Baráttan við ok valdsins er barátta við gleymskuna

„Barátta mannsins við ok valdsins er barátta hans við gleymskuna“, eru fleyg orð tékkneska rithöfundarins Milan Kundera, sem varð níræður 1. apríl síðastliðinn, en afmælis hans er minnst í nýrri grein skoska verðlaunarithöfundarins Ewan Morrisson.

Kundera gerði gleymskuna að helsta viðfangsefni verka sinna, en hann bjó í útlegð í Frakklandi frá árinu 1975, eftir að hafa gefist upp á að reyna að tala fyrir endurbótum í heimalandinu. Hann hafði búið í þá Tékkóslóvakíu, og orðið að flýja stjórnvöld. Hann hæddist að alræði kommúnistanna í bók sinni Brandarinn (1967) sem varð til þess að verk hans voru bönnuð eftir að Vorið í Prag var kæft með innrás Sovétríkjanna árið 1968. Aðrar þekktar bækur eru Lífið er annarsstaðar (1973), Bókin um hláturinn og gleymskuna (1979) og Óbærilegur léttleiki tilverunnar (1984), en kvikmynd með sama nafni var gerð eftir bókinni í leikstjórn Philip Kaufman árið 1988. 

Eftir fall Sovétríkjanna árið 1991, opnuðust flóðgáttir frásagna fólks af ógnarstjórnum kommúnista í Rússlandi, Tékkóslóvakíu, Austur-Þýskalandi, Búlgaríu, Ungverjalandi, Albaníu, Rúmeníu og Póllandi. Stöðnun, skuldir, spilling, mannréttindabrot, fangelsanir, pólitískar ofsóknir, fjöldagrafir, viðurstyggilegar læknisfræðilegar tilraunir á fólki, eftirlitsþjóðfélög, launmorð, mannshvörf og hungursneyðir. Æpandi sannanir fyrir misheppnaðri miðstýringu og áætlunarbúskap sósíaliskrar hugmyndafræði litu loksins dagsins ljós fyrir augum heimsins. Kerfisbundnar lygar stjórnvalda, afnám tjángingarfrelsins og sögufölsun – m.a. með því að myrða andstæðingana og láta þá hverfa, m.a. með því að endurrita söguna í framhaldinu. 

Á síðasta áratug síðustu aldar komu áður falin gögn fram í dagsljósið, þjóðarmorð um svelti Stalíns á sex til átta milljón manns í Holodomor í Úkraínu á árunum 1923-33. Þau voru bændur sem höfðu þráast við að gefa eigur sínar, og dreift þorpsskipulag eftir, fyrir miðstýrðan sósíalisma. 

Talið er að kommúnistastjórnir Sovétríkjanna hafi samtals myrt yfir 60 milljón manns, skv. fræðimanninum Rudolph J. Rummel sem safnað hefur gögnum og skrifað bækur um dráp ýmissa stjórnvalda á eigin borgurum.

Síðar komu fram gögn um gríðarlegt umfang mannfalls í þjóðarmorðum Maó formanns í Kína, en hollenski sagnfræðingurinn og rithöfundurinn Frank Dikötter telur að allt að því 45 milljónir manna hafi verið svelt til bana í hungurmorðum kommúnistastjórnarinnar á árunum 1958-1962, í bók sinni Hin miklu hungurmorð Maó’s

Aðferðir kommúnistastjórnanna til að breiða yfir söguna voru dregnar fram fyrir allra sjónir, en enn eru nákvæmar tölur fórnarlamba hugmyndafræði og ógnarstjórna kommúnismans á reiki þar sem afar erfitt er að nálgast gögn. Kínastjórn hefur t.d. enn ekki fengist til að staðfesta að hungurmorðin hafi átt sér stað, en talið er að þarlendis hafi stjórnvöld, samtals myrt milli 70 og 80 milljón manns, skv. Rummel.

Aldrei aftur. Eða hvað?

Um skamma hríð gat heimurinn verið sammála um að kommúnisminn væri alvarlega misheppnað þjóðfélagsskipulag. Aldrei aftur, sögðu póst-módernistar og sagnfræðingar. Aldrei aftur, sögðu hagfræðingar og stjórnmálaflokkar. Aldrei aftur, sögðu íbúar fyrrum kommúnistaríkjanna. Aldrei aftur. En nú, 20 árum síðar, virðist aldrei aftur vera gleymt og grafið. Stjórnmálamenn, fræðimenn og jafnvel fjölmiðlar sem vilja láta taka sig alvarlega, fjalla nú um hugmyndafræði kommúnismans og sósíalisma af léttúð. The Wall Street Journal spurði árið 2016: Er kommúnismi kúl? Spyrjið þúsaldarkynslóðina. Háskólaútgáfa MIT Press gaf út Kommúnisma fyrir krakka og Teen Vouge afsakaði Karl Marx og kommúnisma í þessari grein.

Ungt fólk skreytir sig nú með uppgerðarlegum merkingum á borð við goth-kommúnisti, trans-kommúnisti, kommatík og umhverfiskommúnisti. Það glittir í hamar og sigð á háskólalóðum, í mótmælum og á samfélagsmiðlum. Kannanir sýna að ungt fólk annað hvort veit ekki hverjar þessar kommúnistastjórnir voru, eða tengir ekki nöfn þeirra við alvarlega glæpi gegn mannkyninu.

Til að losna við andstæðingana nú, þarf ekki lengur að setja fram rök eða staðreyndir gegn þeim. Í staðinn er nóg að koma með staðlausar ásakanir og misvísandi gögn. Nota ringulreið til að kynda undir hatur og ótta, alveg þar til að andstæðingnum er úthýst af stafrænum og öðrum vettvangi. Sagan þeirra er svo endurskrifuð eða strokuð út, úr hugum milljóna manna, í gegnum átakadrifið skeytingarleysi.

Sé barátta mannsins er baráttan við gleymskuna, þá er internetið, hvers tilgangur átti að vera að fræða og afla upplýsinga, nú sem eitt ærandi fuglabjarg offramboðs upplýsinga, og er vel til þess fallið að stroka út minningarnar. Vítisvél sem býr til nýja þjóðfélagsskipan á grunnsævi sögulegrar gleymsku.