Afmælisdagur Nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxness er í dag og í tilefni dagsins verður opnuð sýning í Landsbókasafninu. Sýningin er samstarfssýning Gljúfrasteins, Landsbókasafnsins, Bókmenntaborgar Reykjavíkur og Forlagsins.
Þar er þess minnst að í ár eru liðin 100 ár frá útgáfu fyrstu bókar Laxness, Barns náttúrunnar. Skáldið var því rétt orðinn 17 ára þegar fyrsta bókin hans kom út. Af þessu tilefni mun Forlagið endurútgefa bókina.
Á vef Gljúfrasteins er fjallað um rithöfundaferil Laxness og segir þar, að viðtökur gagnrýnenda við frumrauninni hafi verið nokkuð blendnar. Einn sagði að „viðvaningshöndin [væri] auðfundin á allri bókinni“, annar sagði Huldu, aðalpersónu sögunnar, „óskiljanlega og afkáralega og einskisverða“ og þar fram eftir götum. Hins vegar virtust menn sammála um að Halldór Guðjónsson ætti framtíðina fyrir sér og sagði Jakob Jóh. Smári t.d. að engum gæti dulist að hér væri „um að ræða efni í skáld, sem líklegt er til stórra afreka“.
Þetta muni vera besta bók mín
Barn náttúrunnar segir frá náttúrubarninu Huldu og heimsmanninum Randveri sem leitar lífshamingjunnar í fábrotnu lífi bóndans. Óbeisluð og eigingjörn lífsskoðun Huldu tekst á við þrá Randvers eftir einföldu en iðjusömu lífi og sagan fjallar á þann hátt „um siðferðilegan grundvöll mannlífsins“, eins og Halldór ritaði í formála að sögunni árið 1964. Sagan er rómantísk og boðskapurinn einfaldur en sterkur – maðurinn á að rækta garðinn sinn í sveita síns andlits og njóta ávaxtanna.
Formáli Halldórs að endurútgáfunni hófst með þessum orðum:
„Nákominn vinur sem ég tek mikið mark á sagði við mig ekki alls fyrir laungu, að Barn náttúrunnar fyrsta bók mín, samin 1918, væri í senn útdráttur, niðurstaða og þversumma af öllu sem ég hefði skrifað síðan: að síðari bækur mínar væru allar eintóm greinargerð fyrir þeim niðurstöðum sem komist er að í Barni náttúrunnar. – Nú er ég hef látið tilleiðast að renna augum yfir bókina í fyrsta sinni síðan ég sendi hana frá mér sextán vetra gamall, þá uppgötva ég að þetta muni vera besta bók mín, og liggja til þess þær orsakir að hún geymir óm bernskunnar. Þetta er kveðja mín til bernskudaganna.“