyra í hádegisfréttum Bylgjunnar. Hann lét þá skoðun í ljós að andstæðingar O3 væru að grafa undan aðildinni að EES ,,án tillits til undirliggjandi hagsmuna þjóðarinnar” og vísaði þar vafalaust við þeirra viðskiptakjara sem fylgja aðildinni fyrir útflutningsfyrirtækin. Og eigendur þeirra. Það er svo gott svo langt sem það nær.

Almenningur finnur því miður fyrir annarri hlið á aðildinni: Samkeppnisreglur ESB sem hér skulu gilda ganga út frá forsendu um að til staðar séu alvöru, virkir markaðir sem lögmál framboðs og eftirspurnar gildi um í harðri samkeppni.

Svo er því miður ekki.

Á öllum helstu heimamörkuðum okkar ríkir fákeppni. Samkeppnisyfirvöld framkvæma ESB reglurnar án tillits til þessa mismunar og samþykkja næstum allar óskir um leyfi til samruna og yfirtöku fyrirtækja.

Bankar, greiðslukortafélög, olíufélög, tryggingafélög, skipafélög, flugfélög, dagvöruverslun, byggingavöruverslun, steypustöðvar, apótek, fjölmiðlun, símafélög, … ofl. ofl. eru fákeppnisfélög, sem eiga sér sameiginlegt að forðast verðsamkeppni. Samkeppnin getur verið mikil í gæðum, þjónustu og um bestu / stærstu bitana, en almennir viðskiptavinir bera sjálftökulaun og -arð, bónusa og kauprétti eigenda uppi.

Ragnar Önundarson fv bankamaður.

Nýlega færðist samþjöppunin í aukana með samruna olíufélaga við dagvöruverslanir. Samkeppnisreglur ESB ganga (eins og Adam Smith) út frá virkum mörkuðum, sem varla finnast hér. Íbúar landsins eru álíka margir og í evrópskri smáborg, td. Bergen. Í von um að njóta nálægðar við fullkomnari markaði gengum við í EES, sem er umgjörð evrópsks kapítalisma. Sú umgjörð hefur ekki reynst okkur nógu vel. Við sáum samþjöppunina og fákeppnina ekki fyrir. Samt er það ofureinfalt sem gerist: Sérhver forstjóri fákeppnisfélags veit að verðsamkeppni er það sem eyðileggur arðsemi fákeppnisfélaga. Engin stjórn fákeppnisfélags hefur forstjóra í vinnu sem ekki skilur þetta.

Skondið er að harðsnúnum evrópusinna hefur verið falið að leiða mat á árangrinum. Niðurstaðan er sjálfgefin fyrirfram. Áhrif sjálftökunnar á hag almennings verður ekki metin.

Smám saman er nú þrengt að fullveldi okkar. Erlendum fjárfestum með erlenda laxastofna er td. veittur aðgangur að viðkvæmri náttúru, til að skapa erlendu vinnuafli atvinnu. Orkupakki 3 er undanfari Orkupakka 4 og svo koma nr. 5 og 6.

Sjálfstýringin er á og flugmennirnir sofnaðir.

Höfundur er fv. bankamaður.