Vitleysa vísindahyggjunnar!

Kirkjufell. Ljósmynd: Darren Brown.

Eftir Sr. Gunnar Jóhannesson:

Nú hefur þessi mynd af Kirkjufelli ekkert með textann hér að neðan að gera – nema að því leyti að þetta fallega fjall er örlítill hluti af alheiminum, eða sköpunarverkinu, sem við erum einnig hluti af.

Það eru ekki allir sem nota orðið sköpunarverk í tengslum við alheiminn og tilurð hans, eða sjá ábak við hann nokkuð sem bendir til ásetnings eða sköpunar. Raunar hefur mér verið bent þónokkrum sinnum á það af mínum guðlausu vinum og kunningjum — sjálfsagt bæði í gríni og alvöru — að dusta rykið af þekkingu minni á vísindum (eða verða mér út um einhverja!) í þeirri von að þaðvenji mig af þessum eilífu vangaveltum um Guð og kristna trú.

Mér þykir vænt um slíkar hvatningar og tek þeim af jákvæðni enda veit ég að lífsskoðun vina minna er þeim ekkert síður mikilvæg en mín er mér. En á bak við hvatningu sem þessa liggur þó tiltekið viðhorf sem margir hafa gleypt við (og oft gagnrýnislaust og án þess að leiða hugann sérstaklega að því) og telja einfaldlega sjálfgefið, nefnilega það að vísindi hafi með einhverjum hætti gert guðstrú úrelda eða sýnt fram á að Guð sé ekki og geti ekki verið til. Og þegar hlustað er á málflutning hinna svokölluðu nýguðleysingja og/eða sumra guðlausra vísindamanna þá er ekki nema von að margir telji svo vera.

Enginn skapaði heiminn og enginn stýrir örlögum okkar

Hinn þekkti vísindamaður Stephen Hawking, sem féll frá á síðasta ári, er dæmi um vísindamann sem ýtt hefur undir þetta viðhorf. Hawking er einn merkasti vísindamaður sögunnar og það leikur enginn vafi á snilligáfu hans. Og þegar annar eins maður hefur upp raust sína líta margir svo á að það sem frá honum kemur hljóti óhjákvæmilega að vera satt og rétt og byggjast á óvéfengjanlegri vísindalegri niðurstöðu – og kannski ekki síst það sem hefur með Guð og trú að gera.

Stephen Hawking.

Hawking sagði að „einfaldasta skýringin [á tilvist Guðs] sé sú að það sé ekki til neinn Guð. Enginn skapaði heiminn og enginn stýrir örlögum okkar … Við höfum þetta eina líf til að skynja mikilleik alheimsins og fyrir það er ég einkar þakklátur.“

Jafnframt leit Hawking „á heilann sem tölvu sem mun hætta að starfa þegar hlutirnir í henni fara að bila. Það er ekki til neitt himnaríki eða framhaldslíf fyrir bilaðar tölvur; það eru ævintýri fyrir myrkfælna.“

Hér er vissulega um að ræða staðhæfingar stórkostlegs vísindamanns sem hefur stórum aukið þekkingu okkar á eðli og innviðum alheimsins. En hér er ekki um vísindalegar staðhæfingar að ræða!

Það er mikilvægt að greina á milli þess.

Hawking hefði t.d. aldrei getað gert tilkall til nóbelsverðlauna í eðlisfræði fyrir að hafa sannað að Guð sé ekki til eða að líf eftir dauðann sé óhugsandi. Enda eru spurningar sem lúta að Guði eða lífi eftir dauðann ekki spurningar sem vísindi veita svar við.

Staðhæfingar vísindamanna og vísindalegar staðhæfingar

Það minnir á að staðhæfingar vísindamanna og vísindalegar staðhæfingar fara ekki alltaf saman. Staðhæfingar vísindamanna fela alls ekki alltaf í sér vísindalegar staðhæfingar. Og það á sannarlega við um ofangreindar staðhæfingar Hawkings um Guð og himnaríki, sem eru heimspekilegar í eðli sínu og liggja utan þess sem vísindi ná til.

Hvað varðar hina meintu samleið vísinda og guðleysis er líka vert að minnast þess að upphafsmenn nútímavísinda hefði þótt áðurnefnd ummæli einkar undarleg og illa til fundin, enda voru þeir kristnir menn og litu alls ekki svo á að vísindi gerðu kröfu um annað eða væru nokkurskonar fyrirstaða í því samhengi.

Sr. Gunnar Jóhannesson.

