Handtekinn á Íslandi, grunaður um að vera nasisti

Bók dagsins: Afi minn stríðsfanginn eftir Elínu Hirst, útgefandi Bjartur-Veröld.

„Bókin fjallar um föður afa minn Karl Hirst sem var Þjóðverji og var handtekinn hér á landi 1940 eftir hernám Breta, grunaður um að vera nasisti. Nær allir Þjóðverjar, með þýskt ríkisfang og á herskyldualdri sem hér bjuggu voru handteknir. Afi var giftur íslenskri konu, föður ömmu, Þóru Mörtu Stefánsdóttur kennara og þau áttu tvo unga syni,“ segir Elín Hirst, rithöfundur og fyrrverandi fréttastjóri og alþingismaður, við Viljann í spjalli um nýútkomna bók hennar, sem ber hið forvitnilega og persónulega heiti: Afi minn stríðsfanginn.

Það liggur beinast við að spyrja, hvers vegna Elín ákvað að skrifa þessa sögu?

Karl Hirst afi Elínar var tekinn til fanga sumarið 1940 vegna þess að hann var þýskur ríkisborgari og sat í 5 ár í stríðsfangabúðum í Bretlandi. 

„Það má segja að þessir hörmulegu atburðir hafi sett mark sitt á fjölskylduna alla tíð, en íslensk stjórnvöld neituðu afa og fleiri Þjóðverjum í sömu sporum um að koma til Íslands eftir stríð árið 1945 og þeir voru sendir nauðugir til Þýskalands. Afi kom loks heim til Íslands árið 1947 og förin heim var með nokkuð ævintýralegum hætti,“ svarar hún án þess að upplýsa um of mikið.

Og hvernig er svo að taka þátt í íslenska jólabókaflóðinu? Lesa upp, fylgjast með bóksölu, lesa dóma? Er þetta jafnvel innbyrðis keppni milli rithöfunda?

„Það er afar gaman að taka þátt í jólabókaflóðinu. Þetta er þriðja bókin sem kemur út eftir mig, þannig að ég þekki stemninguna. Já maður fylgist mjög vel öllu sem er skrifað um bókin og mætir á ýmsa staði til að lesa upp úr bókinni. Nei, ég lít ekki á þetta sem keppni,“ svarar hún ákveðið.

Rithöfundurinn Elín Hirst er alltaf að og hún segir flestar frístundir sínar hafa farið í þessa bók á undanförnum mánuðum. „Þetta fangar huga manns algerlega,“ segir hún og upplýsir um leið að hún sé með aðra bók í farvatninu: „Já, ég er að skrifa aðra bók sem einnig tengist föðurfjölskyldu minni, og þá fer ég lengra aftur í tímann með söguþráðinn.“

Atburðir sem aldrei gleymast
Reykjavík 5. júlí 1940

Það var föstudagsmorgun. Úti var sól og blíða og dagurinn virtist ætla að vera einn af þessum fallegu sumardögum í Reykjavík. Átta vikur voru liðnar frá hernámi Breta á Íslandi. Síðustu vikur höfðu verið mjög erfiðar á Undralandi því að húsbóndinn var þýskur ríkisborgari og átti yfir höfði sér handtöku. Undraland, þar sem afa og amma bjuggu, stóð þar sem Listhúsið við Engjateig stendur nú. Bretar höfðu handtekið fjölda Þjóðverja sem bjuggu hér á landi og í því ástandi sem ríkti grunuðu þeir alla Þjóðverja um græsku.

Föðuramma Elínar með syni sína, Stefán Hirst föður Elínar og Karl Jóhann Má Hirst föðurbróður hennar.

Afi var farinn til vinnu en amma og synir þeirra tveir, tæplega tveggja ára og fimm ár vildu lúra aðeins lengur. ….

Skyndilega heyrðu þau fyrirgang og hávaða á neðri hæðinni. Síðan hlupu einhverjir upp stigann að íbúðinni eins og mikið lægi við, opnuðu íbúðina sem var ólæst, komu fyrst inn í borðstofuna og þaðan inn í svefnherbergi afa og ömmu. Þetta voru þrír breskir hermenn vopnaðir rifflum með byssustingjum, sem þeir beindu að ömmu, pabba og litla bróður hans af stuttu færi. Amma hrópaði upp af skelfingu og drengjunum var illa brugðið og fóru báðir að gráta. Hermennirnir spurðu skipandi röddu hvort Þjóðverjinn Karl Hirst byggi hér. Þeir yrðu að tala við hann undireins!

Afi minn stríðsfanginn, eftir Elínu Hirst. (bls. 17)