Sannleikurinn og Lygin hittust einn daginn – segir flökkusaga frá 19. öld.  Baksvið sögunnar er reyndar enn eldra. En Lygin sagði við Sannleikann: „Frábær dagur í dag!“

Sannleikurinn leit til himins og andvarpaði, jú himinn gerði daginn fallegan og blíðan. Dagurinn leið og svo fór að leiðir þeirra lágu að vatns brunni. Þá sagði Lygin við Sannleikann: „ Við skulum baðast enda er vatnið er svo hlýtt og tært!“ Sannleikurinn var ekki alveg viss um hvort trúa mætti Lyginni og setti fingur í vatnið, jú rétt var það, vatnið var bæði hlýtt og tært. Þau afklæddust og fóru í brunninn.

En óðar sem Sannleikurinn laugaðist skaust Lygin upp úr og klæddist fötum Sannleikans og hljóp í burtu með sín undir hendinni. Hamslaus sté Sannleikurinn úr brunninum og hljóp leitandi að Lyginni til að endurheimta föt sín.

Veröldin leit undan með fyrirlitningu og reiði er nakinn Sannleikurinn birtist. Smánaður og dapur sneri Sannleikurinn á ný til brunnsins, falinn veröld og allri samtíð.

Lygin hins vegar spígsporar enn allar stundir í klæðum Sannleikans nærandi samfélög og sambönd blekkingum og svikum, því fá eru þau sem dirfast til að horfa á nakinn sannleika samtímans, samfélaga sem og sambanda.

Sr. Axel Á. Njarðvík héraðsprestur Suðurprófastdæmis er höfundur Sunnudagshugvekjunnar.

Svo segir Jesús að sannleikurinn muni gera þig frjálsan.

Og við köllum þetta leik þegar hið sanna verður milli mín og þín, því „sannleikurinn fæðist hvorki né fyrirfinnst í höfði aðskilinna einstaklinga, heldur skapast á milli fólks sem leita hans, í samræðunni sem skapast af samneyti þeirra.“ (Gunnar Þorri Pétursson, óbirt handrit)

Við erum mörg hver svo hrædd og kjarklaus þegar til sannleikskasta kemur enda margir menn harðir, voldugir og ósvífnir sem mæta okkur. Og stundum erum við hrædd við sannleikann í okkur sjálfum.

Það er okkar að finna sannleikanum form
– í vinnu okkar og störfum,
– í samskiptum okkar við fólk
og hvernig við leikum náttúruna.

Það er beinlínis okkar, að láta til okkar taka og vera sannleikans megin í samskiptum samtíðar. Því að sannur leikur breytir veröld manna.

Og til þess þurfum við að taka áhættu á því, að halda lífinu áfram í meðvitaðri afstöðu og lífsstefnu. Heilbrigður kristindómurinn gerir það allur og hann bendir hvert viðmiðið er og hvers vegna það viðmið er, en ekki eitthvað annað. Við lifum á tímum þegar lífsskoðanir, hugmyndir og viðhorf eru öll sett undir einn hatt fáfræðinnar og allt er sem í graut og allt er lagt að jöfnu – jafnvel í stolnum klæðum.

Og Jesús segir að þú sért ljós heimsins.

Kveiktu á ljósi, hvar sem þú ert.
Kveikirðu á öðru, er betur að gert.
Þó loginn sé veikur, samt lýsir hann sterkt
og ekki gleyma öðru ljósi að morgni.
- Valgeir Guðjónsson.

Sr. Axel Á. Njarðvík.