Ungabarn undir pressu

Eftir Maríu Rún Vilhelmsdóttur:

Halló heimur!

Ég er 5 mánaða gömul stúlka og fyrsta barn foreldra minna. Þessi heimur er þvílíkt undur og ég finn að hér ég er örugg. En ég verð að viðurkenna að það er ekkert grín að vera ungabarn, en ég er ákveðin í því að standa mig vel fyrir fólkið mitt. 

Fæðingin var erfið, bæði fyrir mig og mömmu. Loksins þegar ég kom í heiminn heyrði ég mömmu segja að hún hefði viljað að fæðingin hafi gengið öðruvísi fyrir sig og að hún hafi alls ekki ætlað að fá mænudeyfingu og glaðloft en þetta hafi bara verið svo einstaklega erfitt að hún varð að gefa eftir. Ég hélt að ég hefði staðið mig svo vel en ég var of lengi og snéri ekki alveg rétt. Mamma og pabbi voru búin að fara á fæðingarnámskeið og læra haföndun en þetta fór ekki samkvæmt áætlun. En ég var staðráðin í því að tækla allt annað sem á eftir kæmi.

Þegar við vorum komin niður að hvíla okkur á spítalanum var ég orðin mjög svöng og mamma otaði brjóstinu sínu að mér, ég veit alveg hvað ég á að gera við það, en einhvern veginn var ég ekki alveg að ná þessu og mjólkin kom ekki svo ég varð frekar pirruð. Ljósmóðirin kom og kreisti úr brjóstinu hennar mömmu og gaf mér með skeið. Ég leit upp alsæl á mömmu með mjólkina en ég gat ekki annað en séð örlítil vonbrigði í andlitinu á henni.  „Við fórum á brjóstagjafanámskeið fyrir svo stuttu. ekki grunaði mig að hún myndi svo bara ekki taka brjóstið, eftir alla þessa heimavinnu,“ sagði mamma við pabba en horfði svo á mig og kyssti mig. Ég elska mömmu og pabba.

Þegar við komum heim tók á móti mér höll, mín eigin höll. Risastórt herbergi, allt út í flottum fötum hangandi á veggnum og dýrar hönnunarvörur á hillunum, allt var bleikt því mamma og pabbi vissu að ég væri stelpa og voru búin að hanna herbegið mitt og fá mikið lof fyrir á samfélagsmiðlum. Rúmið mitt var með rándýrum rúmfötum, stuðkanti, andandi svefndúkku og himnasæng úr silki yfir. Á gólfinu bleikur vintage sportbíll sem ég mun ólíklega nenna að leika mér með en allt í lagi, flottur er hann.

Þarna hófust vandræðin

Þarna hófust vandræðin, mamma og pabbi vildu að ég væri inni í þessu herbergi ein á nóttunni. Þau voru búin að fara á námskeið og kaupa bækur til þess að hjálpa mér að vera ein með svefndúkkunni en ég bara get ekki hugsað mér það. Enn og aftur sá ég vonbrigðin í augunum á mömmu en hún skilur ekki að ég vil vera á henni og á pabba. Ég vil finna sláttinn í hjartanu eins og ég hef gert frá því ég var fóstur. Ég vil finna hlýjuna, ég vil ekki vera þarna mamma og pabbi, hættið að skilja mig þarna eftir — ég skil þetta ekki. Ég var mjög fúl þegar ég vaknaði nokkrum sinnum í rúminu, þau höfðu platað mig. Ég lét þau sko finna fyrir því næstu nætur og vaknaði oft bara svona til að athuga hvort þau ætluðu að reyna að plata mig aftur. Ég heyrði svo í mömmu tala í símann og við erum að fara til svefnráðgjafa í næstu viku. Systir pabba á nefnilega dóttur sem er jafngömul mér og hún sefur eins og engill í sínu rúmi alla nóttina, svo segir mamma hennar allavega. Ég verð því að bæta þessu á verkefnalistann minn og mastera þetta. 

Þegar ég fór að vakna mikið á nóttunni náði mamma í nýja bók, þessi bók var full af klukkum sem sýna henni hvenær ég á að vera sofandi og hvenær ég á að vera vakandi. Eins og ég sé ekki undir nógu mikilli pressu fyrir, ég er ennþá að reyna að fullkomna drykkjarhæfileika mína og á líka að fullkomna svefnmynstrið núna, ég hugsaði að mamma og pabbi yrðu að gefa mér smá svigrúm fyrir villur því þetta væri aðeins of mikið. 

