Viljanum hefur borist svofelld yfirlýsing frá Bjarna Má Júlíussyni, fv. framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar:
Það er mér léttir að skýrsla Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar liggur nú fyrir og staðfestir að uppsögn starfsmanns ON sem mestur styrr hefur staðið um var réttmæt og byggði á faglegu mati.
Þá er það ein af niðurstöðum skýrslunnar að ásakanir um mismunun á grundvelli kynferðis og um kynferðislegt áreiti í samskiptum mínum við samstarfsfólk eiga ekki við nein rök að styðjast.
Fyrirvaralaus uppsögn mín úr starfi framkvæmdastjóra ON var hins vegar að mínu mati bæði óverðskulduð og meiðandi og til hennar gripið í skyndi án þess að mér væri gefinn kostur á að útskýra mitt mál.
Það fundust mér kaldar kveðjur eftir 6 ára farsæl störf í þágu OR/Orku náttúrunnar.
Það hefur verið ömurleg reynsla fyrir mig og fjölskyldu mína að fylgjast með hvernig vegið var að mannorði mínu með vandlega útfærðum spuna, sem dreift var á rétta staði til að ná sem mestri fylgni við einhliða og óstaðfesta frásögn af málsatvikum.
Ég vona að með niðurstöðum úttektar Innri endurskoðunar linni atlögum að mannorði mínu og óhróðri um minn fyrrverandi vinnustað.
Bjarni Már Júlíusson.