Skoðanastýring og áhrif skoðanakannana

Eftir Högna Elfar Gylfason:

Nú líður senn að kosningum til embættis forseta Íslands og Alþingis Íslendinga í kjölfarið. Í því ljósi er við hæfi að velta fyrir sér hvernig aðdragandi og umfjöllun um kosningar og þá sem í kjöri eru, fer fram í samfélaginu.

Allnokkuð er síðan ýmsir mætir menn fóru að lýsa áhuga eða ásetningi sínum að bjóða sig fram í kosningum til embættis forseta. Óvenju margir og fjölbreytilegir einstaklingar eru í þeim hópi, en það er afar ánægjulegt að búa í lýðræðisríki þar sem venjulegt fólk getur og vill bjóða fram krafta sína fyrir land og þjóð.

Hvernig fer svo kosningabarátta frambjóðendanna fram?

Ljóst má vera að umtalsverð vinna og kostnaður felst í því að kynna sig og áherslur sínar fyrir landsmönnum. Fyrir þá sem eru ekki þjóðþekktir má vænta meiri kostnaðar og að erfiðara sé að vekja á sér athygli.

Aðkoma fjölmiðlanna

Áhugavert að skoða aðkomu fjölmiðla að kosningabaráttunni, en fjölmiðlum hefur fjölgað mikið undanfarið og eru þeir afar fjölbreyttir. Viðtöl við ýmsa hafa verið að birtast, til dæmis í hlaðvörpum á netinu, en þar virðist ekki um neitt sérstakt skipulag að ræða heldur fremur dug og áhuga hlaðvarpsstjórnenda eða frambjóðenda að koma sér á framfæri. Þá hafa ýmsir verið duglegir að ferðast um landið og hitta fólk til að kynna framboð sín.

Hvernig hefur umfjöllun stóru fjölmiðlanna verið í aðdraganda forsetakosninganna?

Ekki hefur orðið vart við skipuleg viðtöl við alla frambjóðendur, en þeim mun meiri umfjöllun er um niðurstöður skoðanakannana ásamt greiningum ýmissa tilkallaðra álitsgjafa og fjölmiðlamanna sjálfra. Þannig er nokkuð síðan stóru fjölmiðlarnir gáfu út dauðadóm yfir framboði flestra þeirra sem hafa boðið sig fram og líst yfir að þrír til fjórir séu að keppa um embættið. Þetta var þar á meðal gert með því að láta gera skoðanakannanir sem innihéldu fólk sem alls ekki hafði boðið sig fram og einnig með því að standa fyrir endalausum vangaveltum um að hinir og þessir gætu boðið sig fram eða væru frambærilegri en aðrir að þeirra mati.

Réttmætar kannanir?

Nú hafa löngum verið leiddar að því líkur að skoðanakannanir og umfjöllun um þær geti verið skoðanamyndandi fyrir sumt fólk. Þannig séu sumir þeirrar gerðar að vilja alltaf vera í vinningsliðinu, aðrir vilja nota atkvæði sitt til að koma í veg fyrir framgang ákveðins framjóðanda og enn öðrum þykir rétt að kjósa ekki þá sem skora lágt í skoðanakönnunum til að atkvæði þeirra “fari ekki til spillis”.

Í þessu ljósi má spyrja spurninga um réttmæti óheftra og síendurtekinna skoðanakannana í aðdraganda kosninga.

Spyrja má hvort niðurstaða kosninga sé sú rétta ef fjöldi manns kýs í raun ekki eftir eigin sannfæringu, heldur fremur því sem almannarómur og skoðanakannanir krefjast. Þá er líklegt að í einhverjum tilfellum séu skoðanakannanir framkvæmdar á ákveðnum tímapunkti og með ákveðnum áherslum í því skyni að hafa áhrif á almenningsálitið, en hver sem er getur keypt slíka könnun hjá fyrirtækjum sem starfa í þeim geira.

Er umfjöllun sanngjörn og óháð?

Ójafnvægi milli framjóðenda til embættis forseta Íslands er mikið þar sem þjóðþekktum einstaklingum er hampað á kostnað samkeppnisaðila þeirra og þá sérstaklega í stærstu fjölmiðlunum. Þá má leiða að því líkum að í aðdraganda alþingis- og sveitarstjórnakosninga sé svipað uppi á teningnum þar sem skoðanakönnunum ásamt ójafnri og á stundum óvæginni umfjöllun er beitt að því er virðist til að hafa áhrif á ákvarðanir kjósenda.

Í einhverjum tilfellum má reikna með að mismunun að þessu leyti sé ómeðvituð hjá fjölmiðlafólki, en í öðrum er mögulegt að um ásetning sé að ræða, annaðhvort kaupenda skoðanakannana og umfjallana eða fjölmiðlanna sjálfra og starfsmanna þeirra.

Lýðræðið Ísland?

Getur verið að kosningar í lýðræðisríki þar sem frambjóðendum og flokkum er mismunað stórlega líkt og lýst er hér að ofan séu í raun lýðræðislegar og frjálsar?

Er nauðsynlegt að vera frægur, ríkur eða hvort tveggja til að fá umfjöllun fjölmiðla og þar með framgang í kosningum?

Geta íslendingar gert betur til að fá fram raunverulegan vilja almennings þegar valið er til forystustarfa í stjórn landsins?

Svarið er já.

Höfundur er bóndi og varaþingmaður Miðflokksins í norðvesturkjördæmi.