Vill ríkisstjórnin 30 þúsund reiða og kalda Suðurnesjamenn á Austurvöll?

Eftir Guðbjörn Guðbjörnsson:

Það sætir furðu minni þegar ég sit hér í húsinu mínu í Njarðvík og hitastigið við frostmark, vitandi vits að fyrir löngu síðan urðu um 4 þúsund Grindvíkingar að flóttamönnum í eigin landi, að ríkisstjórn Íslands skuli enn ausa peningum úr landi í alls kyns þróunaraðstoð, jafnvel fyrir meðlimi hryðjuverkasamtaka. Er ekki mál að Alþingi verði slitið og fólk spurt hvort það sé sammála þessum dellustjórnmálum eða skiptir skoðun venjulegra Íslendinga kannski alls engu máli lengur? Svarið er einfalt: NEI. Skoðun nokkurra þúsunda góðs fólks og nemenda í Hagaskóla skiptir því mun meira máli.

Bjarni Benediktsson fyrrverandi fjármálaráðherra viðurkenndi í dag og staðfesti ummæli Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra að bein útgjöld ríkissjóðs til flóttamannamála væru árlega í kringum 20 milljarðar króna eða svipuð upphæð og ef allar fasteignir í Grindavík væru keyptar af ríkissjóði. Þetta er líklega um 50% af útlögðum kostnaði vegna flóttamanna, sem eru sennilega í 40-45 milljarðar á ári. Er ekki kominn tími á að spyrja kjósendur hvort þeir séu sammála 2000% kostnaðaraukningu í þennan málaflokk pólitískra flóttamanna og förumanna á aðeins 8 árum?

Fyrir 2 mánuðum síðan kom í ljós að neyðarsjóður á fjárlögum, sem er í raun til staðar til að fjármagna óvænt ríkisútgjöld líkt og varnargarðana við Grindavík og Svartsengi, hafði verið tæmdur til að fjármagna komu 4-5 þúsund flóttamanna og það enn eitt árið. Til að fjármagna nauðsynlega varnargarða var því enn einn skatturinn lagður á landsmenn. Nú er utanríkisráðuneyti Sjálfstæðisflokksins að senda út diplómata til að sækja 150 flóttamenn í viðbót af Gaza-svæðinu, sem búið er að lofa dvalarleyfi. Vill meirihluti landsmanna sólunda skattfé á þennan hátt og ætti ekki að spyrja kjósendur út í þetta?

Að sögn Morgunblaðisins fylgja hverjum flóttamanni sem kemur um 21 til viðbótar í kjölfarið í fjöskyldusameiningum. Við megum því eiga von á a.mk. 4 þúsund flóttamönnum til viðbótar bara á grundvelli þessa gjörnings og þá til viðbótar við þá 4-5 þúsund sem koma hvort eð er frá öðrum ríkjum líkt og á liðnum árum, en um 150 milljónir eru á flótta vegna stríða í landinu. Af hverju eiga Íslendingar að axla mörgum sinnum meiri ábyrgð í þessum efnum en nágrannaþjóðirnar, þarf ekki að spyrja kjósendur að þessu?

Er ekki komið að því að slíta þingi?

Er ekki kominn tími á að slíta Alþingi og leyfa Íslendingum að kjósa um það hvort þeir vilji nú frekar við styðja við bakið á Grindvíkingum eða einhverju bláókunnugu fólki úti í heimi? Eru börn Grindvíkinga ekki börnin okkar? Er eðlilegt að núverandi fjármálaráðherra selji Íslandsbanka og hugsanlega Landsbankann, Isavia og jafnvel Landsvirkjun til að flytja hingað tugi þúsunda flóttamanna? Hvaða umboð hefur núverandi ríkisstjórn til að standa í slíkri sölu á eignum eða skuldsetningu ríkissjóðs með um 30% fylgi í skoðanakönnunum?

Valkosturinn við sölu ríkiseigna er auðvitað að auka gríðarlega skuldsetningu ríkissjóðs enn frekar eða hækka skatta á þjóð sem sem er sú skattpíndasta í heimi hér. Við greiðum nú þegar um 120 milljarða í vexti árlega vegna óhóflegs bruðls þessarar ríkisstjórnar í flóttamenn og umhverfisdellugreiðslur (40 / flóttmenn + 120 / vextir = 165 milljarðar!). Er ekki mál að þessu linni? Á sama tíma segir seðlabankastjóri að það setji ríkið á hausinn og leiði til óðaverðbólgu að eyða 30 milljörðum í hækkun barna- og vaxtabóta til að liðka fyrir kjarasamningum! Hvaða ‘lógík’ er nú í þessari bullhagfræði?

Mér er ískalt hér í húsinu mínu í Njarðvík og krefst skýrra svara og það STRAX og það gera væntanlega 4 þúsund flóttamenn úr Grindavík líka. Eða vill þessi ríkisstjórn 30 þúsund reiða og kalda Suðurnesjamenn niður á Austurvöll í byrjun næstu viku?

Höfundur er stjórnsýslufræðingur og formaður Tollvarðafélags Íslands.