Eftir Ernu Ýr Öldudóttur:
„Sú er óbifanlega skoðun mín að gott og heilbrigt þjóðfélag eigi að byggjast á því að sérhver heilbrigður einstaklingur beri ábyrgð á eigin lífi, að hann verði að axla þá ábyrgð að velja og hafna. Þann bikar hvorki vil ég né tel rétt að taka frá öðru fólki.“ – Guðrún Helgadóttir, þingkona Alþýðubandalagsins í þingumræðum um bjórinn.
Segja má að 1. mars sé tyllidagur frelsis einstaklingsins á Íslandi, en þann dag fyrir akkúrat 30 árum síðan mátti almenningur aftur kaupa og drekka bjór, eftir 74 ára bann stjórnvalda.
Orrustan vannst þann 1. mars 1989, en stríðið er ekki búið, þar sem ríkisvaldið hefur enn sterkt taumhald á framleiðslu og sölu áfengis og rukkar jafnframt hæstu áfengisgjöld í Evrópu.
Árið 1989 var engu að síður ár frelsis í alþjóðlegu samhengi, en Berlínarmúrinn féll þann 9. nóvember það ár, eftir röð mótmæla og uppreisna í fyrrum Austantjaldslöndunum gegn kúgun og ofríki sósíalískra stjórnvalda, sem hafði þá keðjuverkun að Austur-Þýskaland gafst upp á því fyrirkomulagi að læsa borgarana inni í sinni sósíalísku paradís og skjóta fólk á færi sem reyndi að kíkja yfir múrinn út í frelsið.
Þessi dagur, eins og hver einasti dagur ætti að vera, er tilvalinn til að minnast þess sérstaklega, að frelsið kostar miklar fórnir og í sögulegu samhengi líf hundruð milljóna einstaklinga. Bönn og höft sem sett eru á frelsið með einu pennastriki, kosta aðeins agnarlítið brot af því verði sem greiða þarf fyrir endurheimt þess. Þeir sem fæðast frjálsir gengur stundum illa að skilja að frelsið er ekki sjálfsagt eða gefins og margir kjósa að horfa framhjá þeim gríðarlegu fórnum sem aðrir hafa fært til að reyna að öðlast frelsi fyrir sig og komandi kynslóðir.
Fyrst máttu útvaldir kaupa og drekka ölið
„Bjórdagurinn“ ekki almennur frídagur, enda þarf frelsið að kallast á við ábyrgð í réttum hlutföllum, frjálsir menn þurfa að vinna fyrir tilvist sinni. Þó slægju eflaust ekki margir á móti því höndinni að fá að sofa lengur 2. mars, en þannig vill til á þessu stórafmæli frelsisins að sá dagur er laugardagur, og einhverjir heppnir sem eiga frí um helgar eiga þess kost að liggja aðeins lengur undir feldi með timburmönnum á morgun.
Sala á léttu öli, pilsner með að hámarki 2,25% áfengismagni, malt extrakt og hvítöli sem eru með enn minna áfengismagni var þó áfram leyfð og á stríðsárunum fékk Ölgerðin undanþágu til að framleiða bjór fyrir setuliðin. Árið 1965 máttu áhafnir flugvéla og skipa koma með takmarkað magn með sér inn í landið og frá árinu 1980 máttu ferðalangar kaupa takmarkað magn í fríhöfninni.
Árið 1983 opnaði Gaukur á Stöng í Reykjavík, en staðurinn var ölkrá að þýskri fyrirmynd. Sala bjórs var enn óheimil og tóku eigendur staðarins upp á að selja svokallað „bjórlíki“, blandaðan drykk sem minnti á bjór, en stóðst þó engan samanburð. Bjórlíkið varð svo vinsælt að ástæða þótti til að banna sölu þess árið 1985.
Þann 1. mars fyrir 30 árum, þegar almenningur fékk aftur að kaupa og drekka bjór, fengust fimm bjórtegundir í Reykjavík, Egils Gull frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar, Löwenbräu, Sanitas Pilsner og Sanitas Lageröl frá Sanitas og Budweiser frá Bandaríkjunum, en fljótlega bættust við innfluttar tegundir, Kaiser Premium frá Austurríki og Tuborg og Pripps frá Danmörku. Fljótlega eftir það varð bjór vinsælasti áfengi drykkur landsins, einkum lagerbjór, en á síðustu árum hafa vinsældir annarra gerða bjórs aukist talsvert með tilkomu nýrra innlendra tegunda, en mikil gróska hefur verið undanfarin ár í innlendri framleiðslu bjórs.