Einn lúrinn vaknaði ég og heyrði mömmu mína tala í símann: „Nei ég bara get ekki meir, hún vill bara vera í fanginu og ég næ ekki að gera neitt, sefur þín alla nóttina? Og er hún í sínu rúmi alltaf? Og er það bara ekkert mál? Vá hvað ég öfunda þig, mín er ekki alveg búin að ná þessu ennþá.“

Enn og aftur, vonbrigði. Ég þarf að fara að taka mér tak, ég ætla ekki að tapa fyrir hinum ungabörnunum. 

Þoli ekki duddur

Þegar ég hélt að pressan gæti ekki orðið meiri, tók við annað tímabil, þegar ég hélt að ég gæti ekki klúðrað meiru. Mamma þarf að fara að drífa sig út á vinnumarkaðinn svo ég verð að fara að drekka úr pela, ég og mamma hittum vinkonu hennar út í búð um daginn og þar sagði vinkona hennar að sitt barn hefði alltaf drukkið pela og það væri ekkert mál, það væri svo gott að komast aðeins út úr húsi og vera meðal fólks. Ég horfði í augun á hinu ungabarninu sem var að standa sig svona vel með duddu og allt, en ég þoli ekki duddur. Hitt ungabarnið ætlaði að brosa til mín en ég sneri höfðinu við — vert þú bara í þínum gamla ungbarnastól í friði, ég hef ekki tíma fyrir sleikjuskap. 

Eitt kvöldið hélt pabbi á mér og stakk pelanum upp í mig, ég leit til hliðar og sá mömmu sitja í sófanum í einhverri vél sem kreisti mjólk úr brjóstunum á henni. Hún grét.

„Afhverju get ég ekki bara mjólkað eins og allar aðrar, er það af því hún tekur ekki brjóstið rétt, heldurðu það?“

Ég snéri höfðinu upp og horfði á hlýtt augnaráð pabba, ég ákvað að taka pelann og létta á þeim báðum.

Eins og staðan er í dag er ég að standa mig í mörgu, myndi ég segja. Ég er í kúrfu í einu og ekki í kúrfu í hinu. Ég á ennþá við svefn-og hegðunarvanda að stríða miðað við eina bók en samkvæmt nýju bókinni sem mamma er að lesa núna er þetta víst bara eðlilegt. Höllin mín er orðin að þvottaherbergi og ég er komin með nýja höll inni í svefnherbergi hjá mömmu og pabba, svo ég er nokkuð sátt með það. Að ætlast til þess að ég sé ofan í rúminu mínu er ennþá eitthvað grín fyrir mér.

Mamma og pabbi eru að leita að dagmömmu því orlofið er að klárast, þau geta gleymt því að ég samþykki það. En vinkona mömmu var í heimsókn um daginn og hennar strákur er jafngamall mér og er eins og engill við sína dagmömmu. Hann borðar vel og sefur vel og fer aldrei að gráta sagði hún.

Þið getið gleymt því að ég nenni að leika við það barn, það er að láta mig líta frekar illa út. 

Svo er annað á döfinni, ég er skráð á námskeið því ég þoli ekki að vera inni í bíl. Mamma heldur að ég sé haldin innilokunarkennd og víðáttufælni. Ég skil ekki hvað vandamálið er, hættið bara að setja mig inn í þennan bíl og allir eru sáttir.  En ég ætla að reyna að tækla þetta líka, enda ætla ég mér að vera fyrirmyndar ungabarn. 

Það er nóg af verkefnum framundan, allt á meðan ég er að stækka og læra á heiminn. Þetta er 200% vinna myndi ég segja.  

Ef önnur ungabörn eru að lesa þetta þá er sendi ég ykkur baráttustrauma.

Það er ekkert grín að vera ungabarn í dag, aldrei hefur verið eins mikil pressa á okkur og nú að vera góð í alla staði. Munið bara að gráta ekki á almannafæri, vera stillt á fínum veitingastöðum og leyfa mömmu að taka eina mynd á mánuði af ykkur þar sem hún klæðir ykkur í fín föt og lætur ykkur liggja á flottri mottu, ekki gráta því hún verður að ná myndinni og við ungabörnin verðum að veita foreldrum okkar hamingju og standa okkur. 

Annars get ég ekki kvartað, ég fór til Tenerife daginn eftir 3 mánaða sprautuna mína og er á leið í Parísar að baða mig í list og menningu. Því við nútímabörn höngum ekki heima fyrstu mánuðina eða árin eins og venjan var áður fyrr, við upplifum heiminn og foreldrar okkar þurfa ekki að breyta sínum ævintýrum bara afþví að við mætum í heiminn. 

Lífið er núna. 

Kem kannski síðar með uppfærslu á verkefnum mínum, ef ég hef tíma. 

Og eitt annað – Ungabörn, þið standið ykkur vel. Og foreldrar, þið standið ykkur öll vel.