Um lagalega óvissu sem fylgir orkupakkanum

Eftir Borgar Þór Einarsson, Diljá Mist Einarsdóttur, Einar S. Hálfdánarson, Einar Pál Tamimi, Guðrúnu Björgu Birgisdóttur, Gunnar Inga Jóhannsson, Heimi Örn Herbertsson, Kristínu Edwald, Lúðvík Örn Steinarsson, Pál Rúnar M. Kristjánsson, Unnar Stein Bjarndal og Tómas Hrafn Sveinsson:

Nokkrir lögmenn fjalla um lagalega óvissu í aðsendri grein í Morgunblaðinu þann 14. júní. Að gefnu tilefni skal áréttað að þeir Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson (sem lögmennirnir vitna til) segja berum orðum að valdheimildir erlendra stofnana nái ekki til ákvarðana um hvort sæstrengur verði lagður. Þessar valdheimildir gilda einungis þegar slík tenging er til staðar. Ekki mun reyna á ákvæði um þessar valdheimildir nema Alþingi ákveði að tengja Ísland við raforkumarkað ESB með sæstreng og því getur enginn byggt rétt sinn á slíkum ákvæðum.

Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem þeir Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson lögðu til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá. Í þingsályktunartillögunni felst ekki undanþága frá EES samningnum. Reglurnar eru innleiddar og ekkert ófullkomið við það.

Allt tal um bótakröfur þeirra sem ekki fengju að leggja hingað sæstreng byggðar á orkupakkanum er því hugarburður.

Að okkar mati er engin ástæða til að fresta ákvörðun um þriðja orkupakkann á Alþingi þar sem engin óvissa eða áhætta er til staðar eins og málið er lagt upp.

Höfundar eru hæstaréttarlögmenn.