Upplifði ótta á Austurvelli

Eftir Áskel Þórisson:

Ég fór á Austurvöll í hádeginu sl. föstudag til að sýna samstöðu með ungu fólki, sem var þar til að hvetja stjórnvöld til að taka ákveðin skref í loftslagsmálunum.

Ég var á Austurvelli sem fulltrúi þeirrar kynslóðar sem hefur nánast sálgað móður jörð.

Ég upplifði eitt á Austurvelli – sem ég hef ekki fundið áður. Ég fann ótta meðal þessa unga fólks og ég las ótta úr andlitum ungra foreldra sem þarna voru.

Í gær heyrði ég viðtöl í síðdegisútvarpi Rásar 2 við fólk sem var á Austurvelli (þar á meðal var viðtal við mig!). Þar sagði fólk að það væri hrætt við framtíðina. Ung stúlka spurði um tilgang þess að mennta sig þegar framtíðin væri bleksvört.

Áskell Þórisson.

Færustu vísindamenn heimsins vara við afleiðingum þess ef mannkynið tekur sér ekki tak. Sama mannkyn — og þá ekki síst Íslendingar – lætur sér fátt um finnast. Þeir flykkjast til Tenerife og kaupa dót í tonnavís frá póstverslunum í Kína. Til að friða samviskuna fara íslenskir neytendur í verslanir með margnota innkaupapoka og fylla þá af vörum frá fjarlægum heimshornum; vörum sem á stundum væri hægt að fá frá löndum sem eru nær Íslandi; vörum sem hafa mikið og stórt sótspor.

Ég get ekki neitað því að ótti unga fólksins er ótti minn. Við verðum að breyta lífsháttum okkar og það ekki seinna en strax.

P.s.Það verður ráðstefna um loftslagsmál í Háskóla Íslands föstudaginn á vegum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Útaf fyrir sig er gott til þess að vita að það eigi að halda ráðstefnu um málið – en nú verðum við að láta verkin tala. Endurheimta votlendi, rækta skóg og um fram allt að breyta lífsháttum; draga úr óhóflegri neyslu og ferðalögum til útlanda svo fátt eitt sé nefnt. Þetta á eftir að standa í okkur.

Höfundur er fv. ritstjóri og félagi í Landvernd. ask@simnet.is