Kópernikus, sem lagði grunn að hinni nýju heimsmynd með sólmiðjukenningu sinni, var dómkirkjukanón í Póllandi, svo dæmi sé tekið.

Kepler leit svo á að lögmál sín um gang reikistjarnanna endurspeglaði hugvitssemi skaparans. Boyle, faðir efnafræðinnar, var afar trúrækinn maður sem leit svo á að framgangur vísindanna mundi styrkja grundvöll kristinnar trúar.

Hið sama gilti um Newton, sem skrifaði um ævina mun meira um guðfræði en vísindi.

Og þannig mætti lengi telja.

Vísindaleg hugsun þessara frumherja var grundvölluð á þeirri trúarsannfæringu að hinn náttúrulegi heimur væri lögmálsbundinn og stærðfræðilega skiljanlegur. Guðstrú, sem grundvallast á tilvist skapara sem hannaði alheiminn og setti honum þau lögmál sem hann lýtur, var með öðrum orðum órjúfanlegur þáttur í vísindalegri nálgun þeirra og fól í sér þann frumspekilega grundvöll sem nútímavísindi voru reist á og spruttu uppúr.

Eins og C.S. Lewis orðaði það tóku menn að hugsa vísindalega vegna þess að þeir gerðu ráð fyrirnáttúrulögmálum, og þeir gerðu ráð fyrir náttúrulögmálum vegna þess að þeir trúðu á þann semhafði sett náttúrunni lögmál sín.

Náttúran er skiljanleg

Kepler, Boyle, Newton og allir hinir vissu vel að sú staðreynd að náttúran er skiljanleg og aðgengileg í stærðfræðilegum skilningi, og að til séu náttúrulögmál sem vísindi geta uppgötvað og tjáð með stærfræðilegum hætti, er ekki eitthvað sem vísindi geta útskýrt heldur það sem gerir vísindi möguleg og þau byggja á.

Sjálfur Einstein sagði líka að það eina sem væri óskiljanlegt við alheiminn væri sú staðreynd að hann væri skiljanlegur.

Það má taka undir það út frá guðlausum forsendum. En frá sjónarhóli guðstrúar er það alls ekki óskiljanlegt enda ber alheimurinn skapara sínum vitni og endurspeglar það vit, þá hugsun og þá skynsemi sem hann á rót sína að rekja til.

Sálmaskáldið sem miðlar upplifun sinni, reynslu og trú í 19. Davíðssálmi (öðru versi) hafði einmitt það í huga er hann skrifaði: „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, festingin kunngjörir verkin hans handa.“

En margir benda á framvindu vísinda og hinar og þessar uppgötvanir og kenningar sem að þeirra mati hafa gert guðstrú, eða tilvísun til Guðs, óþarfa í dag og í raun fráleita. En þá verður að benda á að það er mikill misskilningur ef gengið er út frá því að trú og vísindi keppi hvert við annað sem útskýringar á innviðum og gangverki alheimsins. Svo er alls ekki enda um að ræða útskýringar af ólíkum toga sem ekki ber að rugla saman. Það er augljóst þegar við veltum því fyrir okkur.

Þegar kemur að því að útskýra tilvist eða orsök ljósaperunnar keppir Thomas Edison ekki við þau lögmál sem stýra hegðun ljóss, rafmagns og gass. Hvernig gæti það verið? Nei, um er að ræða tvær ólíkar gerðir útskýringa. Önnur er vísindaleg og vísar til náttúrulögmála, hin er persónuleg og vísar til orsakavalds. Báðar eru viðeigandi og nauðsynlegar þegar kemur að því að útskýra ljósaperu. Og saman gefa þær heildarútskýringu á ljósaperunni. Það væri fáránlegt að halda því fram að úr því við getum útskýrt ljósaperuna með vísindalegum hætti, þ.e. segja eðli hennar og virkni út frá þeim eðlisfræðilegum lögmálum sem eiga við, að við getum þar sem sagt að Thomas Edison hafi aldrei verið til og að það sé fráleitt og heimskulegt að trúa öðru.

Það minnir á að það að kunna vísindaleg skil á því hvernig tiltekið kerfi á borð við ljósaperu (eðaalheiminn!) virkar hvorki útilokar né felur í sér rök gegn tilvist orsakavalds (skapara) að baki þess.

Hvers vegna lesa þetta?

Í þessu samhengi getur þú spurt sjálfan þig, svo dæmi sé tekið, hvers vegna þú ert að lesa þessi orð!?

