Frelsið til tjáningar og rökræðu er ein af burðarstoðum lýðveldisins

Arnar Þór Jónsson fv héraðsdómari og nú varaþingmaður. / RAX.

„Þvert gegn því sem lesa má úr umfjöllun fjölmiðla, þar sem stöðugt er verið að kljúfa samfélagið í tvo andstæða hluta, hópa eða fylkingar, hef ég fyllst bjartsýni við það að finna einlægan stuðning fólks úr öllu litrófi stjórnmálanna við frjálsa tjáningu,“ segir Arnar Þór Jónsson héraðsdómari, sem hefur sent frá sér bókina Lög og landsmál.

Arnar Þór vakti þjóðarathygli með greinaskrifum sínum og málflutningi í umræðunni um þriðja orkupakkann fyrr á árinu. Hann segir í færslu á fésbók, að þótt við munum ekki alltaf vera sammála um stefnumörkun sé ágreiningur um það í sjálfu sér dýrmætur.

„Frelsið til tjáningar og rökræðu er ein af burðarstoðum lýðveldisins. En til að það skili árangri þurfum við ekki bara að kunna að tala, heldur líka að hlusta. Það er ekki nóg að vilja kenna, við þurfum líka að vilja læra. Og það er dugar ekki að krefja aðra um umburðarlyndi: Við þurfum líka að geta sýnt umburðarlyndi.

Fjölmenni samfagnaði útgáfu bókarinnar með Arnari Þór á dögunum.

Sagan sýnir að þegar við hættum að sýna hvert öðru kurteisi og virðingu þá molnar undan samfélagsgerðinni. Skortur á tillitssemi og varfærni grefur undan vináttu og vinsemd. Samhliða slíkri þróun eykst þrýstingur á að komið verði á röð og reglu með hvers kyns þvingunaraðgerðum.

Alræðisríki 20. aldar eru víti til varnaðar. Þar átti að endurskapa samfélagið á grundvelli hugmyndafræði. Kenningar og kreddur voru settar á stall og sagðar svo göfugar að samræða um þær var óleyfileg. Þetta gekk svo langt að mönnum var bannað að lýsa efasemdum og andstöðu við hina opinberu stefnu.

Tilgangurinn var látinn helga meðalið: Valdhafar notuðu hinn „göfuga“ tilgang til að réttlæta þöggun, valdbeitingu og ofríki. Það endaði ekki vel þá – og sömu lögmál gilda enn, þótt komið sé fram á 21. öld,“ segir hann ennfremur.