Verjum íslenskar jólahefðir

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson:

Ein mesta auðlind hvers samfélags er að eiga sameiginlega menningu og sögu. Fyrir þjóð felast ómetanleg verðmæti í því að þekkja sameiginlega reynslu og minni. Slík sameiningartákn ýta undir þá tilfinningu að fólk tilheyri einum hópi og fyrir vikið undir það viðhorf að gæta þurfi að öllum meðlimum hópsins, þjóðarinnar allrar.

Í slíkum samfélögum er sama hvort stjórnmálaflokkar hneigjast til vinstri eða hægri eða eru á miðjunni, nánast allir hafa skilning á því að hópurinn þurfi að standa saman.

Eitt það mikilvægasta í menningu okkar er jólahaldið. Á jólum og í aðdraganda þeirra ríkir einstök samkennd meðal íslensku þjóðarinnar. Við erum minnt á að við séum í raun ein stór fjölskylda. Samkennd og velvild í garð náungans er jafnan meiri en á öðrum tímum ársins og flestir vilja sýna það í verki, hvort sem þeir gera það með því passa sig á að sýna tillitssemi í umferðinni, styrkja góð málefni eða brosa til ókunnugra og óska gleðilegra jóla.

Við megum þó ekki líta á allt það góða við íslenskt jólahald sem sjálfgefna og óumbreytanlega hlut

Við megum þó ekki líta á allt það góða við íslenskt jólahald sem sjálfgefna og óumbreytanlega hluti. Friður og samkennd jólanna er afleiðing langrar sögu sem þarf að rækta og varðveita.

Þess vegna er það sérstakt áhyggjuefni að á undanförnum árum hafi verið leitast við að þrengja að hefðum og jafnvel grundvelli jólahalds á Íslandi og víðar. Eins og alltaf eru slíkar breytingar boðaðar í nafni góðra markmiða og með vísan í jákvæð orð eins og frelsi og fjölbreytileika.

Þannig er okkur sagt að í nútímasamfélagi geti ekki gilt gamlar reglur um frí á helgidögum. Frelsið kalli á að fyrirtæki fái að láta fólk vinna þá daga eins og aðra daga. Vitanlega hafa margar stéttir ætíð þurft að vinna á jólum (t.a.m. heilbrigðisstarfsfólk, löggæsla og slökkvilið) en þá hefur verið litið á það sem lofsverða fórnfýsi þeirra sem starfa fyrir samfélagið. Um leið hefur þótt rétt að þeir sem þyrftu að vera við vinnu yfir jól fengju að njóta hátíðarinnar eins og kostur er fremur en að jóladagarnir væru eins og hver önnur vakt.

Verra er þó að borið hefur á því að jólahaldi sé að verulegu leyti úthýst úr sumum af mikilvægustu stofnunum samfélagsins. Það á til dæmis við um skóla í sumum sveitarfélögum, einkum í Reykjavík. Dæmi eru um að börn fái ekki að fara í kirkju með skólanum fyrir jól eða sýna jólaleikrit og jafnvel ekki að halda litlu jólin í skólanum. Undirbúningur jólanna í skóla hefur frá upphafi verið stór þáttur í aðdraganda friðarhátíðarinnar á Íslandi. Kynslóð fram af kynslóð hefur jólaundirbúningur í skólum veitt börnum einstakar ánægjustundir og verið liður í því að viðhalda hinni sameiginlegu íslensku jólamenningu.

Því er stundum haldið fram að þetta þurfi að breytast vegna þess að nú hafi hlutfall Íslendinga sem játa ekki Kristni aukist. Slík rök eru fjarstæðukennd og sannarlega ekki í anda jólanna. Auk þess ganga slík viðhorf jafnan gegn vilja þeirra sem flutt hafa til landsins. Flestir telja þeir eðlilegt og ánægjulegt að fá að taka þátt í siðum landsins og líta ekki svo á að með því að taka þátt í íslenskum jólaundirbúningi séu þeir að ganga gegn eigin trúarbrögðum. Þegar íbúar Vesturlanda flytja í aðra heimshluta þykir þeim jafnan eðlilegt og ánægjulegt að fá að kynnast siðum nýja heimalandsins.

Ég vona að hið samhenta og góða samfélag Árborgar muni njóta þess friðar og þeirrar gleði sem einkennt hefur íslenskt jólahald um aldir og rækta þá miklu samkennd sem fylgir jólahátíðinni.

Gleðileg jól,

Höfundur er formaður Miðflokksins.

(Greinin birtist fyrst í jólablaði Miðflokksins í Suðurkjördæmi).