Stjórnlynda frjálslyndið

Jón Þorláksson fv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Eftir Jón Ragnar Ríkharðsson:

Jón Þorláksson var einn stofnenda Sjálfstæðisflokksins og hann taldi betra að skipta frekar stjórnmálaflokkum í frjálslynda og stjórnlynda en hægri og vinstri. Sá mikli skörungur hefur eflaust talið að stjórnmálamenn héldu áfram að tileinka sér hugmyndafræði sem þeir boðuðu og berðust fyrir — hann sá ekki fram til næstu aldar. En Jóni er vorkunn því hann þekkti lítið annað en hugmyndafræðilega  pólitík á sínum stjórnmálaferli. Þrátt fyrir framsýni og visku gat hann ekki órað fyrir að inn í þinghúsið myndi skola unglingum á ýmsum aldri sem virðast ekki skilja einföldustu hugtök stjórnmálanna.

Sumir stjórnmálamenn fullyrða um eigið frjálslyndi og skilja má þá svo, að þeir telji sig standa öðrum framar í frjálslyndum dyggðum. Svo boða þeir á sama tíma dásemdir ESB og telja það eflandi fyrir frjálslynda hugsun. Ekkert óeðlilegt við að skiptar skoðanir séu varðandi aðild en boða frjálslyndi og ESB í sömu setningunni sýnir ekki góðan pólitískan skilning. ESB stefnir stöðugt meira í átt miðstýringar og fátt er fjarlægara frjálslyndinu en hún.

Svo skal skylda öll fyrirtæki af vissri stærð til jafnlaunavottunar og auka rekstrarkostnaðinn um leið. Að þvinga fyrirtæki til jafnlaunavottunar á sama tíma og ekkert bendir til að fyrirtæki bjóði körlum bónus fyrir karleðlið er stjórnlynd hugsun og ekkert annað. Launamunur kynjanna er flókið mál sem enginn hefur komist til botns í með viðunandi hætti.

Svo má ekki gleyma frjálslynda manninum sem varð fjármálaráðherra — hann vildi banna peningaseðla. Það kallast seint frjálslynd hugsun að banna borgurum í frjálsu landi að greiða með seðlum.

Jón Ragnar Ríkharðsson.

Við sem erum sannkallaðir íhaldsmenn þurfum að þola stöðugar árásir frá þessu sérstæða stjórnlynda fólki sem telur sig frjálslynt en er það alls ekki. Saga síðustu alda hefur líklega farið framhjá þeim, en frjálslyndið hefur sannarlega sannað gildi sitt. Þess vegna erum við íhaldsmenn afskaplega frjálslyndir í hugsun vegna þess að okkur er tamt að varðveita gildi sem virka vel.

Þetta fólk hefur hlaupið yfir mikilvægan kafla veraldarsögunnar. Sú var tíðin að íhaldsmenn trúðu á ágæti aðalsmanna og töldu enga meiri stjórnvitringa en þá. En aðalsmönnum mistókst að sýna meiri visku en pöpullinn hafði yfir að ráða þannig að frjalslynd lýðræðishugsun var hið eina sem hægt var að byggja á.

Ekkert bendir til annars en við íhaldsmenn skiljum tilveruna með svipuðum hætti og annað fólk, þannig að við urðum frjálslyndir bara vegna eðlilegrar þróunar. Við íhaldsmenn erum þrátt fyrir allt eðlilegir menn en ekki sérstök dýrategund eins og ýmsir sem telja sig frjálslyndari virðast trúa.

Svo er það sérstakt að stjórnmálamaður skuli þurfa að tilkynna það sérstaklega að hann sé frjálslyndur. Á Íslandi eru margir flokkar og allir eiga þeir eitt sameiginlegt.

Það er frjálslyndið, þótt hinir frjálslyndu hneigist örlítið meira í átt stjórnlyndis en aðrir flokkar, sem sjá ekki ástæðu til að tilkynna augljósa og vel þekkta staðreynd.

Höfundur er sjómaður og formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.