Forstjóri Icelandair þrýsti á ráðherra vegna vandræða með skimun

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. / Skjáskot: Hringbraut.

Á næstu dögum kemur út bók eftir Björn Inga Hrafnsson, ritstjóra Viljans, um Ísland og COVID-19, þar sem skyggnst er á bak við tjöldin í viðbrögðum hér á landi við heimsfaraldrinum sem kom upp í Kína fyrir áramótin síðustu og hefur sett allt á hliðina. Viljinn birtir hér stutt brot úr einum kafla bókarinnar og mun gera slíkt kl. 16 næstu daga:

Þrýstingur á sóttvarnayfirvöld og ríkisstjórnina hélt áfram frá ferðaþjónustunni. Forsvarsmenn Samtaka ferðaþjónustunnar og stórra fyrirtækja innan greinarinnar höfðu kvartað mjög yfir kröfum um sóttkví og síðar skimun. Töldu þeir einsýnt að skimunargjald myndi leiða til afbókana og minni áhuga og höfðu miklar áhyggjur af því að skimunargeta við landamærin upp á 2.000 sýni á dag yrði til þess að fella þyrfti niður flug til landsins í júlímánuði með tilheyrandi tekjutapi fyrir grein, sem mætti ekki við fleiri áföllum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafði sagt að hann mælti ekki með því að farið yrði upp fyrir þá tölu. Bæði vildi hann ekki ofgera skimunargetunni og þar að auki vildi hann nota þetta tæki til að stýra þeim fjölda ferðamanna sem kæmu inn í landið. Miðað við þróun veirufaraldursins í útlöndum var ljóst, að óheft flæði farþega hingað til lands, gæti leitt til nýrrar bylgju innanlands.

Sunnudagskvöldið 12. júlí settist Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, fyrir framan tölvuna og sendi póst á nokkra ráðherra. Bókarhöfundur hefur með vísan til upplýsingalaga og þess að málið varði hagsmuni almennings, fengið afrit af honum og margvíslegum samskiptum öðrum sem varða lykilákvarðanir sem teknar voru í þessu ferli. Vekur athygli, að forstjóri Icelandair sendi bréfið ekki á sóttvarnalækni, heldur beint á fjóra ráðherra; alla þrjá oddvita ríkisstjórnarflokkanna og ferðamálaráðherrann.

Frá: Boga Nils Bogasyni
Sent: sunnudagur, 12.júlí 2020 21:26
Til: Katrínar Jakobsdóttur: Bjarna Benediktssonar, Sigurðar Inga Jóhannssonar, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur.

Efni: Takmarkanir á komu farþega til Keflavíkur

Heil og sæl.
Vona að sumarið sé að fara vel með ykkur.

Að öllu óbreyttu er það að fara að gerast eftir nokkra daga að takmarkanir á komum fólks til landsins mun valda því að fella þarf niður komur flugvéla til Keflavíkurflugvallar. Óháður samræmingarstjóri ákveður hvernig verður staðið að þessu og vegna þess að Icelandair er með flest flug til landsins kemur þetta verst niður á okkur.

Það liggur ljóst fyrir að Icelandair hefur staðið sig betur í samstarfinu við Isavia í þessu flókna ferli en önnur flugfélög og farþegar sem koma með okkur eru betur undirbúnir en farþegar annarra flugfélaga að meðaltali. Það er jafnframt ljóst að þeir einstaklingar sem fylla sóttvarnarhúsið koma flestir með öðrum flugfélögum en Icelandair og frá öðrum löndum en þeim sem Icelandair er með mesta tíðni á.

En eins og þið þekkið er álag á sóttvarnarhúsið og kerfið almennt í landinu að valda takmörkunum á komum til Keflavíkur en ekki endilega afkastageta við skimum. Þessi þróun er mjög óheppileg og hefur neikvæð áhrif á uppbyggingu leiðarkerfis Icelandair og hefur jafnframt neikvæð áhrif á íslenska ferðaþjónustu og íslenskt hagkerfi.

