Upphrópanir og gífuryrði

Eftir Guðmund Val Stefánsson:

Ég er Cand Scient i sjávar- og fiskalíffræði með sérfræðiþekkingu á laxi. Nú skeði það að eldislaxar af óheppilegri stærð (nálgast kynþroska) sluppu úr kví fyrir vestan á óheppilegum tíma (á göngu tíma villtra laxa). Það hefur verið erfitt að fá raun tölur á þeim fjölda sem hafa gengið upp í árnar en upphrópanir og gífuryrði dynja stöðugt á landsmönnum á ljósvökum og fjölmiðlum m.a. um að þeir muni blandast íslenska villta laxastofninum. Það var t.d. grátbroslegt að sjá frétt á Rúv í gær um einhvern gríðarlegan fjölda eldislaxa í íslenskum ám en þeir sýndu bara myndir af aðkomu- hnúðlöxum. Það kom engin mynd af eldislaxi.

Það er lítið talað um ýmislegt annað sem er að gerast varðandi íslenskar ár . T.d. er gríðarlegt magn af hnúðlaxi sem er nú að finnast í íslenskum ám og margfalt fleiri í norskum ám. T.d eru nú komnir um 120 þúsund hnúðlaxar á land úr Tana ánni í Finnmörk eftir sumarið/haustið. Þetta eru taldir vera rússneskir villtir- og hafbeita hnúðlaxar.

Á hverju ári sleppa íslenskir veiðiréttareigendur 3 – 5 milljónum eldislaxaseiða af íslenskum uppruna í flestar íslenskar ár á landinu. Þessa laxa má gjarnan einnig kalla hafbeitarlaxa. Mikið af þeim laxi bera skýr merki eldislaxa og ratar á rannsóknaborð Hafró. Þá koma oftast fréttir um að þarna hafi veiðst sjókvíaeldislaxar. Gallinn er sá að þessi ósannindi eru aldrei leiðrétt.

Það er alveg ljóst að aðferðin „veiða og sleppa“ veldur því að viðkomandi laxar fá ígerð sem valda truflun á mökunaratferli þeirra og síðar afföllum. Veiðiálag frá sportveiðimönnum veldur einnig truflandi áhrifum á mökunaratferli laxa.

Það er allt of lítill áhugi fyrir hendi að rannsaka þessi áhrif á hnignun stofnana. Hafa ber í huga að seiði eignast ekki seiði. Þó að eldislaxa hrygna blandi genum við villtan hæng þá er ekki þar með sagt að einhver að þeim seiðum muni verða að kynþroska laxi fyrir næstu kynslóð. Það eru minna en 0,1% líkur fyrir hrogn af hreinum villtum uppruna að komast í gegnum nálarauga náttúrunnar og verða að kynþroska göngulaxi. Hann þarf að bera þau gen, þá eiginleika sem þarf til að lifa og dafna við þau náttúrulegu skilyrði sem ríkja þar til kynþroska er náð. Eldisgenin hafa ekki þá eiginleika og því eru nánast engar líkur á að slíkir einstaklingar nái að lifa og verða kynþroska og snúa til baka til að hrygna. Ef einn af hverjum 1000 villta eggja kemst í gegn (sem er ríflega áætlað) þá þarf u.þ.b. 100. 000 blendinga til að fá einn lax til baka. Afkvæmi hans munu þurfa að vera ca 50.000 til að 1 eigi möguleika. Því mun þetta tiltekna strok eldislaxa ekki hafa nein áhrif á komandi kynslóðir villtra íslenskra laxastofna.

Höfundur er sjávar- og fiskilíffræðingur.