Það er fyllilega mögulegt að útskýra þá staðreynd að þú sért að lesa þennan pistil með því að vísa til (efnislegs) ástands og aðstæðna í heila þínum hér og nú, til rafboða og efnahvarfa og þess háttar, og á endanum til hlutaðeigandi sameinda og atóma allt niður til öreinda á borð við rafeindir, róteindir, nifteindir og jafnvel kvarka og hvað það nú allt heitir.

En er ekki líka að finna aðra útskýringu?! Er ekki að finna þá útskýringu sem hefur með áhuga þinn á efninu að gera, og fyrirætlun þína, ásetning og vilja? Og einnig, þegar dýpra er að gáð, viðleitni þína til að komast að hinu sanna hvað varðar mikilvæga spurningu?

Fyrri útskýringin, hin vísindalega, er sannarlega hluti af heildarmyndinni. En ef hún útilokar þá síðari, hina persónulegu (sem byggir á fyrirætlun orsakavalds), þá er varla ástæða eða tilgangur í að lesa mikið lengra. Hvers vegna ætti maður að eyða tíma sínum í það ef ástæðan fyrir lestrinum er ekki fólgin í öðru en efna- og eðlisfræði handan vilja okkur þegar allt kemur til alls? Spurningin verður fáránleg enda, ekki síst þegar „Hvers vegna“ er sett framan á hana.

Þegar segir í Biblíunni „Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð [alheiminn]“ þá er þar að sjálfsögðu ekki um að ræða vísindalega útskýringu á eðli alheimsins heldur persónulega útskýringu á tilvist hans með tilvísun til orsakavalds.

Og þegar Newton og Kepler og allir hinir uppgötvuðu lögmálin sem við þá eru kennd litu þeir ekki svo á að þar með hefðu þeir afsannað tilvist Guðs. Nei, þvert á móti dásömuðu þeir hugvitssemi Guðs fyrir að hafa komið hlutunum í kring með þeim hætti sem raun ber vitni.

Það er leikur enginn vafi á því að þegar kemur að því að útskýra hvernig hinn efnislegi og náttúrulegi veruleiki hegðar sér þá eru vísindi ómissandi. En það væri ansi fátækleg og rýr upplifun og sýn á lífið og tilveruna ef látið er að því liggja að einu spurningarnar sem vert er að spyrja og leita svara við séu þær sem vísindi spyrja og svara.

Fyrir utan það að vera mótsagnakennt viðhorf (sem getur þar af leiðandi ekki verið satt) – spurðu þig hvort staðhæfingin „Þú átt aðeins að trúa því sem hægt er að sanna vísindalega“ sé staðhæfing sem hægt er að sanna vísindalega!? – þá er vísindahyggja alltof takmarkað viðmið á þekkingu. Sá sem tileinkar sér vísindahyggju neyðist þar með til að leggja til hliðar langflest af öllu því sem langflestir telja til þess sem unnt er að vita, þ.á.m. sögulega þekkingu, siðferðileg sannindi, rökfræðileg sannindi og margt, margt fleira.

Vísindin eru augljóslega takmörkuð

Eins og eðlisfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Peter Medewar benti á eru vísindi augljóslega takmörkuð og geta ekki svarað barnslegum grundvallarspurningum varðandi uppruna tilverunnar, tilgang lífsins og örlög eða hvað er gott, rétt og fallegt — spurningar sem varða sjálfan kjarna mennskunnar og það sem gerir okkur að manneskjum.

Eðli sínu samkvæmt spyrja vísindi takmarkaðra spurninga og geta því ekki náð utan um eða útskýrt allt sem leitar á huga mannsins eða er fólgið í reynslu hans. Og þeir eru margir heimspekingarnir og hugsuðurnir í sögunni – raunar flestir þegar hugsað er til hinnar vestrænu heimspekihefðar – og að sjálfsögðu fjöldinn allir af vísindamönnum þar á meðal, sem hafa litið svo á að því sem varðar manninn mestu verði ekki svarað til hlýtar án þess að vísa til yfirnáttúrulegs veruleika af einum eða öðrum toga.

Í því samhengi má taka undir orð hins mikla heimspekings 20. aldarinnar, Ludwig Wittgenstein, sem sagði:

„Við finnum að jafnvel þótt öllum mögulegum vísindalegum spurningum hafi verið svarað þá höfum við ekki enn tæpt á vanda lífsins á nokkurn hátt.“

Nei, til þess þarf annað og meira!

Höfundur er sóknarprestur í Hveragerði.