Verðum við ekki bara að horfast í augu við staðreyndir?

landspitali.is

Eftir Ólaf Elíasson:

Það dylst engum að við erum þeirrar gæfu aðnjótandi að hér á landi er afar hæft almannavarnateymi sem vinnur dag og nótt við að reyna að lágmarka þann skaða sem mun því miður líklega hljótast af Covid 19 veirunni.

Að því sögðu, vil ég samt deila hér áhyggjum mínum af því að þegar ég heyri viðtöl við fremstu sérfræðinga heims í faraldsfræðum fjalla um COVID 19 veiruna þá upplifi ég viðbrögð okkar Íslendinga ekki alveg í takt við það sem þeir ráðleggja. Alla vega finnst mér mikið skorta á að Íslendingar séu að taka eins alvarlega á vandanum eins og Kínverjar hafa gert með góðum árangri.

Það er mín upplifun að Íslendingar séu hvergi nærri búnir að átta sig á hversu miklum usla þessi vírus getur valdið. Dánartíðni sýktra sem eru yfir sjötugt er um 8% og 15% hjá þeim sem eru yfir áttrætt, svo eitthvað sé nefnt. Dánartíðni almennt vegna sýkinga Covid 19, er á bilinu 1% til 3,5%.

Almenningur á Íslandi hefur nánast enga reynslu af því að stöðva útbreiðslu farsótta og enga æfingu í sóttvörnum. Það að brýna handþvott fyrir fólki og að sýna aðgát er eitthvað sem allir eiga að sjálfsögðu að gera og það er óumdeilt að það getur dregið úr smiti. Hins vegar geta allir sem vilja líta í kringum sig séð að í hversdagsleikanum er útilokað að sú aðgerð muni ein nægja til að stöðva faraldurinn.

COVID 19 virðist vera bráðsmitandi og örstutt samvera með smituðum virðst duga til að fá veiruna. Síðasta dæmið um leigubílstjórann sem sýktist segir allt sem þarf að segja um það. Menn spritta sig á höndum en eru svo komnir með puttana upp í andlitið 10 sekúndum seinna. Krakkar kunna fæstir að þvo á sér hendur svo að gagni komi. Þeir hlaupa um allt snertandi hvað sem er og eru stöðugt með puttana uppi í sér.

Ólafur Elíasson.

Ég held að Íslendingar ættu að leggja við hlustir þegar fræðimenn á borð við prófessor Gabriel Leung, sem leiddi baráttuna gegn SARS faraldrinum á sínum tíma talar opinberlega um að hann telji líklegt að allt að 60% mannkyns muni sýkjast og allt að 45 milljónir muni látast.

Hér í þessu myndbandi segir hann eins skýrt og hægt er, að núna -ekki seinna, sé tíminn til að leggja allt í sölurnar til að stöðva útbreiðsluna og ef við verðum mjög heppin, og bara ef við verðum mjög heppin og leggjum allt í sölurnar þá munum við eiga einhvern möguleika á að lágmarka skaðann og stöðva útbreiðslu veikinnar. (Sjá 23:19).

Sami tónn er í prófessor Bruce Aylward, aðstoðarforstöðumanni WHO (Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar) en hann hefur dvalið í Kína á vegum stofnunarinnar og fylgst með framgangi COVID 19 þar.

Í þessu viðtali leggur hann áherslu á að með því að beita ýtrustu aðgerðum eins og Kínverjar gerðu þá er mögulegt að sporna við útbreiðslu en hann leggur áherslu á að stjórnvöld og almenningur verði að vinna á vandanum með öllum tiltækum ráðum eins og lokunum svæða, samkomubanns og einangrunar smitaðara. Hann bendir á að árangur Kínverja hafi náðst með afar róttækum aðgerðum sem einungis sé hægt að lýsa sem stríðsaðgerðum.

Vestræn ríki þurfi nú algerlega að breyta viðhorfum sínum til þessarar ógnar og fara að takast á við faraldurinn með sambærilegum hætti.

Takmarka komur til landsins og setja á samkomubann

Margir sem ég tala við telja fráleitt að loka nánast landinu eins og Kínverjar og Ítalir hafa gert. En ég spyr: Verðum við ekki bara að horfast í augu við staðreyndir?

Menn tala eins og það sé heimsendir ef takmarkanir eru settar á komu ferðamanna. Það bendir allt til þess að vírusinn sé að ná fótfestu um allan heim og það liggur í augum uppi að fjöldi ferðamanna mun koma hingað smitaðir, verði engar takmarkanir á komum þeirra til landsins. Engin leið er til þess að hafa almennilegt eftirlit með þeim, rekja smitleiðir þeirra og setja þá í sóttkví eins og Íslendinga.

Það er heldur ekki hægt að reiða sig á að þeir hugsi um almannahagsmuni þjóðarinnar með sama hætti og innlendir vonandi gera. Margir þeirra munu örugglega ekki tilkynna smit þar sem það hefði mjög íþyngjandi afleiðingar fyrir þá. Fái ferðamenn að koma óhindrað inn í landið áfram þá hlýtur það að vera afar líklegt að við munum standa í þeim sporum að sýkingin muni ná mikilli útbreiðslu hérlendis.

Þá verður varla gott að hafa þúsundir ferðamanna lokaða inni hérlendis í farbanni, eins og nú er að gerast á Ítalíu.

Sama verður að segjast um samkomubann. Allt bendir til þess að til þess muni koma á endanum hvort sem er. Er ekki betra að setja það á strax áður en margir verða smitaðir? Það hlýtur líka að vera betra fyrir þá sem standa fyrir viðburðum að vita það núna að þeir verði ekki haldnir heldur en að setja kostnað og vinnu í að skipuleggja viðburði sem sennilega verða ekki að veruleika. Að ekki sé talað um ávinniginn af því að hafa færri smitaða.

Ég held að nú sé tíminn til að horfast í augu við staðreyndir og gera sér grein fyrir alvarleika málsins og grípa til róttækari aðgerða heldur en nú er gert.

Því miður…

Höfundur er píanóleikari og M.B.A. og leiddi m.a. Indefence-hópinn.