Bjarni er bæjarlistamaður Garðabæjar 2019

Bjarni M. Bjarnason, bæjarlistamaður Garðabæjar 2019 og Gunnar Valur Gíslason, forseti bæjarstjórnar og formaður menningar- og safnanefndar Garðabæjar.

Bjarni M. Bjarnason rithöfundur er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2019. Tilkynnt var um val á bæjarlistamanni Garðabæjar á menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem var haldin í Sveinatungu á Garðatorgi í gær.

Á hátíðinni var einnig tilkynnt um úthlutun úr Hvatningarsjóði ungra listamanna þar sem 11 verkefni einstaklinga, samstarfshópa og skólahópa hlutu styrk og veittar voru viðurkenningar til Grósku, félags myndlistarmanna í Garðabæ og Félagi áhugamanna um sögu Besstaðaskóla fyrir merkt framlag til menningar og lista í Garðabæ. 

Bjarni M. Bjarnason fæddist í Reykjavík árið 1965 og er með BA í bókmenntafræði. Hann i á að baki ellefu skáldsögur auk níu annarra ritverka á sínum ferli. 

Bjarni bjó víða í æsku, bæði hér á landi og í Færeyjum og Svíþjóð, en hefur birti ljóð í blöðum og tímaritum á Íslandi frá unglingsaldri. Í upphafi ársins 1989 kom út fyrsta bók Bjarna, ljóðabókin Upphafið, og síðar sama ár birtist á prenti bókin Ótal kraftaverk sem inniheldur prósaljóð. Síðan hefur hann sent frá sér fleiri ljóðabækur, smásögur og skáldsögur auk þess sem hann hefur skrifað safn einþáttunga sem ber nafnið Dagurinn í dag. 

Meðal skáldsagna og skáldævisagna eru Sonur Skuggans, Endurkoma Maríu, Borgin bak við orðin, Mannætukonan og maður hennar, Andlit, Bernharður Núll, Leitin að Audrey Hepburn, Mannorð, Hálfsnert stúlka og Læknishúsið.

Önnur skáldsaga Bjarna, Endurkoma Maríu, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 1996 og tveimur árum síðar hlaut hann Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir skáldsöguna Borgin bak við orðin. Hann hefur hlotið verðlaun í smásagnakeppni Ríkisútvarpsins og skáldsaga hans, Mannætukonan og maður hennar vann til Bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness árið 2001. 

Bjarni var frumkvöðull að stofnun bókmenntatímaritsins Andblæs árið 1994, en þar er birti mest efni eftir unga höfunda til ársins 2000 og lagði áherslu á draumbókmenntir.

Endurminningar úr læknishúsi

Hann hefur setið í stjórn Rithöfundasambands Íslands, er formaður dómnefndar Ljóðastafs Jóns úr vör, og tekið þátt í fjölmörgum bókmenntahátíðum og upplestrum innanlands sem erlendis. Margar skáldsögur hans hafa einnig verið þýddar og gefnar út erlendis, meðal annars hefur skáldsagan Endurkoma Maríu komið út á ensku, arabísku og þýsku, síðast 2015 og skáldsagan Mannorð kom út á ensku árið 2017. 

Nýjasta skáldsaga Bjarna ,,Læknishúsið“ kom út í lok árs 2018 en hún fjallar að hluta til um sjálfsævisögulegar hliðar frá því að Bjarni bjó um tíma í gamla Læknishúsinu á Eyrarbakka, fyrst tíu ára gamall með öldruðum frændum sínum, öðrum blindum en hinum mállausum og síðar, árið 2011, með eiginkonu sinni, Katrínu Júlíusdóttur, fyrrum iðnaðarráðherra.

Þess má geta að Bjarni fékk úthlutað vinnuaðstöðu í burstabænum Króki á Garðaholti í Garðabæ í lok árs 2017 þar sem hann vann m.a. við að klára handrit að bókinni Læknishúsið, að því er segir á vef Garðabæjar.