Danski lögreglumaðurinn Axel Steen mættur hingað til lands

Metsöluhöfundurinn Jesper Stein.

Á dögunum kom út hjá Krumma bókaútgáfu spennusagan AISHA eftir danska metsöluhöfundinn Jesper Stein. Bókin kom út í Danmörku árið 2015 og varð strax metsölubók. Hún fékk verðlaun danskra bóksala sem bók ársins það ár.

Í bókinni tvinnast saman rannsókn morðs, sem framið er í nýjasta snobbháhýsi Kaupmannahafnar, og þriggja ára gamalt hryðjuverkamál, sem yfirvöld gera allt sem í þeirra valdi stendur til að þagga niður. Nútíminn og fortíðin kallast á og smám saman fer að skýrast hvernig málin tengjast. Það er lögreglumaðurinn Axel Steen sem stýrir rannsókninni en rekur sig á að yfirmenn í leyniþjónustunni reyna að hindra starf hans. Bókin er æsispennandi frá fyrstu síðu og heldur lesandanum föngnum alveg til loka þessarar 400 síðna bókar.

Þýðandi bókarinnar úr dönsku er Ólafur Arnarson. Viljinn settist niður með Ólafi og aðspurður um það hvort ekki væri erfitt að þýða úr dönsku sagðist hann hafa dvalið í Danmörku á yngri árum og eftir það ávallt gætt þess að lesa mikið á dönsku, ekki síst reifara. Þá hefði hann í störfum sínum fyrir alþjóðlega banka verið með Norðurlöndin á sinni könnu og átt mikil og góð samskipti við Dani. Í gegnum tíðina hefði hann mikið ferðast til Danmerkur og því væri danska honum nokkuð töm.

Jesper Stein hefur skrifað sex bækur um lögreglumanninn Axel Steen og allar hafa þær orðið metsölubækur, hlaðnar verðlaunum og viðurkenningum. Aisha er fjórða bókin í röðinni og við spurðum Ólaf hverju sætti að fyrst væri gefin út fjórða bókin í flokknum og hvort ekki væri nauðsynlegt að lesa fyrstu þrjár bækurnar áður en byrjað væri á þeirri fjórðu?

„Nei, hver bók stendur algerlega sjálfstæð. Þó vísað sé á einhverjum stöðum í mál, sem fjallað var um í fyrri bókum er engu ljósi varpað á þau mál þannig að hægt er að lesa bækurnar um Axel Steen í hvaða röð sem lesendur kjósa. Það er mikilvægt með alla svona bókaflokka, að hver bók sé algerlega sjálfstæð og óháð öðrum bókum í flokknum. Svona bækur seljast t.d. mikið á flugvöllum og þar grípur fólk bók til að lesa á ferðalögum og ætlast til að hægt sé að lesa án þess að vinna mikla heimavinnu fyrst. Nú er ég að þýða fimmtu bókina í flokknum og sú sjötta mun fylgja. Eftir það er alveg hugsanlegt að byrja á hinum endanum.

Ólafur Arnarson hagfræðingur.

Inn í söguþráð Aishu fléttast mál, sem hafa mjög verið í umræðunni undanfarin misseri, eins og hryðjuverkaógnina og samstarf CIA við leyniþjónustur annarra landa í baráttunni við hryðjuverk, fangaflug með meinta hryðjuverkamenn og hvar mörkin skuli liggja í slíku samstarfi en Bandaríkjamenn hafa verið gagnrýndir fyrir að virða ekki það sem flestum þykja sjálfsögð mannréttindi, líka þeirra sem grunaðir eru um hryðjuverk.

Aisha er í grunninn morðgáta sem breytist í pólitískan spennutrylli. Þetta er margradda saga. Við fáum meðal annars að kynnast sjónarhorni níu ára dóttur Axels Steen, sem óttast mjög um líf föður síns og hætturnar sem fylgja starfi hans. Jesper Stein spinnur vefinn meistaralega og þó ofbeldi sé vitanlega alltaf nálægt þegar um morðgátu er að ræða fer því fjarri að það sé hafið upp og dýrkað.“