Eftir Jóhannes Björn:
Oft er engu líkar en meiri háttar áföll eða hörmungar séu þríhöfða vofur. Í október 1918 hófst Kötlugos, eitt það öflugasta síðan land byggist með gífurlegu öskufalli, og Spænska veikin byrjaði að stráfella landsmenn í sama mánuði. Þriðja bölið 1918 var frostaveturinn mikli.
Árið 1968 urðu þrír atburðir þess valdandi að hagkerfið hrundi og þúsundir Íslendinga flúði til Svíþjóðar og Ástralíu. Síldin hvarf (sem sennilega var mesta efnahagsáfall í sögu lýðveldisins), mikinn hafís rak að landinu og kal í túnum hrellti bændur víða um land.
Nú virðast tvær vofur vera í startholunum, tilbúnar að ógna hagkerfi Íslands, og spurning hvort sú þriðja á eftir að skjóta upp kollinum.
Það var ekki stjórnkænska sem bjargaði Íslandi í kjölfar hrunsins 2008; það voru fáheyrðar gjaldeyristekjur af ferðamönnum sem komu allt að því óvænt upp í hendur þjóðarinnar. Nú fer þessum ferðamönnum að fækka, sem er alþjóðleg þróun og örlög WOW eiga væntanlega eftir að flýta, en miklu alvarlegri hlutir eru í uppsiglingu.

Næsta efnahagslægð á heimsvísu er að hefjast og samdráttur hjá iðnaðarfyrirtækjum í Evrulandi, Japan og Kína er staðreynd.
Bandaríski skuldabréfamarkaðurinn sendi skýr skilaboð í síðustu viku þess efnis að efnahagslægð sé yfirvofandi: Þriggja mánaða ríkisbréf báru hærri vexti heldur en tíu ára bréf!
Umsnúin vaxtakúrfa af þessu tagi boðar alltaf samdrátt. Menn borga meira fyrir skammtímapappíra vegna hræðslu (flótti í öryggi í augnablikinu) eða vegna þess að þeir fá ekki lengri tíma lán og neyðast til þess að bjóða hærra í skammtímapappíra.
Höfundur er rithöfundur.