Feitir eru óæskilegir. Þetta eru skilaboðin frá heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, og Landlæknisembættinu. Fólk sem ráðherra og sérfræðingaveldinu þykir of feitt, er tekið út fyrir sviga og notað sem réttlæting fyrir alræðiskennda stjórnsemi og skattlagningu á allt samfélagið. Á meðal ástæðna er sem gefnar eru upp af ráðherra er, að hlutfall feitra sé hátt á Íslandi.
Ráðherra, ásamt sérfræðingunum sem moka undir þessar gerræðislegu hugmyndir hennar, virðist vera slétt sama um þá staðreynd að heilsa og holdafar er einkamál einstaklinga. Eina undantekningin er hættulegir smitsjúkdómar – sem offita er ekki. Fólk má vera feitt – án þess að verða refsað fyrir það af ríkisvaldinu. Heilsa og fitumagn á skrokki fólks tilheyrir friðhelgi einkalífsins sem ríkisvaldið hefur ekkert umboð eða rétt til að snerta á.
Í frjálsum samfélögum er hlutverk ríkisvaldsins að vernda val og lífsstíl fólks, og fylgir því að mestu varðandi trúfrelsi, skoðanafrelsi og nýlega kynfrelsi. Sem betur fer. En eitthvað annað er uppi á teningnum varðandi heilsu og neysluvörur. Lýðheilsustefna stjórnvalda getur verið ágæt til síns brúks, þegar hún er notuð til að upplýsa almenning með réttum og gagnlegum upplýsingum. Lýðheilsustefna með boðum, bönnum og refsingum er það ekki. Það er enginn góður ásetningur á bakvið þvinganir – aðeins stjórnsemi og ofbeldi.
Feitir eiga að fá að vera í friði
Feitir hafa lengi staðið höllum fæti vegna skætings og fordóma, og ekki er langt síðan feitir byrjuðu að reyna að svara fyrir sig og óska eftir því að fá einfaldlega að vera í friði. Sem er sjálfsögð krafa. Feitir hafa fullan tilverurétt án þess að ríkisvaldið afli þeim enn frekari óvildar, með íþyngjandi sköttum og reglugerðum á allt samfélagið, réttlættum af lífsstíl, útliti og heilsu þeirra. Enginn hefur grennst af því að borga hærri skatta. Hverju megum við eiga von á þegar í ljós kemur, eina ferðina enn, að þetta virkar ekki? Verða feitir dæmdir í líkamsræktarbúðir ríkisins?
Við hvað stöðvast afskiptasemi hins opinbera af einkalífi fólks, ef ekki líkama þeirra?
Annað hvort er ekki pláss fyrir feitt fólk í miðstýrðu draumaríkisfyrirkomulagi heilbrigðisráðherra eða þá að ráðherrann, sem leynt og ljóst stefnir að alræði kommúnismans í heilbrigðiskerfinu, getur hreinlega ekki hamið skattgræðgi sína. Enda kostar draumsýn kommúnistanna ekkert lítið, eiginlega bara allt sem til er – og að lokum líftóruna. En kannski er það markmiðið, enginn verður feitur í kommúnistaríkjum nema Félagi Napóleon og kónar hans í kerfinu. Kommúnistarnir sveltu fólk til bana, tugmilljónum saman á síðustu öld og jafnvel enn í dag. Eftirlifendur skrældust um, vannærðir og sljóir þar til kommúnisminn varð að lokum að gjaldþrota þjóðskipulagi, með ógreidda skuld upp á að minnsta kosti 100 milljón mannslíf.
Ef til vill er uppruna fitufordóma einmitt að finna í draumaríkishugmyndum og áætlunum veruleikafirrtra stjórnmálamanna, sem létu mála áróðursmyndir af stæltum, ljóshærðum íþróttamönnum við leik, störf og grænmetisát, til að tryggja framgang lyginnar sem kostaði svo marga hamingjuna og lífið.
Höfundur er blaðamaður á Viljanum.