„Elín S. Jónsdóttir, frægasti glæpasagnahöfundur þjóðarinnar, er horfin“ er nokkurn veginn það eina sem gefið hefur verið út opinberlega um efni nýrrar glæpasögu eftir Ragnar Jónasson, Hvítalogn sem kemur út í dag. En óhætt er að segja að aðdáendur Ragnars geti sett sig í gamalkunnar stellingar. Það er veisla í vændum.
„Það er einstök tilfinning að halda á nýrri bók, og jafnvel þótt ég sé yfirleitt um svipað leyti að gefa út aðra titla á erlendum tungumálum, þá á nýja bókin hérna heima hug minn allan hverju sinni,“ segir Ragnar í spjalli við Viljann á útgáfudegi, en þessi ótrúlega afkastamikli og vinsæli rithöfundur sinnir lögmennsku meðfram ritstörfunum, sem hafa gert fært honum heimsfrægð. Varla líður sú vika ársins að bók eftir Ragnar sé ekki einhvers staðar að koma út, nú eða að kvikmynda- eða sjónvarpsverkefni eftir verkum hans séu í undirbúningi.
Ragnar segir að útgáfudagurinn sé að einhverju leyti eins og afmælisdagur. „Því þennan dag held ég alltaf útgáfuboð þar sem ég hitti gamla og nýja vini,“ bætir hann við og er rokinn í eitthvert verkefnið.
Fyrir áhugafólk um glæpasögur, sem er fjölmennur hópur, er auðvitað skemmtilegt að velta söguþræðinum frekar fyrir sér. Ragnar hefur auðvitað þýtt margar perlur Agöthu Christie yfir á íslensku, en sá rómaði höfundur var einmitt aðalpersónan í mannshvarfi sem vakti mikla athygli í Bretlandi í desember árið 1926. Fannst hún ekki fyrr en ellefu dögum síðar og hefur hvarf hennar orðið mörgum rannsóknarefni æ síðan.