Þegar mann langar mest að hætta á Facebook

Eftir Bjarneyju Lárudóttur Bjarnadóttur:

Síðustu vikur og mánuði hefur mig langað til að hætta á Facebook vegna umræðunnar þar inni, hún verður svo pólariseruð að það er með ólíkindum.

En því miður er maður nánast fangi þessa miðils, þar eru bekkjargrúppur, íþróttagrúppur og grúppur um nánast öll svið lífsins; að hætta á Facebook myndi þýða að nánast allar upplýsingar færu framhjá manni.

En dæmi um umræður síðustu vikna er t.d. kvennaverkfallið, ef man vill útrýma kyndbundnu ofbeldi og öðru óréttlæti þá er maður karlahatari.

Ef kona er á móti því að saklausir Palestínubúar séu drepnir þá er hún gyðingahatari.

Og nú eru að spretta upp umræður þar sem fólk nær ekki andanum af hneykslun yfir að Grindvíkingar hafi skilið dýrin sín eftir! Í staðinn fyrir að sýna samkennd yfir að þau hafi lent í þessari ömurlegu stöðu.

Síðustu vikur hafa skilaboðin verið sú að það sé ekkert að óttast, að Grindvíkingar geti verið rólegir (fyrir utan tvo sérfræðinga sem bentu á hættuna en það var nánast gert lítið úr þeim fyrir það) og fólk því algjörlega grunlaust um að þessi staða gæti komið upp.

Margir Grindvíkingar voru farnir úr bænum, og fólk tekur yfirleitt ekki kettina sína með í styttri ferðir enda er það meira stress fyrir kettina en vera heima með nægan mat og vatn.

Aðrir fengu tvo tíma til að yfirgefa heimili sín og þá þarf að forgangsraða hvað fer með. Ég hef hugsað þetta mikið sjálf síðustu daga, hvað ef kettirnir mínir væru úti þegar þessi tilskipun kæmi, það er nánast vonlaust að fara út að leita að þeim.

Á að taka páfagaukabúr með í bíl með mjög takmörkuðu plássi? Hverju á þá að sleppa í staðinn?

Svo er verið að hneykslast á að hestar, kindur og hænur hafi verið skilin eftir, hvernig á að ferja mörg hundruð húsdýr út úr bænum og hvert á að fara með þau?

Ótrúlega lýjandi dómharka

Fyrir utan að langflestir íbúar bjuggust eflaust við því að geta farið heim aftur eftir nokkra daga.

Að þurfa að taka allar þessar ákvarðanir á tveimur klukkutímum eru spor sem er ómögulegt að setja sig í nema hafa staðið í þeim sjálf.

Þessi dómharka er orðin svo ótrúlega lýjandi og ég finn að ég hef sífellt minni orku og áhuga á að taka þátt í umræðunni, og eins og ég sagði í upphafi þá myndi ég helst vilja getað stimplað mig alveg út úr henni, vonandi finn ég leið til þess án þess að missa af þeim upplýsingum sem ég þarf að fá.

Að því sögðu þá er hugur minn hjá Grindvíkingum, ég á ættingja þar sem eru betur fer komnir í öruggt skjól en þessi óvissa tekur verulega á, og það er ekki á það bætandi að láta fólki líða enn verr yfir að hafa tekið þá erfiðu ákvörðun að skilja dýrin sín eftir.

Það er að sama skapi dásamlegt að sjá hvað Íslendingar eru hjálpsamir þegar á reynir og vonandi fer allt á besta veg fyrir alla íbúa Grindavíkur, bæði fólk og dýr.

Höfundur er íþróttafræðingur og kennari.