Ástarævintýri, vandræði og vesen Valgerðar Skaftadóttur

Nanna Rögnvaldardóttir.

„Valskan er söguleg skáldsaga, byggð á slitróttum en þó furðu miklum heimildum sem ég hef fundið um ævi formóður minnar, Valgerðar Skaftadóttur, sem var prestsdóttir frá Hofi í Vopnafirði, fædd 1762 og átti vægast sagt óvenjulega og merkilega ævi. Meðal annars barst hún til Danmerkur þar sem hún stundaði nám í verksmiðju á herragarði á Fjóni en hraktist þaðan og var svo einn vetur í sollinum í Kaupmannahöfn þar sem margt dreif á daga hennar. Kom aftur heim 1789 og hélt áfram að lenda í ástarævintýrum, vandræðum og veseni.“

Þetta segir Nanna Rögnvaldardóttir, rithöfundur og einn þekktasti matgæðingur þjóðarinnar, um nýja bók sína, Völskuna, í samtali við Viljann.

„Ég ákvað að skrifa um ævi Valgerðar – ekki endilega bók og alls ekki skáldsögu – þegar ég sá nokkrar línur um hana í Íslendingabók fyrir nærri 20 árum, mér fannst það sem þar stóð svo forvitnilegt að ég varð að vita meira. Grúskaði mikið og leitaði upplýsinga á ótal stöðum. Ég byrjaði svo að skrifa bók sem átti að vera nokkuð hefðbundin ævisaga en breyttist í skáldsögu eiginlega óvart,“ bætir hún við.

Nanna er Íslendingum að vitaskuld að góðu kunn. Og sannarlega ekki blaut á bak við eyrun þegar kemur að ritstörfum. „Ég er nú enginn nýgræðingur í jólabókaflóðinu þótt þetta sé fyrsta skáldsagan. Ég átti t.d. söluhæstu bók jólabókaflóðsins 1989 – ekki matreiðslubók – og hef sent frá mér að meðaltali eina bók á ári síðustu 25 árin. En vissulega er þetta svolítið öðruvísi en með matreiðslubækurnar, ég hef verið að lesa upp mjög víða og var til dæmis þátttakandi í Rithöfundalestinni á Austurlandi, þar sem við fórum um nokkur saman og lásum upp á einum sex stöðum, það var mjög skemmtilegt.“

En hvernig er að upplifa þetta blessaða jólabókaflóð sem höfundur?

„Ég fylgist auðvitað með sölu og les ritdóma en það hef ég alltaf gert. Ég starfaði í bókabransanum sem ritstjóri og fleira í yfir 35 ár og reyndi alltaf að fylgjast vel með, það tilheyrði bara. Auðvitað gleðst ég yfir góðri sölu og góðum ritdómum – og ekki síst jákvæðum umsögnum þeirra sem hafa lesið bókina, þær þykir mér vænst um – en ég gleðst líka þegar aðrir rithöfundar sem ég kann að meta fá góða dóma og komast á sölulista.

Mér finnst þetta ekki vera nein keppni, að minnsta kosti er ég ekki að keppa við neinn. En það er mögulega að hluta til af því að fyrir mér er þetta ekki spurning um lífsafkomu eins og fyrir svo marga höfunda sem hafa tekjur sínar aðallega af bóksölu og svo listamannalaunum. Sjálf er ég komin á eftirlaun og þótt tekjur af bókum – bæði þessari og af eldri bókum mínum , sem sumar eru enn að seljast dálítið – séu ágæt búbót, þá þarf ég ekki að reiða mig á þær eins og svo margir aðrir.

Ég á fleiri breyskar formæður sem mig langar til að segja frá

Þess vegna get ég bara haldið áfram að skrifa án þess að vera að fylla út alls konar umsóknareyðublöð og bíða svo milli vonar og ótta eftir svari um hvort ég fái rithöfundarlaun eða þurfi að fara að skúra eða stunda sjó eða vinna á hóteli eða eitthvað. Ég mæli nú ekkert með því að rithöfundar fresti bara frekari skrifum þar til þeir eru búnir að safna sér í eftirlaunasjóð sem þeir geta lifað af. En það hjálpar, mikil ósköp.“

Og er nýtt verkefni í fatvatninu hjá höfundinum?

„Jú, ég held örugglega áfram að skrifa. Ég á fleiri breyskar formæður sem mig langar til að segja frá og svo er ég með ýmsar aðrar hugmyndir í kollinum, hvað sem úr þeim verður. Svona var þetta líka þegar ég skrifaði matreiðslubækur, ég var kannski með eina nýútkomna, aðra langt komna – eða ég allavega komin með flestar uppskriftirnar sem ég ætlaði að hafa og byrjuð að prófa þær – og svo eina eða fleiri á hugmyndastigi sem sumar urðu einhvern tíma veruleiki, aðrar ekki.“

Ert þú kominn hér, Eiríkur Guðmundsson Hoff?

Grípum niður í Völskuna, þar sem Valgerður er nýkominn til Danmerkur og móðurbróðir hennar, sem þar býr, er að sýna henni Kaupmannahöfn:

Fyrir utan húsið er burðarstóll eins og sumt fína fólkið ferðast í hér, frændinn hefur sagt henni að þeir geti hentað mun betur en hestvagnar til að komast leiðar sinnar um þröngar götur, einkum þegar vegalengdir séu ekki mjög langar. Stóllinn er blámálaður með löngum, rauðum burðarkjálkum og sætið er fóðrað með dökkrauðu plussi. Tveir sterklegir karlar hafa staðnæmst á stéttinni, lagt stólinn þar frá sér og sleppt kjálkunum og eru nú að aðstoða gamlan mann við að komast út úr honum. 

Frændinn tekur viðbragð þegar maðurinn lítur upp. Hann staðnæmist og tautar: 

„Er það sem mér sýnist?“ 

Maðurinn er kominn út á stéttina og hefur rétt stirðlega úr sér. Hann er vel ríflega meðalhár, herðabreiður og höfðinglegur á að líta. Bóluör í andliti, orðinn nokkuð hrukkóttur og brúnirnar gráar. Hann er með hvítt parruk á höfði og nokkuð ríkmannlega klæddur en þó laus við allt glys. 

Frændinn gengur til hans og ætlar að ávarpa hann en maðurinn verður fyrri til – og talar íslensku. 

„Ert þú kominn hér, Eiríkur Guðmundsson Hoff? Og ófullur, hvað kemur til?“ 

Eiríkur tekur í handlegg Völku og ýtir henni fram. 

„Mig langar að kynna fyrir yður systurdóttur mína, Valgerði Skaftadóttur frá Hofi í Vopnafirði, dóttur séra Skafta heitins Árnasonar. Hún er komin hingað til að læra tóvinnu, ein af ungmennunum sem hingað eru send af yfirvöldum og ég efast ekki um að þér þekkið vel til. Valgerður mín, hér er kominn sá mæti maður monsjör Skúli Magnússon, landfógeti Íslands.“ 

Völku bregður við. Þetta er þá sjálfur Skúli fógeti. Einn valdamesti maður Íslands, sá sem hefur yfirumsjón með öllum fjármálum konungs á Íslandi, skattheimtu og jarðeignum, verslun og viðskiptum. Því embætti hefur hann gegnt í á fjórða áratug; var áður sýslumaður í Skagafjarðarsýslu. Maðurinn sem hafði handtekið föður hennar og dæmt hann til hýðingar og brennimerkingar en einnig útvegað honum náðun. 

Valskan eftir Nönnu Rögnvaldardóttur, útgefandi: Iðunn/Forlagið.