Snýst þetta allt um hatur á vestrænu lýðræði?

Brynjar Níelsson fv alþingismaður.

Eftir Brynjar Níelsson:

Heiftin hefur verið samofin vinstri mönnum svo lengi sem ég man. Vissulega eru þeir misofstækisfullir, en þeir ná langflestir að réttlæta voðaverk svo lengi sem þau gagnast málstaðnum. Meira að segja menn sem tengja sig við lýðræðislega krataflokka eiga erfitt með sig.

En hver er þessi málstaður? Hann er sá að knésetja vestrænt lýðræði, sem þeir kalla auðvaldskipulag þar sem óréttlæti og kúgun á almenningi sé allsráðandi. Þessi andúð á vestrænu lýðræði og markaðsbúskap sameinar vinstri menn um allan heim.

Þetta hefur ekkert breyst þótt saga sósíalísku ríkjanna sé blóði drifin, ekki síst þegar kemur að eigin borgurum; allt lýðræði fótum troðið, spilling landlæg og fátækt og hörmungar þar til kemur að hruni samfélagsins.

Hamas hófu þetta stríð

Þetta kemur skýrt fram í afstöðunni til stríðsins fyrir botni Miðjarðarhafs. Þar ráðast Hamas, sem stjórna Gaza, inn í Ísrael, drepa óbreytta borgara og taka hundruð karla, kvenna og barna í gíslingu. Það heitir á mannamáli að hefja stríð. Hamas er ekkert annað en hryðjuverkasamtök, eiginlega ISIS hluti Palestínuaraba, sem hafa það að markmiði að eyða öllum gyðingum úr Palestínu og sjálfu Ísraelsríki um leið.

Þótt bókstafstrú Islamista eigi eigi lítið sameiginlegt með jafnréttishugmyndum vinstri manna skal málstað þeirra sýndur stuðningur þegar slær í brýnu við vestræn lýðræðisríki. Ég kann ekki betri skýringu á hegðun vinstri manna á vesturlöndum en að þessi hugmyndafræði islamista sé ógn við vestrænt lýðræði og þar með sé hægt að slá tvær flugur í einu höggi.

Ég efast um að aðrir geti komið með betri skýringu á þessari undarlegu vegferð vinstri manna.

Ofsafengin viðbrögð hér á landi

Það er ekki margt sem kemur mér úr jafnvægi, en ég viðurkenni að ég varð fyrir hálfgerðu sjokki að sjá ofsafengin viðbrögð valinkunna sósíalista hér landi frá fyrsta degi þessara átaka þegar Hamas fór inn í Ísrael í þeim tilgangi að myrða saklausa borgara og taka aðra í gíslingu.

Þetta fólk harðneitar að fordæma ótrúleg illskuverk og gyðingaandúðin vellur úr munnvikunum. Andúð sósíalista á gyðingum er ekki ný af nálinni og var einna mest áberandi á fyrri hluta síðustu aldar þegar þjóðernissósíalistar voru hvað öflugastir.

Allt þetta breytir því ekki að Ísrael þarf að fara eftir alþjóðalögum í þessu stríði og gæta þess, eins og kostur e,r að sem minnstur skaði verði fyrir almenna borgara á Gaza. Nú veit ég ekkert hvernig þeir hafa staðið sig í því og treysti á að vestræn lýðræðisríki tryggi að Ísrael standi við alþjóðlegar skuldbindingar í þessum efnum sem öðrum.

Höfundur er lögmaður og fv. alþingismaður.