Hefur keppt við Arnald Indriða frá því á síðustu öld, en Ólafur Jóhann vinnur alltaf

Það eru alltaf tíðindi þegar ný bók kemur út eftir Stefán Mána. En hann hefur líka mörg járn í eldinum; Hyldýpi kom út í Þýskalandi í október og er að seljast vel, svo vel reyndar að útgefandinn er búinn að tryggja sér réttinn að Húsinu. Það vill svo skemmtilega til að Hannes Þór Halldórsson, leikstjórinn og fyrrverandi landsliðsmarkvörðurinn, ætlar að gera kvikmynd byggða á Húsinu. Snemma á þessu ári komu út þrjár bækur um Hörð Grímsson í Bandaríkjunum; Svartigaldur, Horfnar og Dauðabókin. Sömu bækur komu út í Danmörku og Finnlandi í sumar og koma út í Svíþjóð á næsta ári.

„Þannig að það er nóg að gerast!“ þegar Viljinn heyrði í honum til að forvitnast um nýju bókina, stress jólabókaflóðsins og næstu verkefni. En ekki hvað.

Borg hinna dauðu fjallar um dularfull mannshvörf, týndar konur, mansal, skipulagða glæpastarfsemi og hið illa sem býr í mannshjartanu. En hún fjallar líka um dæmigerðan íslenskan hversdagslegan hlut eins og að skipta um dreni. Ég fékk hugmyndina að sögunni þegar nágranni minn byrjaði að moka fyrir nýju dreni við húsið sitt. Ég fór að velta því fyrir mér hvað hann gæti fundið grafið þarna við húsgaflinn,“ segir Stefán Máni um nýjustu spennusögu sína sem komin er út.

Hvers vegna ákvaðstu að skrifa hana?

„Mér fannst hugmyndin góð og ég vissi að þetta væri verðugt verkefni fyrir hann Hörð Grímsson vin minn. Hann er rannsóknarlögreglumaður sem býr í höfðinu á mér. Við Hörður erum búnir að vinna saman í meira en tuttugu ár. Ég er farinn að þekkja hann ansi vel og hann er orðinn mun vinsælli og frægari en ég.“

Þetta er heljarinnar rússibanareið. Mjög krefjandi, stressandi, skemmtilegt og taugatrekkjandi

Hvernig er að taka þátt í íslenska jólabókaflóðinu? Lesa upp, fylgjast með bóksölu, lesa dóma. Er þetta keppni?

„Þetta er heljarinnar rússibanareið. Mjög krefjandi, stressandi, skemmtilegt og taugatrekkjandi. Það er spennandi að gefa út nýja bók, það er gaman að fara í viðtöl og mjög skemmtilegt og gefandi að lesa upp. En það getur verið stressandi að fylgjast með bóksölu og allri samkeppninni.

Þegar bók kemur út er ég nánast búinn að gera mitt og markaðurinn tekur við. En ef bók þykir góð, þá selst hún yfirleitt vel, það er svona mín reynsla. Þó að lélegar bækur geti auðvitað líka selst í bílförmum – það gerist á hverju ári. En fyrir utan stressið og spennuna er þetta mest gaman og gefandi.

Þú spurðir hvort þetta væri keppni. Þetta er vissulega keppni. Keppni um athygli, keppni um lesendur, keppni um sæti á lista og svo framvegis. Ég er búinn að vera að keppa við Arnald Indriðason frá því á síðustu öld. En það kapphlaup er fyrirfram tapað fyrir okkur báða því Ólafur Jóhann vinnur alltaf.“

Er höfundurinn alltaf að? Meira í farvatninu?

„Ég er alltaf að, það er bara þannig. Ég skrifa á hverjum degi, alla daga ársins. Ef ég væri ekki að skrifa þessi svör fyrir þig núna væri ég að vinna í nýrri bók. Svo hættu að trufla mig! Að öllu gamni slepptu, er ég að vinna að tveimur bókum eins og er. Það eru ólíkar bækur en koma báðar úr hausnum á mér. Önnur fjallar um Hörð Grímsson en hin ekki. En þessa dagana fer auðvitað mikill tími i kynningar á nýju bókinni, og það er bara eðlilegt. Borg hinna dauðu er að slá í gegn hjá lesendum og mjög gaman að fylgja þessum vinsældum eftir.“

Brot úr Borg hinna dauðu

Klukkan er hálftíu á þriðjudagskvöldi og Hörður Grímsson er enn í vinnunni. Hann situr í básnum sínum á rannsóknardeildinni og er að skrifa skýrslu um dauðsfall sem er í besta falli manndráp af gáleysi, í versta falli morð. Tveir drukknir erlendir verkamenn höfðu verið að rífast úti á svölum á fjórðu hæð í blokk í Breiðholti. Annar þeirra hafði fallið niður af svölunum í kjölfarið og látist. Hinn er enn í gæsluvarðhaldi. Hörður er búinn að yfirheyra hann fjórum sinnum, með aðstoð túlks. Mennirnir voru vinnufélagar og vinir og málið er í senn sorglegt og niðurdrepandi.

Rannsóknardeildin er á þriðju hæðinni á lögreglustöðinni við Hverfisgötu, vestanmegin í húsinu. Básinn hans Harðar er gluggamegin í opnu skrifstofurými sem er loftlaust og lyktar af svita, rakspíra og kaffi og aldrei kallað annað en Hellirinn. Gluggaröðin er á norðurvegg byggingarinnar og þaðan er útsýni út á Faxaflóann, sem þessa stundina baðaður rauðum geislum geislum setjandi sólar.

 Hörður er einn í hellinum og þar ríkir þögn, fyrir utan smellina í lyklaborði tölvunnar. Hann hrekkur við þegar síminn hringir. Hann bölvar í hljóði áður en hann svarar. Hann sér að um innanhússsímtal er að ræða.

„Hörður.“

„Sæll. Þetta er niðri á samskiptum. Það var verið að hringja frá Neyðarlínunni. Einhver var að tilkynna um hugsanlegan líkfund í garði við Réttarholtsveg. Ég get sent nærliggjandi bíl á staðinn en sá á innranetinu að þú ert enn í húsi. Viltu taka þetta?“

Hörður hallar sér aftur í stólnum. Forvitni hans er vakin. „Líkfundur?“

„Bein eða eitthvað ámóta. Sá sem hringdi var að grafa holu og fann eitthvað grunsamlegt. Líklega bara hræ af dýri, ég veit það ekki.“

Hörður lítur á tölvuskjáinn. Hann er orðinn leiður á skýrslugerðinni, kominn með hausverk og fótapirring og er alveg til í að komast út. „Ég skal skoða þetta. Sendu mér helstu upplýsingar.“

BORG HINNA DAUÐU eftir Stefán Mána. Útgefandi: Sögur útgáfa 2023.