Eftir Jón Ragnar Ríkharðsson:
Eftir hrun skapaðist þverpólitísk samstaða allra flokka á þingi um að mynda vantraust á sjálfum sér og hún hefur ekki rofnað síðan. Þingmenn mæta í pontu og tala um hversu illa þeir standi sig í starfi en telja samt rétt að fá launahækkun fyrir. Á sama tíma telja þeir snargalið að pöpullinn fái meira en örlitlar launahækkanir af ótta við verðbólguskrið.
Með spekingssvip á vör tilkynna þeir alþýðunni að eina forsenda launahækkanna sé aukin verðmætasköpun atvinnulífsins. M.ö.o.: Til að fá hærri laun þarf að skapa meiri verðmæti.
Svo er það alkunn staðreynd að laun ákvarðast m.a. af framboði og eftirspurn. Það getur enginn bent á aukna verðmætasköpun þingmanna og framboð á skrítnu fólki sem vill setjast á þing virðist nánast endalaust.
Sjálfur tilheyri ég þessum stóra hópi furðufugla sem trúir að það sé þjóðinni afskaplega hollt að fá sig á þing — hvort það er nú satt eður ei.
Ekki treysti ég mér til að rengja helstu hagspekinga landsins, en þeir segja allir að of miklar launahækkanir orsaki verðbólgu og séu öllum til skaða.
Gvendur heitinn Jaki var á sömu skoðun þegar hann hafði áratugum saman staðið fyrir sömu baráttu og núverandi verkalýðsforysta stundar af miklum móð. Þess vegna barðist hann fyrir þjóðarsáttinni frægu ásamt öðrum og þjóðin uppskar sennilega bestu kjarabætur sögunnar.
Verkföll munu örugglega skaða alla hópa og þá tekjulægstu mest en staðreyndir skipta litlu máli í því ástandi sem stjórnmálamenn hafa skapað með þéttri samstöðu allra flokka.
Ég á auðvelt með að skilja verkalýðinn enda fæddur í þann frábæra hóp. Það er heldur ekki erfitt fyrir mig að skilja atvinnurekendur og stjórnvöld — þessir hópar hafa örugglega rétt fyrir sér varðandi skaðsemi verkfalla og meiri launahækkanna en atvinnulífið stendur undir.
Verkafólk býr margt við það böl að lifa á lágum launum og upplifir stöðugt vanmátt sinn. Þótt margir í þessum hópi hafi það þokkalegt og eigi möguleika á jafnvel háum launum skiptir það engu máli. Vegna þess að við í verkalýðsstétt deilum öll sömu reynslunni. Hjá okkur ríkir ákveðin minnimáttarkennd vegna þess að við erum svo háð okkar vinnuveitendum. Í okkar hópi eru margir sem hafa hvorki frumkvæði né kjark til að berjast til mikilla álna og ég tilheyri víst sjálfur þeim hóp.
Fjölmiðlar segja nær daglega fréttir af gríðarlegum launahækkunum fyrir hálaunafólk á meðan okkur er sagt að hóflegar hækkanir til okkar séu nauðsyn. Verkafólk ber m.ö.o. ábyrgð á efnahagsmálum þjóðarinnar án þess að fá mikið í staðinn. Það er sárt að lifa við það. Þess vegna ætti að vera fyrsta skref forystufólks í stjórnmála og viðskiptalífi þjóðarinnar að sameinast um launafrystingu til óákveðins tíma.
Svo er það virkt samtal milli þings og þjóðar sem er mikilvægast af öllu. Stjórnvöld geta komið með kórréttar tölur og haft rétt fyrir sér að öllu leiti. En það hefur ekkert gildi vegna þverpólitískrar samstöðu allra flokka um áframhaldandi vantraust á sjálfum sér.
Allt hefur afleiðingar og stjórnmálamenn hafa sofið á verðinum allt of lengi.
Þess vegna er því miður líklegt að við fáum verkföll sem allir munu tapa á þegar upp er staðið.
Ástandið er stjórnmálamönnum að kenna og þeir einir geta lagað það.
Höfundur er sjómaður og formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.