Viljanum hefur borist svofelld yfirlýsing frá skrifstofu Alþingis vegna umræðu um akstursgreiðslur Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi:
„Í tilefni af umræðu á þingfundi í gær, 21. maí, þar sem því var haldið fram að rökstuddur grunur væri um að Ásmundur Friðriksson alþingismaður hafi dregið sér almannafé og að engin viðbrögð hafi verið í þá átt að setja á fót rannsókn á því, vill skrifstofa Alþingis koma eftirfarandi á framfæri.
Þann 5. mars 2018 skilaði skrifstofa Alþingis greinargerð um þróun og framkvæmd laga og reglna um þingfararkostnað og var hún birt á vef Alþingis. Skrifstofan hefur engin gögn sem benda til þess að rangt hafi verið haft við og röngum eða tilhæfulausum reikningum verið skilað inn til endurgreiðslu. Skrifstofan gerir athugasemdir ef skil á gögnum eru ekki í samræmi við gildandi reglur hverju sinni. Þegar þetta tiltekna mál kom til forsætisnefndar í annað sinn gerði skrifstofan á ný athugun á akstursbók Ásmundar en þar var ekkert að finna sem vakti grun um misferli.
Rétt er að Ásmundur endurgreiddi að eigin frumkvæði akstursgreiðslur sem hann hafði fengið þegar hann var í þáttagerð fyrir ÍNN en þingmaðurinn viðurkenndi að það hefðu verið mistök að leggja inn beiðni um endurgreiðslu fyrir þann akstur.
Hafa ber í huga að akstursgreiðslur Ásmundar Friðrikssonar eru tvíþættar. Annars vegar samningsbundinn „heimanakstur“, þ.e. akstur frá heimili að þingstað yfir þingtímann, eins og gildir um marga landsbyggðarþingmenn nærri höfuðborgarsvæðinu, gegn því að þeir afsali sér greiðslu húsnæðiskostnaðar, og hins vegar endurgreiðslur fyrir akstur á fundi og viðburði í kjördæmi.
Það er starfsmönnum skrifstofu Alþingis þungbært að sitja undir ásökunum um að greiða tilhæfulausa reikninga og gæta ekki að meðferð almannafjár.“
Reykjavík, 22. maí 2019,
Helgi Bernódusson
skrifstofustjóri Alþingis.