Töpuð tækifæri eru algjörlega forystu flokksins að kenna

Eftir Guðbjörn Guðbjörnsson:

Það er sennilega rétt hjá Össuri Skarphéðinssyni hér í Viljanum nú um helgina, að Sjálfstæðisflokkurinn sé á leið inn í skeið hjaðningavíga og langvarandi áhrifaleysis, sem ég syrgi ekki frekar en hann. Ég er honum þó ekki sammála um ástæðurnar fyrir þessu uppgjöri, sem á sér djúpar rætur og langa sögu. En hvert fer fylgi þessa miðlungsstóra flokks, þegar Viðreisn er auðsjáanlega ekki lengur að taka við flóttamönnum, því fylgi þeirra er ekki að aukast neitt, eftir að flokkurinn breyttist úr miðju-hægri í miðju-vinstri krataflokk? Viðreisn hugsaði sér gott til glóðarinnar eftir að Samfylkingin færði sig mjög langt til vinstri, jafnvel lengra til vinstri en VG, og skyldi þannig eftir vinstri bleiður fyrir Viðreisn.

Sjálfstæðisflokkurinn er að reyna að færa sig inn á miðjuna, sem hann hefði átt að vera búinn að gera fyrir löngu síðan, en er svo klaufalegur að honum láðist að halda friðinn við íhaldsarminn á sama tíma. Miðflokkurinn er heldur ekki að fá þetta fylgi, sem er að fara frá Sjálfstæðisflokknum, til þess hefur hann of skrítnar skoðanir á mörgum hlutum, svona eins og blanda af stefnu ungmennafélags, þjóðmenningarfélags, kaupfélags og SÍS gamla. Með smá yfirhalningu á stefnu sinni, gríðarlegri ímyndarvinnu og nýjum kandídötum gæti Miðflokkurinn undir forystu SDG þó fengið 20-25% í næstu kosningum, óánægjan sem kraumar undir niðri er svo mikil. Sigmundur Davíð er fluggáfaður og ólíkindatól og því ættu andstæðingar hans að vara sig.

Þessi töpuðu tækifæri eru algjörlega nýrri forystu Sjálfstæðisflokksins að kenna, sem eins og margir aðrir stórir miðju-hægri flokkar á Vesturlöndum, er í algjörri tilvistarkreppu. Ekki er líklegt að leysist úr þeirri kreppu á næstunni meðan að hægri menn leita í hugmyndasmiðju vinstri manna. Þetta sjá allir heiðarlegir hægri menn og kippa að sér hendinni. Sósíaldemókratar, sem eru að mínu mati í raun einnig með góða stefnu, leita í auknum mæli til kommúnista og græningja til að bjarga sér hugmyndafræðilega, en uppskera fyrir vikið enn lægra fylgi í kosningum. Sósíaldemókratar eru ekki kommar eða græningjar og þurfa að vera meðvitaðir um það. Auðsjáanlega á að leysa þennan vanda Sjálfstæðisflokksins með því að færa sig enn lengra til vinstri og bæta við „dassi“ af femínískum áherslum, baráttunni gegn hamfarahlýnun og afnámi landamæranna, sem gerir þó bara illt verra og fer alveg gríðarlega í taugarnar á íhalds-karlpungunum, en kaupir í raun ekkert fylgi.

Nýja forystan vill engar málamiðlanir

Þessi nýja kvenforysta Sjálfstæðisflokksins er ekki til í eina einustu málamiðlun við íhaldsarminn, vill ekki einu sinni hlusta á miðaldra og íhaldssama hvíta karlmenn, sem eru þó dyggustu og traustustu fylgismenn Sjálfstæðisflokksins, eftir að miðaldra hvítir og frjálslyndir karlmenn fóru að mestu yfir í Viðreisn. Hinar nýju frjálslyndu og feminísku konur eiga því minna bakland í flokknum en þær halda, því þær konur sem einu sinni studdu kynsystur sínar í Sjálfstæðisflokknum, eru vel flestar nú þegar með Þorgerði Katrínu í Viðreisn og fá allt sitt í gegn þar. Karlkyns þingmenn allra flokka eru reyndar flestir orðnir mjög „metro“ í seinni tíð en sumir grínast með að þeir eigi flestir við einhverskonar áfengis- eða hormónavandamál að stríða, sem birtast í áreitni eða að þeir eigi við einhverskonar „kynáttunarvanda“ að glíma, en mér finnst það nú full langt gengið í gríninu.

Guðbjörn Guðbjörnsson stjórnsýslufræðingur.

Ungt fólk, alið upp af sósíalistum, kommúnistum og græningjum frá leikskóla og upp í háskóla, kýs nefnilega í flestum tilfellum vinstri flokkana og alls ekki þessar ungu konur eða gömlu karlana í Sjálfstæðisflokknum. Kjósendur átta sig strax á því hvað er „originalinn“ eða merkjavara og hvað er léleg eftirlíking frá Kína, sérstaklega unga fólkið sem er mjög meðvitað um þessa hluti. Nú ætlar forusta Sjálfstæðisflokksins að stökkva á popúlistavagninn og verða feminískur velferðarflokkur, sem berst af alefni gegn hamfarahlýnun og fyrir auknum fjölda hælisleitenda á Íslandi. Ég óska þeim góðrar ferðar að fara að keppa við alla hina „original“ vinstri flokkana.

Það eru útlendingamálin, sem verða í brennpunkti í næstu kosningum, því hingað munu leita nokkur þúsund foreldrar með börn sín fram að næstu kosningum, sem mun hafa í för með sér gríðarlegan kostnað og enn meiri skort á húsnæði. Þetta sjáum við vel í Þýskalandi, þar sem húsnæðisskortur er gífurlegur í dag og leiga hefur hækkað upp úr öllu valdi eftir að milljónir flóttamanna komu til landsins. Um 70% af öllum þeim sem komu til Þýskalands á árunum 2015-2016 eru enn á sósíalnum.

Þörfin á vinnuafli hefur minnkað hér á landi á undanförnum mánuðum, þannig að þau rök eiga ekki lengur við að þetta fólk geti unnið fyrir sér. Húsnæðismálin eru aðeins að skána, en ef 3-5 þúsund flóttamenn koma á 2-3 árum verður húsnæðisvandinn sá sami og hann var. Eins og staðan er núna í ríkisfjármálum er niðurskurður í velferðar- og menntakerfinu — 90% útgjalda ríkisins og því eini raunhæfi niðurskurðarmöguleikinn – eða aukning skulda ríkis og sveitarfélaga eina leiðin til að fjármagna aukinn fjölda hælisleitenda.

Höfundur er stjórnsýslufræðingur.