Dauði Evrópu: Pólitískur rétttrúnaður og djúpstæð sektarkennd

Enski blaðamaðurinn og rithöfundurinn Douglas Murray er væntanlegur til landsins að ræða efni metsölubókar sinnar The Strange Death of Europe: Immigration, Identity, Islam eða Dauði Evrópu sem kom nýlega út á íslensku. Murray heldur fyrirlestur í Hörpu næstkomandi fimmtudagskvöld.

„Dauði Evrópu er áhrifamikil lýsing á siðmenningu sem á undir högg að sækja vegna fjöldainnflutnings fólks frá ólíkum menningarsvæðum. Pólitískur rétttrúnaður og djúpstæð sektarkennd Vesturlandabúa hefur gert þá ófæra um að spyrna við fótum og horfast í augu við staðreyndir.

Höfundur ferðaðist um Evrópulönd til að kynnast brestunum í vestrænni siðmenningu og hlýða á raddir þeirra sem hafa komið frá fjarlægum löndum og sest að í Evrópu,“ segir á bókarkápu, en það er Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður og fv. alþingismaður sem þýddi.

Douglas Murray nam enskar bókmenntir við Oxford-háskóla. Hann er ritstjórnarfulltrúi við vikublaðið The Spectator og dálkahöfundur í blöðum á borð við Wall Street Journal og Sunday Times. Þá er hann eftirsóttur fyrirlesari og stjórnmálaskýrandi.