VG og heiðursgesturinn

Ed Miliband og Gordon Brown voru nánir samherjar í breskum stjórnmálum um árabil.

Eftir Össur Skarphéðinsson:

Á sínum tíma var Samfylkingin stofnuð sem söguleg tilraun til að sameina jafnaðarmenn. Allir flokkar á vinstri vængnum áttu aðild að henni. Alþýðubandalagið tók þátt í sameiningunni af heilum hug. Formaður þess, Margrét Frímannsdóttir, leiddi viðræðurnar og var skeleggur talsmaður þeirra út á við. Nokkrir gamlir kommar og harðsnúnir sósíalistar lengst til vinstri klufu sig hins vegar frá á lokametrunum. Þeir fóru og stofnuðu VG, sem í dag iðkar róttæka vinstri stefnu með því að stýra Íslandi með Engeyjarættinni og Sjálfstæðisflokknum.

Össur Skarphéðinsson fv. utanríkisráðherra.

Klofningsliðið voru karlar einsog Hjörleifur Guttormsson, Ragnar Arnalds, og Steingrímur Joð. Í byrjun var Svavar opinberlega með Samfó en þegar fararsnið rann á Hjörleifi og Grími sást undir iljar honum. Ögmundur var frá upphafi á móti sameiningunni (einsog Hjörleifur) og kaus að taka þátt í stofnun VG. Ögmundur, sem þá var formaður BSRB, var raunar ein helsta ástæðan fyrir velgengni VG lengi framan af. 

Þeir fóru og stofnuðu VG, sem í dag iðkar róttæka vinstri stefnu með því að stýra Íslandi með Engeyjarættinni og Sjálfstæðisflokknum.

Klofningsmenn úr liði Margrétar og Alþýðubandalagsins voru mjög skýrir á því afhverju þeir vildu ekki taka þátt í sameiningu vinstri vængsins. Þeir töldu ómögulegt að vera í flokki með fólki sem studdi Evrópusambandið, vildi að Ísland yrði áfram í Nató, og margir þar að auki mengaðir af Blairisma breska Verkamannaflokksins.

Síðan eru liðin tuttugu ár…

Nú eru 20 ár liðin frá stofnun VG. Af því tilefni verður mikil afmælishátíð á laugardaginn. Þangað er boðið sérstökum heiðursgesti úr breska Verkamannaflokknum. Sá heitir Ed Miliband. Í þessu sögulega samhengi er valið á Miliband óneitanlega skondið – að ég ekki segi kaldhæðið. Segja má að í því felist ákveðið uppgjör við söguna. 

Ekki einasta var Ed Miliband nánasti ráðgjafi Gordon Brown, sem harðast lék okkur Íslendinga í Icesave. Ed Miliband er líka einhver harðasti talsmaður Evrópusambandsins sem finnst í Bretlandi og í þjóðaratkvæðagreiðslunni um aðild barðist hann gegn Brexit. Miliband er auk þessa ákafur stuðningsmaður Nató og hefur stutt öll stríð sem bandalagið hefur anað út í. Á tímum Tony Blair var hann þar að auki einn af mótorunum í hinni blairísku hugmyndasmiðju sem talin var lengst til hægri í breska Verkamannaflokknum.

Í dag er búið að bylta breska Verkamannaflokknum. Honum er nú stjórnað nánast í fyrsta sinn í sögunni af róttækum sósíalistum sem tilheyra því sem Íslendingar myndu skilgreina sem „ysta vinstrið.”

Þess í stað er boðið góðum Blairista sem er eindreginn talsmaður ESB, eindreginn stuðningsmaður Nató og var á móti Brexit. 

Í ljósi þess að VG kallar sig enn„róttækan vinstri flokk” þá er sögulega merkilegt að flokkurinn skuli ekki sækja sér heiðursgest í raðir þeirra. Þess í stað er boðið góðum Blairista sem er eindreginn talsmaður ESB, eindreginn stuðningsmaður Nató og var á móti Brexit. 

Einhvern tíma hefðu kremlólógar einsog Svavar og Hjörleifur lesið afdráttarlaus skilaboð úr því. Væntanlega vísa þau til þeirrar framtíðar sem Katrín Jakobsdóttir vill stefna til og snjallir sagnfræðingar einsog bræður hennar gætu jafnvel lesið í þau uppgjör við þann upphaflega grundvöll sem VG var stofnað á. 

Ég efa samt ekki að Svavar, Ragnar Arnalds, Hjörleifur Guttormsson og Steingrímur Joð mæta til að klappa Miliband upp á laugardaginn. Gaman verður að sjá hvort Ögmundur mætir líka.

Höfundur er fv. formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra.

Birtist fyrst á fésbókarsíðu Össurar.