Þegar ég datt úr skóla og fór á sjóinn

Myndin sýnir sýnir Skagfirðing (grænt skip lengst til hægri) að grálúðuveiðum. Myndin er fengin af skipasíðu Þorgeirs Baldurssonar og birt með leyfi höfundar.

Eftir dr. Ásgeir Jónsson:

Í janúar 1990 datt ég úr skóla. Ég var 20 ára – hafði lokið einni önn í líffræði. Námið hafði gengið vel en ég fann mig ekki. Ég sneri aftur heim í Skagafjörð og munstraði mig á togara. Þetta ár var ég á sjó. Þetta var frábær tími – mér fannst ég vera fæddur sjómaður.

Það er freistandi í að vitna í söngtexta Bjartmars Guðlaugssonar úr laginu Vottorð í leikfimi; „að lífsspekin liggur í saltinu, rokinu og kláminu“. 

Togarinn minn hét Skagfirðingur SK4 og var einn fyrsti skuttogarinn sem kom til landsins upp úr 1970 (undir nafninu Bergvík). Hann var elsti togari flotans þegar ég steig um borð – og bar það með sér. Fiskiðjan á Sauðárkróki hafði þá safnað til sín slíkum öldungum og mannað með sveitamönnum líkt og mér. Aðrir útgerðir gerðu grín að þessu og kölluðu „skólaskip“. 

Skagfirska útgerðin snerist um vinnslu í landi. Skipstjórinn minn fékk hringingu úr frystihúsinu á Sauðárkróki og var skipað að koma með þessar og hinar tegundir á hinum og þessum tíma. Útgerðin tuðaði í honum um eldsneytiskostnað og fleira. Þetta var annar fókus en hafði tíðkast á Íslandsmiðum þar sem aflakóngar höfðu löngum verið hafnir til virðingar – allt snerist um að landa sem flestum tonnum. 

Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur.

Á Halamiðum horfði ég síðan á stóra, nýsmíðaða vestfjarðatogara spæna fram úr okkur og vissi fullvel að kapteinar þeirra hlustuðu ekki á kvabb úr landi. Það var mál landkrabbanna að vinna fiskinn og selja. 

Nú tæpum 30 árum síðar eru stóru vestfjarðaskipin – spíttbátar í yfirstærð – horfin. Fiskiðjan er eitt öflugasta útgerðarfyrirtæki landsins. 

Norðlenskar útgerðir tóku snemma það ráð að hámarka virði aflans sem fullunninnar vöru. Það var einmitt á þessum tíma sem hið gamalgróna iðnaðarsvæði í Eyjafirði gekk í endurnýjun lífdaga sem miðstöð fiskiðnaðar – og slorið tók við af ullinni. Áherslan er nú á alla virðiskeðjuna – allt til enda. Þannig hafa skapast gríðarleg ný verðmæti í sjávarútvegi án þess að veiddum tonnum hafi fjölgað. 

Það var síðan um borð í Skagfirðingi sem ég tók þá ákvörðun að fara í hagfræði. 

Höfundur er dósent og forseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands.