Það sem má læra af BDSM

Alveg síðan bókin 50 gráir skuggar eftir breska rithöfundinn E.L. James kom út árið 2011, hefur BDSM hlotið meiri athygli og viðurkenningu almennings en áður. Nú er svo komið að stolt framlag Íslands til Eurovision skreytir sig með þemanu. Kannski er kominn tími til. Fyrirbærið er ekki nýtt, ekki er ósennilegt að það sé jafngamalt mannkyninu, en umræða og stundun þess hefur jafnan verið á jaðrinum og vandlega falið í einkalífi fólks.

BDSM er stytting á ensku orðunum bondage, discipline, dominance, submission, sem gætu útlagst sem helsi, agi, drottnun og undirgefni á íslensku. BDSM er regnhlífarhugtak sem nær yfir fjölbreytilega leiki, hneigðir og ástríður í mannlegu lífi og samskiptum.

Þess misskilnings gætir að BDSM snúist um óvenjulegt kynlíf eingöngu, þar sem fólk leikur sér með ýmsa hluti, óla og búninga í skúmaskotum raunheima og netheima. Grundvallaratriði í BDSM er nefnilega grundvöllur allra farsælla mannlegra samskipta, en það er traust. BDSM er æfing í trausti. Annarsvegar í að treysta og hinsvegar í að sýna fram á að manni sé treystandi.

Erna Ýr Öldudóttir blaðamaður.

Í hlutverkaleikjum BDSM, þar sem annar aðilinn tekur að sér að drottna á meðan hinn aðilinn tekur að sér undirgefni, er ekki allt sem sýnist. Auðvelt væri að álykta sem svo, að drottnarinn sé hinum undirgefna æðri og hinn undirgefni sé til staðar fyrir drottnarann til að leika sér að og níðast á að vild. Þannig er leikurinn settur upp, með áherslu á að um leik er að ræða, þar sem báðir aðilar hafa komið sér saman um leikreglurnar.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að inntakið er á hinn veginn. Það er hinn undirgefni sem afhendir drottnaranum völd í trausti þess að hann fari vel með þau, og setur mörkin. Hlutverk drottnarans er að verða við óskum og þjóna hinum undirgefna, innan þeirra takmarka sem sett hafa verið. Til þess að leikurinn geti hafist má hinn undirgefni aldrei vanrækja sitt hlutverk, sem er að setja mörkin, og bregðast við strax og honum finnst nóg komið. Hlutverk drottnarans er vandasamt, því færi hann út fyrir þau mörk sem honum eru sett, yrði hann fljótur að breytast úr drottnara í ofbeldismann og hrotta.

Niðurstaðan er sú, að ábyrgðin á leiknum þarf að vera jöfn. Hinn undirgefni þarf að bera ábyrgð á því að setja skýr mörk og láta vita strax og honum finnst gamanið byrjað að kárna. Drottnarinn verður að virða þau mörk sem sett hafa verið og láta staðar numið strax og hætta er á að leikurinn fari úr böndunum. Þannig gengur leikurinn upp og báðir aðilar geta haft gagn og ánægju af.

Samband valdhafa og almennings er ekkert öðruvísi. Völd eru afhent í trausti. Sá sem fær völd án þess að starfa sem auðmjúkur þjónn, innan þeirra marka og í því trausti sem hann hefur fengið, verður að níðingi. Sá sem afhendir völd, án þess að skilgreina og takmarka þau, verður á endanum fórnarlamb.

Traust er áunnið og fæst stundum aldrei aftur, hafi það verið brotið. Byrjum því að æfa okkur í að treysta, en ekki síður að sýna að við séum traustsins verðug. Á því grundvallast ekki aðeins farsæl sambönd einstaklinga, heldur farsæld samfélagsins í heild.

Höfundur er blaðamaður á Viljanum.