Stutt í hrunið í Undralandi

Eftir Jóhannes Björn:

Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn, sem er leiðandi markaður og margir aðrir apa eftir, hefur flutt sig í Undraland. Eftir eðlilegt hrun í mars í kjölfar Covid-19 hafa hlutabréfin náð að vinna upp tapið og bréf í tæknifyrirtækjum hafa gert gott betur. Þetta hefur átt sér stað á meðan tugmilljónir hafa misst vinnuna, alda gjaldþrota ríður yfir (sérstaklega í verslunargeiranum) og öll stjórnsýsla landsins er rekin með stjarnfræðilegu tapi.

Besta aðferðin til að meta hvort einstakur markaður er í bóluástandi eða ekki er að deila verðgildi allra hlutabréfa í þjóðarframleiðsluna (graf sem stundum er nefnt “Warren Buffett vísbendingin„). Það línurit sýnir þessa stundina að bandaríski hlutabréfamarkaðurinn er dýrari heldur en hann var áður en allt hrundi 1929, 2000 og 2008.

Ef sagan hefur kennt okkur eitthvað þá eiga hlutabréf eftir að falla yfir 50% á næstu vikum eða mánuðum.

Svokölluð “bjarnargildra” hefur verið staðreynd í hvert skipti sem bóluhagkerfi springur. Hlutabréf hríðfalla, ná sér síðan töluvert á strik (bjarnargildra) en hrapa síðan miklu meira.

Hlutabréf hröpuðu 29. október 1929 og náðu botni 13. nóvember, en 17. apríl 1930 höfðu þau unnið upp 48% tapsins. Þá byrjaði nýtt áhlaup og 8. júlí 1930 var fallið orðið 86% (samtals 89% fall frá toppi).

Jóhannes Björn rithöfundur.

Tæknibólan náði hámarki í mars 2000, markaðir byrjuðu að gefa sig verulega áður en viðsnúningur (bjarnargildra) hófst og í maí 2001 vantaði ekki nema 14% upp á að fyrri toppi væri náð. En þá datt botninn úr öllu og í október 2002 hafði S&P 500 bætt við 40% tapi og tæknimarkaðurinn, Nasdaq, 60%. Frá toppi til botns töpuðu bandarísk hlutabréf samtals 83% af verðgildi sínu.

S&P 500, pumpað upp af vafasömum skuldabréfavöndlum sem voru tryggðir með fáheyrðri fasteignabólu, náði nýjum hæðum í október 2007. Markaðurinn hrundi fljótlega eftir það, en hafði náð að vinna upp nærri allt tapið í maí 2008 (bjarnargildra). S&P 500 hrundi því næst um 53%.

Seðlabanki Bandaríkjanna hefur dælt 3000 milljörðum dollara inn á markaðina síðan í mars (mest til þess að redda skuldabréfamörkuðum ríkasta fólksins). Vegna þess að allir nýir peningar sem bankakerfið skapar fara í umferð sem lán, þá gengur sá leikur aðeins tímabundið.

Það er erfitt að sjá hvernig hægt verður að koma í veg fyrir sögulegt fall hlutabréfa … nema seðlabankinn byrji að kaupa hlutabréf og Sovétvæðing kerfisins verði algjör.

Höfundur er rithöfundur, búsettur í Bandaríkjunum.