Ekki þarf að minnast á að næstum allir okkar starfsmenn borga skatta og skyldur hér á landi en það á ekki við um hin flugfélögin. Við erum að sjá lönd í kringum okkur forgangsraða með ýmsum hætti til að styðja sem best við hagkerfi viðkomandi landa. Það eru þá stjórnvöld sem setja reglur, reglugerðir og lög en ekkert slíkt hefur verið gert hér og því getur samræmingarstjórinn eingöngu tekið á málinu í takt við reglur sem gilda þegar gangverkið í heiminum er eðlilegt.

Eigi að koma til önnur sjónarmið er það hlutverk stjórnvalda að setja slíkar reglur og stýra umferð með þeim hætti sem þeim þykir eðlilegast.

Við óskum hér með eftir fundi með stjórnvöldum til þess að ræða þessi mál og hugsanlegar útfærslur þannig að ekki þurfi að koma til niðurfellingar á arðbærum flugum til og frá landinu frá og með 15. júlí.

Kveðja, Bogi.

Dr. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Lögreglan

Fundað var í stjórnkerfinu um þessa stöðu daginn eftir, mánudaginn 13. júlí 2020, og kom fram mikill vilji til að koma til móts við þarfir Icelandair í þessum efnum. Bæði var talið að félagið mætti ekki við efnahagslegum skakkaföllum á þessum tímapunkti og hitt, að gjaldeyristekjur af þessum ferðamönnum væru eftirsóknarverðar og því brýnt, að finna leið til að komast framhjá takmörkunum vegna skimunargetu.

Lausnin fannst og var kynnt formlega degi síðar, þriðjudaginn 14. júlí. Ákveðið var að ferðamenn frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Þýskalandi bættust á lista með Færeyjum og Grænlandi og yrðu frá og með fimmtudeginum 16. júlí undanþegnir kröfum um skimun og sóttkví vegna COVID-19.

„Þar af leiðandi munu ferðamenn sem koma frá þessum löndum verða undanþegnir sóttkví og skimunarkröfum sem eiga almennt við um farþega sem koma til Íslands. Íslendingar sem snúa aftur heim verða einnig undanþegnir lögboðnum varúðarráðstöfunum, en eru hvattir til að sýna varúð fjórtán daga eftir heimkomu, viðhalda einstaklingsbundnum smitvörnum og forðast á þeim tíma samneyti við viðkvæma einstaklinga,“ sagði í tilkynningu frá sóttvarnalækni.

Á upplýsingafundi Almannavarna, sem aftur voru orðnir að föstum lið í beinni útsendingu, var sóttvarnalæknir spurður hvort hann væri með þessu að láta und­an þrýst­ingi frá ferðaþjón­ust­unni.

Svar hans var svohljóðandi:

„Ef við erum að fara yfir getu okk­ar til að sinna meiru en 2.000 sýn­um er um tvo kosti að ræða, annaðhvort að flýta þess­ari ákvörðun um eina eða tvær vik­ur, eða þá að grípa til mjög harðra aðgerða til að stöðva inn­komu flugs sem hefði þýtt laga­setn­ingu og meiri­hátt­ar mál. Þegar maður skoðar þessa tvo kosti finnst mér ekki vafi á því að það er ein­fald­ara að taka kost­inn sem við grip­um til. Í mín­um huga er það ekki að láta und­an einu eða neinu held­ur bara fara eft­ir þeim plön­um og prinsipp­um sem við höf­um verið að nota all­an tím­ann.“

Páll Þór­halls­son verk­efna­stjóri í for­sæt­is­ráðuneyt­inu, sagði á sama fundi, að ekki hafi verið hægt fyr­ir sam­ræm­ing­ar­stjóra á flug­vell­in­um að velja og hafna um hvaða flug­fé­lög fengju pláss á vell­in­um, ef hefta hefði þurft flæði til lands­ins.