Spár bölsýnsmanna rættust ekki
Nýir drykkjusiðir hafa látið á sér kræla á síðustu árum, spár bölsýnismanna rættust ekki og mikil breyting hefur orðið á neyslu sterkra áfengra drykkja m.v. það sem áður þekktist. Dregið hefur úr áberandi ölvunarástandi á almannafæri og breytt viðhorf til áfengisneyslu hafa leitt til þess að fólk drekkur minna hverju sinni, en ef til vill við fleiri tækifæri en áður.
Mig langar til að rifja upp nokkur ummæli stjórnmálamanna frá þessum tíma um bjórinn, mest af þessu er úr þingræðum:
Guðrún Helgadóttir, þingmaður Alþýðubandalagsins, var mikil talskona þess að bjórinn yrði leyfður. Í ræðu hennar sagði m.a.:
„Heildarneysla áfengis segir nákvæmlega ekki neitt um drykkjusiði þjóðarinnar. Þeir verða ekki í lagi fyrr en þjóðinni hefur lærst að fara með áfenga drykki eins og siðað fólk. Von okkar sem teljum æskilegra að fólk neyti léttra áfengra drykkja en sterkra er sú að einn góðan veðurdag renni upp sú stund að það verði heldur litið niður á fólk sem sést á almannafæri áberandi drukkið. Það eru nefnilega engir mannasiðir.“
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Alþýðubandalagsins, nú forseti Alþingis sagði, þann 2. mars 1988:
„Ég held að það sé mikill misskilningur, herra forseti, kannske einhver alvarlegasti misskilningurinn, að með áfengu öli flytjist inn í landið einhver bjórmenning. Slíkt gerist ekki á þann hátt. Ég held hins vegar að ókostirnir, sem felast í sjálfu ölinu og brestum mannlegs eðlis í samskiptum við það, komi inn með neyslunni samstundis. Ég hlýt því að vara mjög við því í öllu falli, hver sem örlög þessa frv. verða, að menn haldi að hér sé hægt að setja upp tugi jafnvel hundruð af ölstofum og að það skapi ekki upplausn í samfélagi eins og Íslandi sem ekkert hefur haft af slíku um áratuga skeið.“
Og hann bætti við:
„Ég hefði talið skynsamlegt að reyna að velja einhvern tiltekinn þröngan styrkleikaflokk og hafa ölið á honum. Það hefði haft áhrif að mínu mati ef við hefðum t.d. ákveðið að áfengt öl skyldi vera af styrkleikanum 3,25–3,75, hvorki meira né minna, búið. Frekar létt öl, en samt klárlega áfengi og eingöngu meðhöndlað sem slíkt og selt sem slíkt.“
Flokkssystir hans, Margrét Frímannsdóttir, síðar formaður Alþýðubandalagsins, sagði:
„Ég er móðir tveggja unglinga og segi þess vegna nei.“
Sverrir Hermannsson, þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, hafði frelsið síst að leiðarljósi í umræðum um málið:
„Ég játa það að vísu að það var mikið óhappaverk þegar fjármálaráðherra krataflokksins leyfði farþegum að kaupa þetta í Keflavík. Það var mikið óhappaverk. En við skulum bara kippa því í liðinn.“
Og:
„En mér dettur í hug það sem Bismarck sagði: Ef þetta mál á að ganga fram, þá er það verra en glæpur. Það er heimska.“
Og loks sagði Sverrir:
„Bjórinn er auðvitað ekkert nema áfengi, það hafa hinir nýju frumkvöðlar og flm. frv. til laga um ölið játað berum orðum, og því miður líklega lúmskasti drykkurinn af áfenginu öllu saman og eins og ég hef áður nefnt dæmi um sér í lagi í augum Íslandsmannsins sem heldur því fram í svæsinni ölvímu að hann hafi ekkert brennivín bragðað, bara öl.“
Höfundur er blaðakona á Viljanum.
Heimildir:
Vísindavefurinn og Bjór á Íslandi, auk alþingistíðinda.