Vinstri róttæklingar nánast réttlæta hryðjuverk Hamas

Brynjar Níelsson fv alþingismaður.

Eftir Brynjar Níelsson:

Mjög fróðlegt, og sláandi, er að sjá suma gömlu vinstri róttæklingana nánast réttlæta hryðjuverk Hamas, þar sem ungmenni, almennir borgarar og jafnvel gestir ertu myrtir með hrottalegum hætti og líkin svívirt. Mér sýnist þetta vera mikið til sama fólkið sem er í tilfinningalegu uppnámi vegna hvalveiða og á svefnlausar nætur yfir því að einhverjir hvalir hafi hugsanlega ekki drepist á mínútunni við veiðarnar.

Þessi viðbrögð minna mjög á þegar Rauðu herdeildirnar og Bader Meinhof, sem voru marxískir hryðjuverkahópar, drápu saklausa borgara á áttunda áratug síðustu aldar með köldu blóði um alla Evrópu. Vinstri róttæklingarnir skelltu ekki skuldinni á hryðjuverkamennina heldur var auðvaldsskipulagið sökudólgurinn.

Deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs eru sjálfsagt flóknar og ekki auðvelt að setja sig inn í aðstæður á svæðinu. Engu að síður er ekki hægt að sýna því skilning sem Hamasliðar gerðu þarna, hvað þá að reyna að réttlæta það með einhverjum hætti. Er það alveg óháð því hvaða afstöðu menn hafa til deilnanna milli þessara þjóða.

Höfundur er lögmaður og fv. alþingismaður.