Eftir Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur:
Dagskrá Alþingis stendur auð. Ekkert heyrist frá ríkisstjórnarflokkunum um hvernig ríkisstjórnin ætlar að koma böndum á verðbólgu. Forystan ver öllum kröftum í vandræðaleg rifrildi. Öll starfsorka ríkisstjórnarinnar fer í að reyna að lifa þetta vonlausa samstarf af. Stærsta verkefni samfélagsins liggur óhreyft á meðan. Glíman við verðbólgu og ógnarháa vexti.
Í sterkri umsögn BHM um fjárlagafrumvarpið varpar bandalagið ljósi á merkilegar staðreyndir um veruleika almennings. Kaupmáttur meðallauna hefur sveiflast fjórum sinnum meira sl. 20 ár á Íslandi en kaupmáttur innan OECD-landa.
Verðbólga jókst um helming milli 2022 og 2023 sem er einsdæmi. Þessi óstöðugleiki hagkerfisins er okkar helsta meinsemd. Og almenningur er langþreyttur á ástandinu. Vextir eru rúmlega tvöfaldir á við nágrannalönd. Fólk sem nýlega keypti fasteign og er með mikil útgjöld vegna barna og námslána finnur rækilega fyrir ástandinu. Þetta er millistéttin á Íslandi. Ríkisstjórnin hefur hins vegar engin svör fyrir þetta fólk. Þessi hópur er skilinn eftir.
Jöfnuður í tekjum er meiri á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum. Og nú blasir við stöðnun um lífskjör ekki síst hjá millistéttinni. Fólkið sem greiðir háa skatta og finnur rækilega fyrir vaxtahækkunum. Af hálfu BHM hefur komið fram að 70% skatta og gjalda eru borin af þriðjungi þjóðarinnar. Í þessum hópi er meginþorri háskólamenntaðra.
Á fólk ekki að sjá ávinning í háskólamenntun? Eða í því að búa á Íslandi eftir háskólanám? Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur bent á launaþróun á Íslandi frá aldamótum. Laun háskólamenntaðra hafa staðið í stað. Laun ófaglærðra hafa hækkað nokkurn veginn jafnt og þétt. Það er auðvitað ekki áhyggjuefni að laun ófaglærðra hafi hækkað heldur hitt hvernig við verðleggjum menntun. Að þau laun hækki ekkert.
Hvaða framtíðarmynd er þar verið að teikna upp þar fyrir Ísland?
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.