VG enn föst í gjaldþrota hugmyndafræði

Brynjar Níelsson fv alþingismaður.

Eftir Brynjar Níelsson:

Ég las einhvers staðar að þingmaður Vg teldi flokkinn ekki geta gefið meira eftir í stjórnarsamstarfinu vegna fylgishruns flokksins í skoðanakönnunum og nefnir í því sambandi einkum útlendingafrumvarpið og breytingar á lögreglulögum um auknar heimildir til handa lögreglu.

Þessi tvö mál snúast ekki einu sinni um vinstri og hægri heldur um raunsæi og skilningi á nauðsyn þess að bregðast við breyttum aðstæðum.

Upplifun sjálfstæðismanna er ekki sú að Vg hafi þurft að gefa svo eftir í þessu stjórnarsamstarfi, öðru nær. Að vísu hefur Vg ekki fengið í gegn að hækka alla skatta en það er ekki eftirgjöf. Þó hafa þeir náð í gegn nýjum loftslagssköttum sem engu bjarga og gera ekkert annað en að skaða íslenskt atvinnulíf í samkeppni við heiminn, sem neytendur bera kostnaðinn af á endanum. Svo hafa þer náð í gegn alls konar aukaútgjöldum fyrir ríkið, einkum til hagsmunahópa sem berjast fyrir sömu pólitík.

Fylgishrun Vg er ekki vegna eftirgjafar í stjórnarsamstarfinu. Frekar mætti segja að fylgistap hinna stjórnarflokkanna sé vegna eftirgjafar við Freka kallinn í samstarfinu. Rannsóknir sýna að það getur verið fjandanum erfiðara að vera í samstarfi með fólki sem lætur skynsemi og raunsæi víkja alfarið fyrir tilfinningum.

Vandi Vg er fyrst og fremst sá að flokkurinn er enn fastur í gjaldþrota hugmyndafræði, sem byggist að mestu á stækri andúð á einkaframtaki í atvinnulífinu og atvinnufrelsi almennt. Frelsi einstaklingsins er þeim ekki hugleikið enda skilgreina þau sig sem sósíalista. Ríkisvæðing og útþensla báknsins er þeirra hjartans mál.

Fylgistap Sjálfstæðisflokksins er vegna eftirgjafar og rænuleysis í þessum efnum. Fylgishrun Vg er hins vegar vegna þess að ungt fólk hefur lítinn áhuga á þessu stjórnlyndi í öllu og veit að tækifæri og sókn til betri lífskjara er ekki í gegnum stefnu og hugmyndafræði Vg. Þess vegna færist tapað fylgi Vg ekki til Sósíalistaflokksins.

Höfundur er lögmaður og fv. þingmaður.