Eftir Ólaf Árnason:
Það er ekki óalgengt að hjá mér sitji einstaklingar sem telja að lífið sé óréttlátt og þau hafi fengið úthlutað slæmum spilum, ef svo má segja. Mörg hver eru sannfærð um að ekkert sé hægt að gera til að breyta þeirri stöðu sem þau eru í í dag og því þvinguð í hlutverk farþega í eigin lífi. Þau telja sig ekki hafa neitt með það að gera að vera á öðrum stað en þau vildu vera á og telja sig fórnarlömb ytri aðstæðna.
„Heldurðu virkilega að ég vilji vera á þessum stað í lífinu?“ heyri ég gjarnan.
Síðan kemur upptalning af utanaðkomandi ástæðum sem réttlæta kyrrstöðu og athafnaleysi viðkomandi. Viðhorfið er gjarnan að vegna foreldra, maka, systkina, vinnuveitanda, útlits eða einhvers annars, þá hafi þér verið úthlutað stað sem þér ber að dvelja á.
Sem betur fer er þetta viðhorf alrangt. Það er nefnilega svo stórkostlegt að við höfum alltaf val í lífinu, en það val hræðir marga. Við höfum val til að gera breytingar eða gera ekki neitt. Og það að gera ekki neitt er líka val.
Tökum nokkur dæmi:
• Knattspyrnukona sem fær ekki sæti í landsliðshópnum hefur val. Hún hefur ekki vald til að velja sig í hópinn, en hún getur valið hvernig hún bregst við. Fer hún í fýlu og neitar að gefa kost á sér aftur? Velur hún að þetta sé persónulegt gagnvart henni? Velur hún að æfa meira og spila betur með sínu félagsliði og stefna að því að vera valin næst?
• Eiginmaðurinn sem kemst að því að konan hans hefur verið að halda framhjá honum hefur val. Það er ekki eitthvað sem hann vildi upplifa en hann hefur fullt af valkostum. Velur hann að skilja við konuna og tala ekki við hana oftar? Velur hann að drekka sig fullann og vorkenna sjálfum sér vegna stöðunar sem hann er í? Velur hann að stinga upp á því að fara í ráðgjöf og byggja upp hjónabandið á nýjan leik?
• Siggi sem á erfitt með að vinna með yfirmanni sínum hefur val. Hann getur komið heim pirraður og réttlætt þann pirring heima við með því að segja að það sé erfitt í vinnunni. Siggi getur valið hvort hann láti yfirmann sinn pirra sig. Hann getur valið hvort hann taki pirringinn með sér heim. Hann getur einnig valið það hvort hann sæki um annað starf eða vilji láta flytja sig til innan fyrirtækisins.
Oft upplifum við atriði sem okkur finnst ekki réttlát, en enginn okkar fékk samning við fæðingu þar sem okkur var lofað réttlátu og sanngjörnu lífi … skilgreint af okkur sjálfum
Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þú stjórnar því aldrei hvað aðrir einstaklingar gera eða hvernig þeir hegða sér gagnvart þér en þú stjórnar alfarið hvernig þú bregst við því. Það er ofboðslega hentugt og þægilegt að kenna öðrum um stöðuna, en þú hefur valdið til að breyta stöðunni. Það er ekki auðvelt því þetta snýst um sjálfstraust, sjálfsaga og þor til að brjótast útúr viðjum vanans. Það gerist ekki á einni helgi en þú getur tekið fyrsta skrefið í kvöld, og það næsta á morgun. Þú þarft ekki að taka það ferðalag einn og ráðlegast er að leita sér stuðnings og ráðlegginga þegar halda á af stað í það verkefni.
En ef þú ert ekki sáttur þar sem þú ert, þá er tími til að grípa til aðgerða.
Ekki kenna öðrum um stöðuna því það hefur ekkert með aðra að gera … sem betur fer.
Höfundur er fjölskylduráðgjafi