Sósíalisminn drepur lýðræðið

Eftir Jón Ragnar Ríkharðsson:

Til að hrekja það sem sósíalistar munu segja um mig — telji þeir þessa grein ógna sér — mun ég hefja hana á því að segja aðeins frá sjálfum mér og mínu lífshlaupi.

Ég er alinn upp í Neðra Breiðholti af láglaunamanni og heimavinnandi húsmóður. Deildi herbergi með tveimur bræðrum til þrettán ára aldurs því foreldrar okkar höfðu ekki efni á öðru en tveggja herbergja íbúð í Framkvæmdarnefndarblokk (þær voru byggðar fyrir fátækasta fólkið).

Æskuárin einkenndust af stanslausu basli, því það voru aldrei peningar til. Það þýddi ekkert að stunda áhugamál sem kostuðu eitthvað. En foreldrar mínir bættu fátæktina upp með endalausum kærleika þannig að við bræður áttum góða æsku. Engir félagsfræðingar voru til sem sögðu hversu slæm áhrif fátæktin hafði á börn þannig að við upplifðum engar slæmar afleiðingar af henni.

Sá sem vill vera upp á aðra kominn er aldrei frjáls og frelsið er verðmæt auðlind.

Áar mínir voru flestir fátækir verkamenn, sjómenn og bændur þannig að ég er sannarlega fæddur í verkalýðsstétt og hef verið partur af þeim góða hópi alla tíð. Eftir tvö ár verða komin fjörutíu ár frá því ég kom um borð í togara fyrst og ennþá starfa ég sem háseti á togara. Í þrjátíu og átta ár samfellt hef ég unnið erfið líkamleg störf til sjós og lands en mest þó á sjó. Það þýðir að ég hef sennilega unnið meira við verkamannastörf en flestir sem boða sósíalismann — amk. ekki minna.

Eins innmúraður og mögulegt er

Í tíu ár hef ég verið virkur í störfum Sjálfstæðisflokksins og er eins innmúraður og mögulegt er. Partur af forystu flokksins og sit í öllum æðstu stofnunum hans auk þess að vera varaþingmaður á hans vegum.

Jón Ragnar Ríkharðsson sjómaður.

Sósíalistar telja eflaust að ég sé að þessu til að njóta hlunninda eða lifa í skjóli valdamikilla auðjöfra. Ekkert er fjarri sanni, enda þyrfti ég þá ekki að þræla baki brotnu á dekkinu í öllum hugsanlegum aðstæðum og veðrum. Ég þarf enga auðmenn til að sjá fyrir mér heldur hefur vinnan dugað til þess.

Sá sem vill vera upp á aðra kominn er aldrei frjáls og frelsið er verðmæt auðlind.

Þrátt fyrir að vera kapítalisti í hugsun ek ég um á tólf ára gömlum bíl og hann dugar vel, bý í litlu fjölbýlishúsi og berst ekkert á. Enda verða verkamenn aldrei ríkir á sinni vinnu en við getum orðið hamingjusamir eins og ég og aðrir hafa sannað.

En þröngur heimur sósíalismans getur ekki skilið að verkamaður sé hægri sinnaður kapítalisti eins og ég – án þess að vilja græða peninga og/eða sambönd. En við erum fleiri verkamennirnir í Sjálfstæðisflokknum sem getum auðveldlega staðið á eigin fótum.

Hvers vegna er ég ekki sósíalisti?

Hvers vegna er maður eins og ég ekki sósíalisti? Vegna þess að mér finnst þetta ógeðsleg og mannfjandsamleg stefna. Sósíalisminn gerir bara ráð fyrir einni manngerð — sósíalistum. Og þeir virðast halda að allir sé sósíalistar í eðlinu — það er hættulegast við þá. Allir sem tala gegn þeim gera það í vafasömum tilgangi til að viðhalda völdum auðstéttarinnar.

Ranghugmyndir þeirra eru hættulegar því þær ógna mannlegu eðli. Þeir segja að við séum öll jöfn en það er blekking. Við höfum heldur ekki jöfn tækifæri og engin stjórnmálastefna getur haft áhrif á það. Börn sem fæðast í menntaðar fjölskyldur hafa betri tækifæri til menntunar en við hin — þetta er staðreynd. Og við fæðumst misstór bæði andlega og líkamlega.

Lífið hlustar ekkert á skoðanir sósíalista heldur hefur það lögmál sem enginn mannlegur máttur hefur áhrif á. En sósíalistar lofa farsæld sem þeir geta aldrei staðið við.

Sósíalisminn er ein stór blekking sem lifir á stanslausu lýðskrumi. Til þess að lýðskrumið virki er nauðsynlegt að ráðast á alla sem gagnrýna það. Þess vegna eru allir sem ekki eru sósíalistar og berjast gegn þeim í stöðugri hættu á mannorðsmissi og/eða frelsisskerðingu. Í versta falli tapa þeir lífinu vegna skoðana sinna og sagan geymir mörg dæmi sem staðfesta það.

Leiðtogar sósíalista í ríkjum sem neyðast til að þola þennan hrylling lifa í vellystingum meðan hinn almenni borgari á í stöðugu basli.

Lýðræðið gefur öllum rödd

Lýðræðið gefur öllum skoðunum raddir og þannig á það að virka. En þar sem sósíalisminn þolir aðeins eina rödd mun hann drepa lýðræðið komist hann til valda.

Við hægri menn lofum ekki því að þörfum allra verði fullnægt og enginn þurfi að líða skort. Það þýðir ekki að við viljum hafa fátækt og örbirgð — við viljum gjarnan að allir lifi með reisn og draumar allra rætist. En við erum bara holdlegar sálir og skynjum okkar vanmátt.

Kapítalisminn hefur sínar dökku hliðar og það viðurkennir kapítalistinn ég. En því miður get ég ekki boðið neitt betra en vona sannarlega að framtíðin feli í sér betri leiðir sem færa fleirum farsæld.

En ég er hinsvegar viss um að sósíalisminn er ekki svarið.

Höfundur er sjómaður og formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.