Til varnar Davíð Oddssyni

Davíð Oddsson, fv. forsætisráðherra, er ritstjóri Morgunblaðsins.

Eftir Ragnar Önundarson:

Nýfrjálshyggjan, sem er bara gamla ,,Laissez-faire” afskiptaleysisstefnan undir nýju heiti, varð á ný allsráðandi hugmyndafræði í stjórnmálum Vesturlanda í tíð Reagans og Thatchers. Veraldarvæðingin (globalization) er augljóst afsprengi þess.

Hèr heima urðum við aðilar að EES, sem er umgjörð kapítalismans í Evrópu. Síðan hafa allir flokkar mátt una þeirri umgjörð, vinstri sem hægri. Það er umhugsunarefni hvort norræna velferðarkerfið, sænska ,,blandaða hagkerfið”, geti samræmst því, í ljósi reynslunnar.

Erlendir fjárfestar og erlent vinnuafl er jafn rétthátt því sem íslenskt er vegna EES. Núna er ,,atvinnuleysi” meðal Íslendinga ca. MÍNUS 8%, en samt álíta stjórnvöld sèr skylt að veita stòrfelldu norsku laxeldi starfsleyfi og um leið er vitnað til atvinnusköpunar því til réttlætingar!

Náttúra landsins sætir áníðslu umhugsunarlaust. Vinstri meirihlutinn í Reykjavík hendir t.d. öllum lóðum í verktaka árum saman og viðheldur skorti á markaðnum með litlu framboði lóða. Skorturinn er grundvöllur gríðarlegrar álagningar (50% – 100%) á nýjar íbúðir, sem allar miðast við þarfir hinna efnameiri.

Ragnar Önundarson fv bankamaður.

Fjársterkir kaupa upp íbúðir og leigja ferðamönnum. Unga fólkið getur ekki keppt við þetta og ekki heldur borgað uppsprengda markaðsleigu. Áður fékk ungt fólk úthlutað hlutdeild í lóð undir fjölbýli, myndaði húsfélag, réði smiði og tók eins mikinn þátt í byggingunni sjálft og unnt var. Engin lausn er sjáanleg, bara áframhaldandi skortur og okur.

Við hrifumst með

Davíð Oddsson leiddi flokkinn sem hreifst mest af svonefndri nýfrjálshyggju, en að ætlast til að hann einn beri ábyrgð á að hafa dregið þjóðina inn í þennan straum er um of. Þessi sterki straumur kom utanfrá, við hrifumst með, gengum í EES og gerðum okkur ekki grein fyrir afleiðingunum. Við héldum að örsmáir markaðir okkar yrðu virkari með því að tengjast stærri og fullkomnari mörkuðum.

Það stóðst ekki. Nú sitjum við uppi með viðskiptalíf sem einkennist af fákeppni, sjálftöku, eignartilfærslum (braski) og annarri spillingu.

Áskapaðri græðgi manna er mest um að kenna.

Davíð Oddsson dró sig í hlé frá hagstjórninni 2005, varð utanríkisráðherra, og frá stjórnmálum skömmu síðar, þegar hann varð seðlabankastjóri. Frá 2005-7 blés bólan út, en Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra og Geir Haarde fjármálaráðherra töldu rétt, skv. ráðandi viðhorfum nýfrjálshyggjunnar, að skipta sér ekki af, álitu að bólan væri ,,góðæri”.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hljôp svo í skarðið fyrir Halldór 2007. Það var pólitískt glapræði að tengja sig yfirvofandi áföllum vorið 2007. Það var ótrúleg glópska að fela óburðugum þingstaula viðskipta- og bankamálaráðuneytið á þeim tíma. Þegar hrunið kom féll Ingibjörg Sólrún í þá gryfju að leita uppi sökudólga og refsa þeim. Eineltið gegn Davíð og málaferlin gegn Geir H. Haarde má rekja til forystu Samfylkingarinnar á þeim tíma. Góðvild réði ekki för.

Davíð Oddsson er ekki fullkominn, en það var hann sem tók saman lausnina, sem fólst í Neyðarlögunum 2008. Hann barði hana í gegn, því andstaða hinna kjarklitlu var mikil. Án hans hefði sú lausn ekki orðið til. Án hans hefðum við verið látin skrifa undir risaskuld við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og andvirðið gengið til uppgreiðslu skulda bankanna, sem voru bara einkabankar sem þjóðin bar ekki ábyrgð á. Án hans værum við skuldugasta þjóð Evrópu og hefðum í raun misst fullveldið, eins og dæmin sanna að skuldugar þjôðir gera.

Þetta veit ég af því að ég var þarna í Seðlabankanum í októberbyrjun 2008 og tók þátt í hugmyndavinnunni að Neyðarlögunum. Töp Selabankans í hruninu voru um 5% af ávinningnum. Það þarf glórulaust hatur til að loka augunum fyrir þessu.

Enginn vafi er á að Davíð hefði orðið persónulega betur settur ef hann hefði ekki farið í Seðlabankann. Við getum hins vegar þakkað fyrir að svo varð ekki.

Það er ekki raunsætt að setja alla ábyrgð á efnahags- og stjórnmálaþróun langs tímabils á einn mann. Það er ekki heldur sanngjarnt að gera einn mann að ,,sökudólg”. Það eru samt margir sem leggja fæð á hann. Það er ekki farsælt af því að hugsanir fólks ráða líðan þess og neikvæðnin bitnar um síðir á hinum neikvæða. Mál er að linni.

Við eigum að þakka það sem vel er gert, það er hollt fyrir okkur sjálf, og við eigum að gleðjast yfir að þjóðin skuli á ný vera meðal þeirra best settu, en ekki þeirra skuldugustu.

Ég get fallist á að mistök fólust í einkavæðingu bankanna 2003, mikil mistök, en um leið verðum við að fallast à að Davíð Oddsson lagaði til eftir sig. Að horfa bara á það sem miður fer er bölmóður.

Höfundur er fv. bankamaður.