Slátrum gullgæsinni!

Eftir Jóhannes Þór Skúlason:

Yfirlýsingar forsvarsmanna Eflingar og VR undanfarna daga og vikur bera ekki með sér að þar fari fólk sem ber mikið skynbragð á samhengi efnahagslífsins. 

Það hefur til dæmis verið fjálglega talað um stórfyrirtæki í ferðaþjónustu sem græði á tá og fingri. Staðreyndin er sú að um 86% allra fyrirtækja í ferðaþjónustu hafa 10 eða færri starfsmenn. Rúm 11% til viðbótar hafa 10-49 starfsmenn. Það eru semsagt 98% af öllum fyrirtækjum í ferðaþjónustu lítil og meðalstór. Aðeins 1,9% þeirra hafa 50 starfsmenn eða fleiri. 

Og öll þessi fyrirtæki hafa glímt við gífurlegar kostnaðarhækkanir undanfarin ár, meðal annars vegna launakostnaðar og sterks gengis krónunnar. Það er því miður eitt helsta áróðurstrikk sumra sem nú tjá sig hvað hæst um kjaramál og ferðaþjónustu að halda á lofti síauknum ferðamannafjölda sem búi til miklar tekjur. 

En þær tölur segja ekki nema hálfa söguna. Rekstur fyrirtækis er jafnvægislist þar sem öðru megin er aflað tekna og hinu megin er greiddur kostnaður. Og það hefur margsinnis komið fram á undanförnum mánuðum, til dæmis í skýrslu KPMG í lok síðasta árs, að kostnaður ferðaþjónustufyrirtækja hefur aukist svo mikið að fjöldi fyrirtækja á í miklum rekstrarerfiðleikum.

Það er ekkert samhengi milli fjölda ferðamanna og afkomu fyrirtækjanna. Það hefur margoft komið fram í fjölmiðlum og opinberum tölum og óháðum skýrslum.

En því er einfaldlega hafnað. Þær upplýsingar passa ekki inn í heimsmynd forystumanna Eflingar og VR. Og sú heimsmynd virðist jafn ófrávíkjanleg eins og kröfugerðin.

Ófrávíkjanlegt piss í skóinn

Því stöndum við frammi fyrir því að þessir sömu forystumenn stýra nú liði sínu í vanhugsað áhlaup á ferðaþjónustuna. Atvinnugrein sem hefur staðið undir endurreisn efnahagslífsins hraðar en nokkur þorði að vona.

Atvinnugrein sem hefur nær útrýmt atvinnuleysi í landinu. Atvinnugrein sem hefur gert meira fyrir atvinnutækifæri og afkomu minni samfélaga á landsbyggðinni en samanlagðar byggðaaðgerðir stjórnvalda á þessari öld. Atvinnugrein sem greiðir heilan Landspítala í skatta til ríkis á hverju ári. 

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Setjum þetta í annað samhengi: Efling og VR kjósa að ráðast harðast á atvinnugreinina sem á síðasta ári greiddi í beina skatta til ríkis og sveitarfélaga sömu upphæð og öll framlög ríkisstjórnarinnar til fjölskyldumála, barnabóta, fæðingarorlofs, bóta vegna félagslegar aðstoðar, bóta vegna veikinda og slysa, málefna innflytjenda og flóttamanna, vinnumarkaðs og atvinnuleysismála og húsnæðisstuðnings samanlagt. 

Þetta er ein mikilvægasta ástæða þess að tjón sem verkföll valda ferðaþjónustunni eru tjón allra í samfélaginu. Ferðaþjónustan er ekki eitthvað samsafn ímyndaðra jakkafatakalla sem er hægt að kreista að vild án afleiðinga. Ferðaþjónustan er grundvallartannhjól í klukkuverki samfélagsins og það er stórhættulegt fyrir allt samfélagið að valda henni vísvitandi skaða nú þegar bókunartímabil ferðamanna fyrir sumarið stendur sem hæst.

Það mun ekki leiða til þess að fyrirtækin séu líklegri til að geta greitt hærri laun. Það mun heldur ekki leiða til þess að ríkissjóður geti boðið hærra eða meira til að liðka fyrir samningum. Þvert á móti. Það mun aðeins leiða til þess að allir tapa. 

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.