Skýrar línur dregnar í sandinn

Eftir Ólaf Ísleifsson:

Málefni hælisleitenda brenna á landsmönnum. Krafan um úrbætur rís hátt. Húsfyllir var á umræðufundi málfundafélagsins Frelsis og fullveldis í Kópavogi þar sem yfirskrift fundarins var: Löggæsla og landamæraeftirlit á viðsjárverðum tímum. Málshefjendur voru Karl Gauti Hjaltason lögreglustjóri og Guðbjörn Guðbjörnsson formaður Tollvarðafélagsins. Fyrrum lögreglustjóri í Keflavík Jóhann R. Benediktsson lagði fram marktækar upplýsingar á fundinum um reynslu af landamæraeftirliti. Samþykkt var efnismikil ályktun á fundinum, einróma með lófataki.

Staðreyndirnar liggja fyrir

Staðreyndir málsins liggja fyrir: Úgjöld til málaflokks hælisleitenda hafa fertugfaldast á liðnum áratug. Innflutningur fólks nemur 70 þúsund manns á umliðnum árum.

Við tökum við hælisleitendum margfalt á við það sem gerist í nágrannalöndunum. Innflutningur á fólki svarar til íbúafjölda Grindavíkur eða Vestmannaeyjabæjar á ári hverju.

Ályktun fundarins talar sínu máli og dregur skýrar línur í sandinn í málaflokknum, m.a. í efnum sem lítið hafa verið rædd til þessa.

Ályktun fundarins

„Málfundafélagið Frelsi og fullveldi hafnar ríkjandi stefnu stjórnvalda að landamæri landsins standi galopin að kröfu öfgasamtaka og fylgjenda þeirra. Málfundafélagið beinir því eindregið til stjórnvalda að full stjórn sé á landamærunum í samræmi við fullveldi þjóðarinnar og ákvörðunarvald um hverjir komi hingað til lands.

Málfundafélagið hafnar hóflausum fjáraustri til málaflokks hælisleitenda. Málfundafélagið telur að gengið hafi verið of nærri innviðum samfélagsins í skólum og heilbrigðisstofnunum. Öngþveiti ríkir í húsnæðismálum. Þúsundir Íslendinga hafa hrakist af heimilum sínum í Grindavík, innviðir landsins þola ekki fjölgun um 70 þúsund manns á umliðnum árum. Engar forsendur eru því til áframhaldandi innflutnings hælisleitenda. Málfundafélagið fordæmir óraunhæfar hugmyndir um stórfelldan innflutning á fólki frá framandi menningarsvæðum á grundvelli svokallaðrar fjölskyldusameiningar.

Málfundafélagið vill að tafarlaust verði brugðist við kalli þjóðarinnar eftir aðgerðum. Fyrsta verkefnið er að ráðherra beiti lagaheimild til að taka upp tímabundið eftirlit á íslenskum landamærum vegna alvarlegrar ógnar við allsherjarreglu og þjóðaröryggi eins og nú er tvímælalaust fyrir hendi. Fjölmörg fordæmi eru fyrir beitingu sambærilegra reglna meðal annarra aðildarríkja Schengen-samstarfsins vegna miklu minni ásókar í alþjóðlega vernd en Ísland stendur frammi fyrir. Engrar lagasetningar er þörf til að stöðva strauminn og skrúfa þar með fyrir opinn krana á útgjöld úr ríkissjóði.

Landamærin verði varin

Landamærin verði einnig varin með því að taka upp tafarlausa skyldu flugfélaga til að leggja opinberum aðilum til farþegaskrár og vegabréfsupplýsingar. Lendingarleyfi hér á landi verði því aðeins veitt að þessari skyldu sé fullnægt. Þeim farþegum sem ekki uppfylla skilyrði til að koma til landsins verði vísað frá á flugvelli.

Málfundafélagið krefst þess að tekin verði upp sú regla að umsækjandi með hæli í öðru landi fái ekki efnisumfjöllun um umsókn um alþjóðlega vernd.

Hætt verði að greiða fyrir lögfræðiþjónustu á fyrra stigi umsóknar. Þak verði sett á lögfræðikostnað á seinni stigum. Ekki kemur til greina að ríkið veiti hælisleitendum meiri aðstoð en býðst almennum íslenskum borgurum.

Fjölskyldusameining afmarkist við nánustu fjölskylda og komi aðeins til álita eftir tveggja ára dvöl í landinu. Stuðst verði við DNA-próf til að sannreyna fjölskyldutengsl að norskri fyrirmynd.

Að danskri fyrirmynd verði gert að skilyrði fyrir fjölskyldusameiningu að hælisleitendur hafi haft búseturétt eða landvistarleyfi í tvö ár, hafi lært tungumálið, séu í vinnu, sýni fram á að eiga fyrir framfærslu og séu komnir með húsnæði.

Gera skal kröfu um aðlögun hælisleitenda og að þeir lýsi stuðningi við vestræn gildi, lýðræði og mannréttindi, þar á meðal jafnrétti kynjanna. Hafnað er kröfu um svonefnda inngildingu sem felur í sér að Íslendingar skuli lagi sig að siðum og háttum aðkomufólks.

Opinn fundur málfundafélagsins haldinn í Kópavogi 26. febrúar 2024 krefst þess að þegar verði stöðvaður innflutningur hælisleitenda og gripið til annarra aðgerða eins og að ofan er rakið.“

Höfundur er doktor í hagfræði og fv. alþingismaður.