Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því hve létt Íslendingar — samfélag stórmóðgaðra — hafa að mestu tekið skæðadrífu skætings sem bylur á þeim frá Tyrklandi í kjölfar margfalds misskilnings vegna komu tyrkneska fótboltalandsliðsins til Íslands.
Málið er að verða að einni fyndnustu milliríkjadeilu sem sögur fara af. Starfsmenn utanríkisþjónustunnar og Knattspyrnusambands Íslands eru löðursveittir að reyna að útskýra fyrir tyrkneskum stjórnvöldum drög og staðreyndir málsins vegna smávægilegrar tafar og leitar á tyrkneska fótboltaliðinu á Keflavíkurflugvelli. Á meðan eru íþróttafréttamenn eins og útspýtt hundsskinn að reyna að bera það af sér við öskureiðar tyrkneskar fótboltabullur, að hafa tekið viðtal við fyrirliða tyrkneska landsliðsins með uppþvottabursta við komuna í Keflavík.
Aðrir netverjar voru furðu lostnir — en gátu ekki annað en séð spaugilegu hliðina og hafa fyrir það fengið á lúðurinn frá blóðheitum tyrkneskum íþróttaáhugamönnum á netinu. Þeir tefldu fram sínum safaríkustu móðgunum, allt frá hrakyrðum um íslenskan fótbolta til svívirðinga um mæður okkar og hótana um innrás. Margir þeirra hafa einnig talið að uppþvottaburstinn væri klósettbursti. Engar skýringar hafa fengist á því aðrar en að mögulega séu tyrkneskir klósettburstar öðruvísi en þeir sem við eigum að venjast – nema sóst sé eftir að gera það sem stórmóðgaðir gera oft — afbaka hlutina til að móðgast sem mest og réttlæta þannig yfirdrifin, ósanngjörn viðbrögð sín.
Saga málsins er sú að tyrkneskir fjölmiðlar greindu frá því sem þeir höfðu eftir leikmönnum liðsins, að þeir hafi mátt bíða og þola leit í þrjár klukkustundir á Keflavíkurflugvelli, en hið rétta er að tæpur einn og hálfur tími hafi stappað nærri lagi. Ástæðuna má rekja til þess að Konya-flugvöllur, þaðan sem þeir komu, er ekki alþjóðlegur flugvöllur og einnig utan Schengen svæðisins. Fótboltaliðið hafði með sér ærið hafurtask sem kallaði á seinlega leit að vökva og raftækjum reglum samkvæmt.
Undanþága frá þessum reglum er almennt aðeins veitt hátt settum embættismönnum sé sótt um það tímanlega – en ekki fótboltastjörnum – jafnvel þó þær kunni að vera þjóðhetjur í heimalandinu.
Jafnframt kom á daginn að „fréttamaðurinn“ með uppþvottaburstann var belgískur ferðamaður, spéfugl sem var líkast til að reyna að búa til skemmtilega sjálfu úr Íslandsferðinni, handa sér og vinum sínum til að gantast með. Sá hefur nú þurft að gera sérstakar ráðstafanir þar til að Tyrkjum rennur reiðin – eitthvað sem hann átti líklega engan veginn von á. Vefsíða Isavia og KSÍ hafa orðið fyrir netárásum tyrkneskra hakkara í hefndarskyni. Ekki sér fyrir endann á hamaganginum, sem hefur einungis verið undanfari þess sem koma skal, fótboltaleiknum Ísland – Tyrkland, sem verður leikinn í Laugardalshöll seinna í dag.
Öllu þessu hafa Íslendingar almennt tekið með jafnaðargeði, með nokkrum undantekningum þó. Margir svöruðu fúkyrðum Tyrkja, t.d. á twitter, með þolinmæði eða léttu háði. Einhverjir reyndu af veikum mætti að útskýra málið, jafnvel að beiðast vægðar. Nokkrir Tyrkir hafa þó látið hafa það eftir sér að þeim finnist viðbrögð samlanda sinna miður og aðrir hafa dregið í land og biðjast afsökunar. Þetta er jú bara fótbolti.
Þessi vandræðalega uppákoma verður vonandi bara það sem hún er ennþá — spaugileg og til þess fallin að vekja áhuga á leik landsliðanna. Undirliggjandi er þó eitthvað myrkara. Vanhugsuð fljótfærni og móðgunargirni. Tilhneigingin til að ákveða að stórmóðgast og skipta fólki upp í hópa. Við gegn þeim, þau gegn okkur — þá er allt leyfilegt. Tyrkirnir stilltu Íslendingum upp sem óvinum sem „móðguðu þjóð þeirra“, og sitthvað miður hefur verið sagt um Tyrki á íslenskum samfélagsmiðlum vegna málsins síðan í gær.
En hver og einn okkar er bara einstaklingur, sem hefur ekkert til saka unnið annað en búsetu eða að tilheyra einhverri þjóð – og gengur sú staðreynd í báðar áttir. Að móðgast er val sem öllum er frjálst að velja eða hafna. Íslendingar völdu þó að mestu, þrátt fyrir að því er virðist rangar sakargiftir og holskeflu af dónalegum athugasemdum, seinni og betri kostinn í bland við létt spaug.
Fyrir það hljóta þeir heilbrigðisviðurkenningu sem vonandi nýtist hér eftir í umræðu um önnur hitamál.
Höfundur er blaðamaður á Viljanum.