Við erum öll fórnarlömb þessara aðstæðna

Eftir Guðbjörn Guðbjörnsson:

Ljóst er að Wuhan-veiran frá Kína mun hafa gríðarleg áhrif á fjárhag allra tegunda fyrirtækja og þó sérstaklega í ferðaþjónustunni og þá sem þar vinna. Það hefur síðan dómínó-áhrif um allt hagkerfið, þannig að í sjálfu erum við öll fórnarlamb þessara aðstæðna, rétt eins og í fjármálakreppunni 2008-2010. Ólíkt og í hruninu er hér hins vegar um áfall fyrir alla heimsbyggðina að ræða og við því alls ekki ein á báti. Þá er staða ríkisfjármála og flestra fyrirtækja hér á landi einstaklega góð um þessar mundir.

Fjölmargir fjármagnseigendur munu eðlilega vilja að ríkið komi þeim þarna til hjálpar fyrirtækjum og auðvitað er það hagur ríkisins eða almennings að öll góð fyrirtæki í landinu haldi velli og verði ekki gjaldþrota með þeim hörmungum sem því fylgja. Rétt er þó að hafa í huga að stuðningur ríkisins verður að vera skilyrtur og almenningi í hag, sem borgar brúsann á endanum. Það er ekki hægt að gefa einkaaðilum peninga úr ríkissjóði og fjármagnseigendur munu þurfa á móti að afskrifa mikinn hluta eigna sinna.

Þannig er eðlilegt að ríkið eignist við slíka fjárhagslega aðstoð eignarhlut í fyrirtækjunum, t.d. Icelandair eða hótelkeðjum, í stað þeirra peninga sem dælt er inn í þau á einn eða annan hátt. Óeðlilegt er að almenningur (ríkið) taki peninga að láni eða noti innistæður sínar og eignir ríkissjóðs til að verja eignarhlut einstaklinga. Þetta var ekki gert í hruninu og á heldur ekki að gera í hamförum sem þeim er núna yfir okkar ganga. Almenningur þarf að passa upp á að stjórnmálamenn séu ekki að framkvæma gjafagjörninga í skjóli neyðarástands.

Guðbjörn Guðbjörnsson stjórnsýslufræðingur.

Vírusinn mun gefa sig og við á endanum sigrast á honum og vandamálin eru tímabundin. Icelandair og hótelkeðjurnar eru hins vegar ekki að fara neitt og þegar þessari farsótt lýkur – sem verður vonandi sem allra fyrst – þá á ríkið (almenningur) stóran hlut í þessum fyrirtækjum. Á sama hátt er hægt að halda öðrum fyrirtækjum gangandi, því óhagstæðast fyrir alla er ef kerfið allt leggst á hliðina, líkt og gerðist meira og minna á hrunárunum 2008-2010.

Aðgerðirnar eru í sjálfu sér ekki ólíkar og var gripið til í kjölfar fjármálahrunsins þegar stór hluti fyrirtækja smárra og stærri endaði í fangi ríkisins.

Höfundur er stjórnsýslufræðingur og MPA.