Á næstu dögum kemur út bók eftir Björn Inga Hrafnsson, ritstjóra Viljans, um Ísland og COVID-19, þar sem skyggnst er á bak við tjöldin í viðbrögðum hér á landi við heimsfaraldrinum sem kom upp í Kína fyrir áramótin síðustu og hefur sett allt á hliðina. Viljinn birtir hér stutt brot úr einum kafla bókarinnar og mun gera slíkt kl. 16 næstu daga:
Forseta Íslands var líka boðið að vera heiðursgestur á bikarúrslitaleikjum karla og kvenna í handknattleik sem fram fóru í Laugardalshöll 7. mars. Hann afþakkaði og hafði áhyggjur af því að fylla ætti Laugardalshöllina af fólki á svo viðkvæmum tímapunkti í upphafi faraldurs.
Forráðamenn Handknattleikssambandsins höfðu leitað ráða hjá Almannavörnum og fengið hvatningu til að halda sínu striki. Það reyndist ekki heillaráð, því fjölmargir áhorfendur sem sóttu úrslitaleik karla milli Vestmannaeyinga í ÍBV og Stjörnunnar veiktust nokkrum dögum síðar, en höfðu þá borið veiruna með sér heim til Eyja. Í kjölfarið greindust tugir bæjarbúa, setja þurfti sérstakt samkomubann innan bæjarfélagsins og stór hluti bæjarbúa fór í sóttkví, þar á meðal bæjarstjórinn. Aðstoðarþjálfari Stjörnunnar greindist viku eftir leikinn og fór allt liðið í sóttkví.
Bókarhöfundi er kunnugt um að forsetinn hafi lýst áhyggjum sínum við Almannavarnir af því að til stæði að halda úrslitaleikina. Hann hafi tekið þá ákvörðun að mæta ekki, þrátt fyrir að Almannavarnir teldu óhætt að þeir færu fram. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, staðfestir það. Hann segir að eftir á að hyggja hafi verið mistök að leyfa þessa leiki, það segi sig sjálft.