Eftir Valtý Sigurðsson:
Fyrir stuttu hjólaði Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri hér á þessum vettvangi, í varaþingmanninn og fyrrverandi héraðsdómarann Arnar Þór Jónsson og bað hann að láta börnin okkar í friði. Tilefnið var harðort bréf varaþingmannsins til forráðamanna barna, skólastjórnenda, kennara og fjölmargra annarra til að vara þá við bólusetningum sem börnum bjóðast nú vegna COVID-19. Taldi Björn Ingi það afar ósmekklegt að varaþingmaðurinn hefði enn einu sinni fundið aðferð til að vekja athygli á sjálfum sér. Benti hann á að það væri foreldra viðkomandi barna að ákveða hvort slík bólusetning væri þegin og að það gætu þeir gert án aðstoðar varaþingmannsins. Skólastjórnendur og kennarar brugðust sömuleiðis hart við bréfinu einkum þeirri sérkennilegu framsetningu varaþingmannsins að þessir aðilar ættu sérstaklega að grípa inn í ferlið að viðlagðri ábyrgð.
Arnar Þór Jónsson ritaði sem héraðsdómari margar greinar um hin ýmsu málefni, m.a. á vettvangi dómsmála. Gagnrýni vegna slíkra skrifa lét hann sem vind um eyru þjóta enda taldi hann að í dómarastarfinu fælist beinlínis skylda til að tefla fram sinni sýn á margvísleg þjóðfélagsleg álitaefni. Sagði hann sig úr Dómarafélagi Íslands þar sem hann taldi að siðareglur félagsins þrengdu óhæfilega að stjórnarskrárvörðum rétti hans til að sinna þessari skyldu.
Siðareglur, frelsi og ábyrgð
Í siðareglum Dómarafélagsins segir m.a að sú ábyrgð sem fylgi starfi dómara takmarki að einhverju marki frelsi þeirra til samfélagslegrar þátttöku og tjáningar og geri ríkari kröfur til góðrar? háttsemi en almennt séu gerðar til annarra. Dómarar ættu því ávallt að gæta varkárni í opinberri umfjöllun, þar á meðal á samfélagsmiðlum, um umdeild eða viðkvæm málefni. Þá skyldu dómarar dómarar gæta að því að virk þátttaka í stjórnmálabaráttu á opinberum vettvangi væri ósamrýmanleg stafi dómara. Það sama kunni að eiga við um þátttöku í ýmsum félögum sem hefðu yfirlýst pólitísk markmið eða í félögum þar sem leynd hvílir yfir siðareglu, félagatali eða starfsemi félags.
Sú ákvörðun Arnars Þórs að segja sig úr Dómarafélagi Íslands er að sjálfsögðu hans mál. Það breytti hins vegar ekki því að honum bar eftir sem áður að sýna dómaraembættinu þá virðingu sem starfinu fylgdi svo og gæta hlutleysis á meðan hann gegndi því. Afstaða hans rýrði hins vegar það traust á dómaranum sem borgararnir eiga að geta gert kröfu til.
Hvað á t.d. dómstjóri að gera sem úthlutar máli milli dómara? Reynir hann ekki að koma því þannig fyrir að úthluta ekki þýðingarmiklu máli sem sem reynir á þjóðfélagslega umdeilt atriði til dómara sem hefur tjáð sig opinberlega um afstöðu sína til þess. Hvers eiga samdómarar slíks dómara að gjalda og hvernig er staðan í umdæmi þar sem slíkur dómari er einn? Á aðili dómsmáls að sætta sig við ef dómari og lögmaður gagnaðila eða gagnaðili sjálfur eru t.d. í frímúrarareglunni? Siðareglum dómara er m.a. ætlað að taka á slíkum vandamálum.
Arnar Þór hafði engan rétt á að líta á þessi réttindi sem einskonar heiðursmerki í þanið brjóst hans sjálfs er hann var héraðsdómari.
Dómurum eru tryggð réttindi í stjórnarskránni og lagðar á þá skyldur umfram aðra embættismenn. Sjálfstæði þeirra gagnvart ríkisvaldinu er árangur sem borgararnir náðu fram með mikilli baráttu til þess að geta treyst því að dómarinn geti, án afskipta hins opinbera valds, dæmt lögum samkvæmt, óttalausir um afleiðingar niðurstöðu sinnar. Arnar Þór hafði engan rétt á að líta á þessi réttindi sem einskonar heiðursmerki í þanið brjóst hans sjálfs er hann var héraðsdómari. Þau sjónarmið sem Arnar Þór lét ítrekað í veðri vaka um stjórnarskrárvarin réttindi hans sem dómara til að tjá sig áttu að víkja fyrir þessum rétti borgaranna.
Ég verð að viðurkenna að mér sem fyrrverandi dómara og formanni Dómarafélags Íslands létti þegar Arnar Þór baðst lausnar úr dómaraembætti og bauð sig fram til setu á Alþingi. Ég velti þó fyrir mér hvað tæki við kæmist hann á þing. Álitamál væri hvort hann næði að hugsa út fyrir hinn þrönga ramma sem hvelfdist um skoðanir hans sjálfs. Mér sýnist varaþingmanðurinn byrja afleitlega og lentur út í skurði, enda virðir hann að vettugi lög og hvetur jafnvel opinbera aðila til lögbrota með bréfi sínu. Að því leyti er hann við sama heygarðshornið.
Andstætt dómarastarfinu er hins vegar auðvelt að losa sig við þingmann sem af sjálfumgleði setur fram skoðanir með framangreindum hætti ,allt í þeirri bjargföstu trú að um einn sannleika sé að ræða sem flestum öðrum er hulinn.
Valtýr Sigurðsson er m.a. fyrrverandi héraðsdómari, fv. ríkissaksóknari og fv formaður Dómarafélags Íslands.