Tíminn til aðgerða er núna

Eftir Ólaf Ísleifsson:

Í samtölum við fólk finnst glöggt að stjórnleysið á landamærunum vekur ugg og hefur getið af sér ónotatilfinningu. Allir sjá að innflutningur á fólki sem svarar til íbúafjölda Grindavíkur eða Vestmannaeyjabæjar á ári hverju fær ekki staðist. Skólarnir þola þetta ekki, ekki spítalarnir og heilsugæslan, ekki félagsþjónustan. Hver verða áhrifin á getu samfélagsins til að létta undir með láglaunafólki og öryrkjum? Hvað eiga skattgreiðendur að hafa marga erlenda borgara á framfæri sem kannski fæstir eiga lífeyrisréttindi sem duga til framfærslu þegar þar kemur á ævinni? Á hvaða leið er íslenskt samfélag? Hvað verður um íslensk gildi, menningu og tungu?

Fjáraustur til málaflokks hælisleitenda hefur reynst stjórnlaus. Bjarni Benediktsson rifjar upp að þegar þegar hann tók við embætti fjármálaráðherra voru árleg útgjöld 500 milljónir króna. Nú eru þau a.m.k. 20 milljarðar króna á ári. Hver ákvað að fertugfalda þessi útgjöld úr vasa skattgreiðenda? Opinn krani á ríkissjóð án minnstu fyrirstöðu hefur, eins og Bjarni hefur sjálfur bent á, leitt til að fjárhæð sem svarar til útgjalda til allrar heilsugæslu er varið í þágu erlendra manna sem hingað leita. Óþarfi er að fara mörgum orðum um fjármálastjórn af þessu tagi. Allir sjá glórulausa óstjórnina.

Auðvitað fór það svo að við gátum ekki lært af reynslu nágrannaþjóðanna heldur höfum endurtekið mistök þeirra. Sú hefur orðið raunin að við höfum lagt af landamærin að kröfu fámennra öfgahópa sem studdir hafa verið af fólki sem virðist hafa sterka þörf fyrir að auglýsa manngæsku sína og siðferðislega yfirburði umfram okkur hin. Samfylking, Viðreisn, Píratar og Vinstri grænir hafa róið ákaft á þessi mið. 

Margir hafa varað við þessari öfugþróun, bent á vítin til að varast í nágrannalöndunum og greint frá stefnubreytingu þar með þeim orðum að fyrri stefna hafi reynst vera mistök, já einmitt, sú hin sama stefna og við höfum fylgt fram á þennan dag. Ekki hafa verið spöruð ókvæðisorðin í garð þeirra sem haft hafa uppi slíkar viðvaranir. 

Þjóðin kallar eftir aðgerðum. Tíminn til þeirra er núna. Fyrsta verkefnið er að fara að leiðbeiningum Einars S. Hálfdánarsonar hrl. í grein í Morgunblaðinu í dag þess efnis að ráðherra er heimilt að taka upp tímabundið eftirlit á íslenskum landamæru vegna alvarlegrar ógnar við allsherjarreglu og þjóðaröryggi eins og hann telur tvímælalaust fyrir hendi. Einar bendir á að fjölmörg fordæmi eru fyrir beitingu sambærilegra reglna meðal annarra aðildarríkja Schengen-samstarfsins vegna miklu minni ásóknar í alþjóðlega vernd en Ísland stendur frammi fyrir. Hér dugir ákvörðun ráðherra. Engrar lagasetningar er þörf til að stöðva strauminn og skrúfa þar með fyrir opna kranann á ríkissjóð.  

Ég mun fjalla frekar um nauðsynlegar aðgerðir í þessu efni hér á Viljanum og önnur málefni eins og tilefni gefast til.

Höfundur er doktor í hagfræði og fv. alþingismaður.