Eftir Jóhannes Björn:
Bandaríska ríkið selur nú 30 ára bréf í fyrsta skipti í sögunni á undir 2% vöxtum.
Það skiptir sem sagt engu máli hvort fjárfestar festa peningana í einn til þrjá mánuði eða í 30 ár … vextirnir eru þeir sömu!
Þegar vaxtapíramídinn fer á haus á þennan máta þýðir það að gífurlegt fjármagn er að flýja í öryggi.
Upphæð skuldabréfa í heiminum sem bera NEIKVÆÐA VEXTI er komin upp í $15 trilljónir. Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og seðlabanka seðlabankanna, Bank for International Settlements í Sviss, ganga yfir 15% allra fyrirtækja fyrir ódýrum og auðfengnum lánum. Þau fara flest á hausinn um leið og lánalínur stíflast.
Stórfyrirtæki á borð við Tesla, Uber og fleiri sem gera út á stanslaust tap eru byrjuð að hrapa í verði.
Allt minnir þetta óþyrmilega á tæknibóluna sem sprakk árið 2000.
Höfundur er rithöfundur.